Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 23:45:00 (597)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að leiðrétta það sem rangt er með farið. Hv. 3. þm. Vestf. gerði sig sekan um það og hélt því fram að ég vildi sverja af mér allan stuðning við búvörusamning. Það er rangt eins og þingmanninum er í raun og veru kunnugt um. Ég lýsti yfir stuðningi við búvörusamninginn í aðalatriðum sem meira að segja var veifað hér og lesinn upp af ekki ómerkari manni en hæstv. forsrh. á sl. vorþingi.
    Ég vil benda hv. 3. þm. Vestf. á það að Sjálfstfl. var með mjög sérkennilegar áherslur í þessum málum í kosningabaráttunni og þar á meðal hæstv. núv. forsrh. sem fannst að búvörusamningurinn gengi of nærri bændum og vildi ganga skemur í átt til skerðingar og taka hana út á lengri tíma heldur en ráð er fyrir gert. Það eru allir möguleikar hjá hæstv. núv. ríkisstjórn og þeim þingmönnum sem að henni standa að beita sér fyrir endurskoðun á samningnum til þess að mæta þeim sjónarmiðum sem menn héldu fram í kosningabaráttunni. Það bólar hins vegar ekkert á þeirri endurskoðun og það segir mér að sjálfstæðismenn meintu ekkert með því sem þeir voru að halda að bændum í kosningabaráttunni sl. vor.