Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 00:25:00 (616)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég held að eitt af því sem þurfi að gera til þess að koma verklagi á þetta þing sé það að við alþingismenn og sér í lagi stjórnendur þingsins fái ferðaáætlanir ráðherra þessarar ríkisstjórnar. Það mundi auðvelda mjög þingstarfið hér að við hefðum það fyrir okkur hvenær ráðherrar væru hér heima og hvenær ekki. Það vekur einnig athygli mína og margra fleiri, og ég leyfi mér að draga það í efa að sumir hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafi setið hér meira en sem svarar einum vinnudegi okkar alþingismanna. Ég efast um að sumir hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafi gefið sér meiri tíma til að fylgjast með umræðum heldur en sem nemur, eins og ég segi, einum vinnudegi venjulegs þingsmanns.