Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 13:58:00 (619)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Eins og menn vita eru utandagskrárumræður leyfðar um mál sem ekki þola neina bið. Ég þakka hv. frummælanda fyrir þolinmæðina að bíða á fimmtu viku. Ég var fjarverandi fyrstu tvær vikurnar eftir að óskað var eftir þessari umræðu og síðan hafa liðið aðrar tvær vikur án þess að þetta mál hafi getað komið hér fyrir. Ég þakka þá þolinmæði sem hefur þarna verið sýnd.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir hóf mál sitt á því að ræða um hina uggvænlegu þróun sem hún sér fyrir varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna ef marka megi fréttir, eins og hún komst að orði. Mér skilst að áhyggjur hv. þm. beinist fyrst og fremst að því hverjar verði úthlutunarreglur lánasjóðsins og hvernig lögum lánasjóðsins kunni að verða breytt. Það var minna talað um hver væri hinn raunverulegi fjárhagsvandi sjóðsins. Þó sagði hv. þm. og

viðurkenndi að lántökur eins og hafa átt sér stað í sjóðnum gangi ekki áfram og talaði um það eins og fortíðarvanda fyrri ríkisstjórna.
    Þetta er vissulega rétt. Þarna er um ákveðinn fortíðarvanda að ræða en ég hlýt að benda á það strax í upphafi að þeir sem stórtækastir voru í lántökum fyrir Lánasjóð ísl. námsmanna voru þeir sem fóru með völdin í þessu landi sl. þrjú ár og komu Lánasjóði ísl. námsmanna í mikinn vanda. Þessum vanda er auðvitað ekki hægt að ýta á undan sér, það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur. Þingmaðurinn eyddi svo töluverðum tíma í að ræða þær hugmyndir sem nefnd sú er ég skipaði á sl. sumri hefur lagt fram. Ég hef sagt það áður, mér finnst eins og menn ræði þessar tillögur sem þær væru orðnar að lögum. Svo er alls ekki og ég segi það strax, og ég hef sagt það áður í þessum ræðustóli, að það hefur engum manni dottið í hug, ekki heldur þeim sem skipuðu þessa nefnd að allar tillögur nefndarinnar næðu fram að ganga. Þetta eru hugmyndir sem menn hafa fyrir framan sig til þess að ræða og velja og hafna. Fleiri hugmyndir eru að sjálfsögðu á borðinu og eiga eftir að koma fram. Þetta vil ég taka fram strax í upphafi.
    Afskipti fyrrv. ríkisstjórnar af fjármálum Lánasjóðs ísl. námsmanna eru hins vegar um margt dæmigerð fyrir ábyrgðarleysi þeirrar ríkisstjórnar yfirleitt á sviði ríkisfjármála. Megineinkenni þessara afskipta voru að hækka námslán og rýmka reglur til allrar námsaðstoðar án þess að gera ráðstafanir til þess að greiða þann kostnað af skatttekjum sem óhjákvæmilega féll til vegna þessarar auknu aðstoðar. Ég er ekki að sjá ofsjónum yfir þessari auknu aðstoð, alls ekki, en menn verða þá að láta athafnir fylgja í samræmi við þessar ákvarðanir. Það var ekki gert og af því stafar meginvandi sjóðsins einmitt núna. Það voru sem sagt tekin stóraukin lán með háum raunvöxtum til þess að lána námsmönnum vaxtalaust til allt að 42 ára og það þarf ekki mikinn stærðfræðing til þess að sjá það að svona lagað getur alls ekki gengið til lengdar.
    Núv. ríkisstjórn tekur við miklum vanda þar sem lánasjóðurinn er. Fyrrv. menntmrh. og fyrrv. ríkisstjórn stóðu í því að hækka námslánin og lækka framlögin til sjóðsins. Þetta eru einfaldar staðreyndir. Það var verið í raun og veru --- ég vil ekki segja vísvitandi, ég vil ekki nota það orð --- en það var verið að grafa undan sjóðnum og skuldsetja hann til frambúðar. Þetta eru einfaldar staðreyndir. Núv. ríkisstjórn þarf að bjarga Lánasjóði ísl. námsmanna og reyna að tryggja framtíð hans sem sjóðs, sjóðs sem hefur það hlutverk að tryggja jafnrétti til náms, að bágur fjárhagur hindri ekki fólk í að afla sér menntunar. Ef áfram hefði verið rekin stefna fyrrv. ríkisstjórnar varðandi sjóðinn þá er ljóst að í gjaldþrot stefndi.
    Við skulum aðeins athuga hvernig fyrrv. ríkisstjórn hélt á málum. Árið 1988, þegar unnið var eftir fjárlögum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, námu framlög ríkisins yfir 80% af heildarnámsaðstoð. Í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar voru þessi framlög ríkisins skorin niður á hverju ári á sama tíma og útlánareglur sjóðsins voru rýmkaðar. Á yfirstandandi fjárlagaári 1991 nema framlög ríkisins um 40% af heildarnámsaðstoð. Fyrrv. menntmrh. hafði það af að skera framlag ríkisins til LÍN um rúman helming og ef litið er á krónutölurnar kemur í ljós að hann skar niður framlagið úr tæplega 2,4 milljörðum árið 1988 í rúmlega 1,7 milljarða í ár, 1991. Á sama tíma hækkuðu útgjöld sjóðsins úr rúmlega 2,9 milljörðum í rúmlega 4,5. Þetta eru alveg blákaldar staðreyndir.
    Þegar núv. ríkisstjórn tók við völdum í vor lágu þær upplýsingar fyrir hjá stjórn LÍN að á þessu ári stefndi í að vantaði hátt í 700 millj. kr. til að sjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar sínar að óbreyttum reglum. Í stjórn LÍN sátu þá fulltrúar þáv. menntmrh. og fjmrh. Upplýsinganna höfðu þeir aflað. Núv. ríkisstjórn brást þannig myndarlega við þessum vanda að það var ákveðið að leggja annars vegar til 400 millj. kr. aukafjárveitingu nú í haust og ná hins vegar fram sparnaði í útgjöldum sjóðsins sem næmi 250--300

millj. kr. Þetta taldi stjórn sjóðsins að ætti að duga til þess að endar næðu saman á þessu ári.
    Nýjar greiðsluáætlanir Lánasjóðs ísl. námsmanna vegna ársins í ár sýna glöggt þetta algera ábyrgðarleysi fyrri ríkisstjórnar í fjármálum hans. Í þessum nýju áætlunum kemur fram að námsaðstoð er vanáætluð um meira en 1 milljarð kr., 1.050 millj. kr. í fjárlögum miðað við gildandi úthlutunarreglur þegar fjárlög voru afgreidd. Ég tek það skýrt fram, þegar fjárlög voru afgreidd. Og ég endurtek að í gildandi fjárlögum sem stuðningslið fyrrv. ríkisstjórnar samþykkti á Alþingi er gert ráð fyrir 1.730 millj. kr. fjárveitingu til sjóðsins. Að óbreyttum úthlutunarreglum fyrrv. menntmrh. hefði námsaðstoð á árinu kostað yfir 5.500 millj. kr. Af því að það var vitnað vitnað í skýrslu Ríkisendurskoðunar áðan þá hefði að mati hennar fjárveiting þurft að vera 66% af þeirri fjárhæð eða a.m.k. 3.600 millj. kr. til þess að sjóðurinn væri á sléttu og ekki á leið í þrot. Þetta má lesa alveg skýrum stöfum í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Með öðrum orðum, það hefði þurft meira en tvöfalda þá upphæð í fjárveitingu sem þingmeirihluti fyrrv. ríkisstjórnar samþykkti þegar fjárlög voru afgreidd í sl. desembermánuði. Það er athyglisvert í þessu sambandi að minna á að fjárveiting til sjóðsins var lækkuð um 100 millj. kr. við fjárlagaafgreiðsluna en ekkert var gert af hálfu fyrrv. ráðherra og stjórnar LÍN til þess að breyta úthlutunarreglum í samræmi við þær ákvarðanir né þann raunveruleika sem við blasti í fjármálum sjóðsins að öðru leyti. Það er deginum ljósara að öllu þessu ráðslagi má líkja við að koma fyrir tímasprengju í námslánakerfinu. Innan örskamms tíma hefðu þessi afskipti fyrrv. ríkisstjórnar af fjármálum LÍN leitt til þess að sjóðurinn hefði orðið gjaldþrota. Það er augljóst þegar litið er á síminnkandi fjárveitingar til LÍN á undanförnum árum að Alþingi hefur ætlast til þess af menntmrh. og fulltrúum ríkisvaldsins í stjórn LÍN að útlánareglum yrði breytt í samræmi við minnkandi fjárframlög. Þessi skilaboð hafði fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. stjórn LÍN að engu. Í stað þess að draga saman útlán LÍN hafa þau verið stóraukin. Slíkt er vítavert kæruleysi og stefnir framtíð sjóðsins í voða. Þetta er það ástand sem við tókum við í vor. Í þrjú ár hafði engu verið skeytt um framtíðina, afleiðingarnar sem við stöndum frammi fyrir eru þær að sjóðurinn er kominn í þrot. Á þessu ári vantar, eins og ég sagði áðan, á annan milljarð til þess að sjóðurinn geti staðið við þau loforð sem gefin höfðu verið.
    Ríkisstjórnin hefur brugðist við vandanum, fortíðarvanda skulum við kalla hann, sem stofnaði framtíð lánasjóðsins í voða. Við brugðumst við þessu að nokkru leyti með breyttum úthlutunarreglum á sl. vori. En það þarf áreiðanlega meira til. Það er ljóst að það þarf að breyta lögum lánasjóðsins og ég vona að það geti orðið nú á haustþinginu.
    Fyrsta skrefið til þess að rétta við hag sjóðsins til viðreisnar LÍN var sem í vor þegar úthlutunarreglunum var breytt. Þá var m.a. hætt að gefa út innstæðulausa tékka til námsmanna sem fyrrv. ráðherra menntamála gerði í raun með þeirri 20% hækkun námslána sem ákveðin var á árunum 1989--1990 án þess að sjá til þess að kostnaður vegna þessa væri greiddur af framlögum á fjárlögum. Þetta eru líka blákaldar staðreyndir. Annað skrefið verður vonandi stigið með breytingu á lögum lánasjóðsins hér á Alþingi nú fyrir jól. Þriðja skrefið er óhjákvæmilegt að stíga í verulegum breytingum á úthlutunarreglum í kjölfar lagabreytinga. Ástæðurnar eru þessar: Breytingar á úthlutunarreglum í vor þýða 250 millj. kr. sparnað á þessu ári og væntanlega 750 millj. kr. sparnað á árinu 1992. Samt stefnir í að óbreyttu að námsaðstoð muni kosta um 4.500 millj. kr. á árinu 1992. Það þýðir þörf fjárveitingar á fjárlögum sem nemur tæpum 3 milljörðum kr. Frammi fyrir þessum staðreyndum standa hv. alþm. Mér sýnist þetta vera einfaldlega of há fjárhæð, hvernig sem á það er litið. En um það mun Alþingi að sjálfsögðu fjalla.
    Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1992 er ætlunin að verja um 2.000 millj. kr. til þess að reka Háskóla Íslands og um 600 millj. til hliðstæðra menntastofnana. Samtals eru

þetta um 2,6 milljarðar eða mun lægri tala en námsaðstoð samkvæmt núgildandi úthlutunarreglum LÍN mundi kosta, ef ekki væri gripið til frekari aðgerða. Nú má vel vera að það sé auðvelt fyrir þá sem segja að það eigi einfaldlega að hækka skatta um 8--9 milljarða, við höfum heyrt það, við heyrðum það í kosningabaráttunni, m.a. frá hæstv. fyrrv. menntmrh. Það er auðvelt fyrir þá sem eru tilbúnir að hækka skatta um 9 milljarða kr. að segja að þessi upphæð til háskólastigsins sé einfaldlega of lág, það eigi bara að hækka hana um leið og það eigi að hækka bein framlög ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þetta er út af fyrir sig skoðun sem Alþingi verður þá auðvitað að taka afstöðu til.
    Það er alkunna, sem ég þarf í sjálfu sér ekkert að rekja hér, að ákveðinn vandi steðjar að þjóðarbúinu, það er vandi í ríkisfjármálum. Það er líka alkunnugt að núv. ríkisstjórn ætlar ekki að leggja á aukna skatta til þess að leysa þennan vanda. Fjárveiting til LÍN á núgildandi verðlagi nam að jafnaði u.þ.b. 2 milljörðum kr. ef litið er nokkur ár eftir í tímann. Miðað við aðrar fjárveitingar til menntamála og allar aðstæður sýnist mér að það sé sú fjárhæð sem menn verða að staðnæmast við og láta duga. Með því á að nást það markmið að allir eigi kost á framhaldsmenntun án tillits til efnahags. Með skynsamlegu nýju kerfi námsaðstoðar, skýru og einföldu, er áreiðanlega hægt að ná því markmiði með þá fjárhæð skattpeninga að leiðarljósi. Með slíkri stefnumótun er hægt að festa í sessi námslánakerfi sem stenst og námsmenn geta reitt sig á til frambúðar. Þess vegna er það ekki síst í þágu námsmanna að takist að reisa Lánasjóð ísl. námsmanna við og fjarlægja þá tímasprengju sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig. Við þetta er öll stefnumótun og ráðstafanir núv. ríkisstjórnar miðaðar. Ríkisstjórnin er staðráðin í að bjarga, að reisa við og efla Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er órjúfanlegur þáttur í menntastefnu hennar. En hvernig á svo að reisa við lánasjóðinn? Á þessari stundu hef ég ekki svör á reiðum höndum við þeirri stóru spurningu.
    Ég skipaði nefnd þann 6. júní sl. undir forustu Guðmundar K. Magnússonar prófessors til þess að skila mér hugmyndum um breytingar á gildandi námslánakerfi. Nefndin skilaði hugmyndum sínum þann 3. okt. sl. Þessar hugmyndir nefndarinnar voru þegar sendar til umsagnar námsmannahreyfinganna, til BÍSN og Stúdentaráðs Háskólans, SÍNE og Iðnnemasambandsins. Þessir aðilar hafa nú skilað athugasemdum og hugmyndum og allt þetta verður yfirfarið. Ég hef heitið samtökum námsmanna, ég gerði það strax í sumar þegar ég skipaði þessa nefnd, að við þau yrði haft samráð þegar næstu skref yrðu tekin og við það fyrirheit mun ég standa. Ég hef hins vegar ekki gengið endanlega frá því með hvaða hætti þetta samráð við námsmenn verður en ég reikna með því að þeir fái beina aðild að þeirri nefnd sem ég mun skipa til þess að vinna úr hugmyndum, bæði sem nefnd Guðmundar K. Magnússonar skilaði og þeim hugmyndum sem námsmannahreyfingarnar hafa þegar skilað og þeim hugmyndum sem ég veit að eru uppi hjá ýmsum öðrum.
    Ég gæti svo sem sagt í fáum orðum hver mér sýnast að ættu að vera meginatriðin í nýjum lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég hygg að við ættum öll að geta orðið sammála um það að megintilgangur laganna ætti að vera sá að gera íslenskum námsmönnum kleift að afla sér framhaldsmenntunar og að stuðla að jafnrétti til framhaldsnáms án tillits til efnahags. Um þetta ættu allir að vera sammála. Opinber aðstoð til þess að ná slíku marki yrði að sjálfsögðu nánar skilgreind í lögunum og í reglugerðum sem lögunum fylgdu. En mér sýnist að þessi opinbera aðstoð gæti einkum verið fólgin í þrennu. Í fyrsta lagi rétti manna í tiltekinn afmarkaðan tíma til þess að njóta lánafyrirgreiðslu á sérkjörum frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég held við ættum heldur ekki að þurfa að deila svo mjög um þetta en það má vel vera að einhver skoðanaágreiningur kæmi upp um það hversu langur þessi tími ætti að vera.
    Í öðru lagi sýnist mér koma til greina að taka upp beinar styrkveitingar hjá Lánasjóði ísl. námsmanna, og í þriðja lagi þá sýnist mér koma til greina lánaflokkur sem bæri einhverja vexti. Ég segi einhverja vexti. Ég er ekki að tala þar sérstaklega um markaðsvexti, ég tek það skýrt fram. Slík námslán ættu þá að endurgreiðast með viðráðanlegum skilmálum sem menn verða auðvitað að setjast niður og ræða til þrautar.
    Það þarf líka að taka afstöðu til þess hver hámarkstíminn er sem námsmenn geti notið lánafyrirgreiðslu á sérkjörum. Ég ætla ekki að nefna þar neinn sérstakan árafjölda, um það má ræða. Eins um upphæð sérkjaralánanna, við hvað á að miða slíka upphæð. Þarna þurfa einnig að vera ákvæði um styrkina til að greiða ýmsan kostnað sem kann að falla til eftir aðstæðum manna. Þar getum við nefnt vegna skólagjalda, vegna bókakaupa, efniskostnaðar, ferðakostnaðar og framfærslu fjölskyldu, svo ég nefni eitthvað af þeim atriðum sem þegar er tekið tillit til í gildandi reglum lánasjóðsins.
    Þetta eru nokkur atriði sem ég get nefnt á þessu stigi málsins.
    Ég ætla ekki hér, eins og ég sagði áðan, að ræða sérstaklega við þetta tækifæri hugmyndir nefndarinnar um breytingar á gildandi námslánakerfi. Ég sé ekki ástæðu til þess að ráðherra sé með yfirlýsingar um það hvað hann telur heppilegt að taka af hugmyndunum sem nefndin lagði fram, eða að ræða þær hugmyndir sem námsmenn hafa sett fram. Ég tel eðlilegt að nefndin sem ég mun skipa núna á allra næstu dögum hafi frjálsar hendur um það og taki ekki við neinum fyrirmælum frá ráðherra um það hvernig hann gæti hugsað sér að hafa þessi ákvæði í lögunum. Þess vegna vil ég ekki á þessu stigi ræða það frekar. Ég ítreka aðeins að ég geri mér alveg grein fyrir að sumar þeirra hugmynda sem komið hafa fram eru ekki framkvæmanlegar án þess að ég fari að rekja það eitthvað frekar.
    Ég læt þetta nægja hæstv. forseti og læt máli mínu lokið.