Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 14:21:00 (620)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Satt að segja var þessi ræða sem hæstv. menntmrh. flutti hér áðan pínulítill gegnumgangur um lífríki borðtuskunnar að mér fannst. Mér fannst hann í raun og veru ekki koma að kjarna málsins, þ.e. þeim við hvaða kjörum mega íslenskir námsmenn búast á komandi missirum og árum frá hendi þessarar ríkisstjórnar. Það liggja engin svör fyrir í þeim efnum. Hins vegar er athyglisvert að hæstv. ráðherra hafnar í raun tillögum þeirrar nefndar sem hann skipaði snemma í sumar. Það er greinilegt að ráðherrann er á flótta með þessar tillögur og nú er ekkert annað að gera en að reka flóttann þannig að hann átti sig á því að hann á að halda við þau gömlu og góðu lög sem gilt hafa lengi um Lánasjóð ísl. námsmanna og hafa enst vel.
    Varðandi þá hluti sem hann vék að mér sérstaklega vil ég aðeins minna á að fyrir örfáum missirum sendu allmargir aðilar frá sér álit, m.a. einn af varaþingmönnum hæstv. menntmrh., um Lánasjóð ísl. námsmanna. Hjá varaþingmanninum kemur það m.a. fram að núverandi kerfi sé gott. Hann segir hér, þessi varaþingmaður hæstv. ráðherra: ,,Það má því segja að ekki sé ástæða til að gera róttækar breytingar á námslánafyrirkomulaginu ef forsendur um fjölgun og samsetningu lánþega standast.``
    Þetta hefur verið hin almenna niðurstaða og þegar hæstv. núv. menntmrh. er að bera fyrir sig breytingar á undanförnum árum þá er hann að gera það til þess að skjóta sér á bak við eitthvað, hann er að leita sér að skálkaskjóli til að breyta námslánafyrirkomulaginu í anda þeirra breytinga sem Sjálfstfl. beitti sér fyrir á sínum tíma þegar niðurstaðan varð sú að það var hirt fimmta hver króna af námsmönnum í þessu landi. ( Gripið fram í: Hver var þingmaðurinn?) Viktor Guðlaugsson mun hann heita.
    Varðandi framlög ríkisins og lánveitingar Lánasjóðs ísl. námsmanna á síðasta tímabili, virðulegi forseti, aðeins þetta: Árið 1987 námu þessar upphæðir 2,62% af ríkisútgjöldum. 1989 3,09%. 1990 3,44%. Það er því augljóst mál að fjölgun námsmanna á þessum

tíma hafði það í för með sér að ríkið varð að taka á sig auknar byrðar eins og eðlilegt er. En á móti þeirri hækkun sem ákveðin var var jafnframt ákveðið að spara og það minntist hæstv. ráðherra því miður ekki á áðan. (Forseti hringir.) Nú heyrist mér forsetinn vera orðinn nokkuð óþolinmóður þannig að það endar með því að ég fer úr stólnum og geri það núna.