Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 14:24:00 (621)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Forseti. Menn eiga að læra það strax í byrjun hvern tíma þeir hafa til þess að gefa andsvör eða svara þeim og eiga ekki að fara fram yfir þann tíma. Nú er ég að hjálpa hæstv. forseta við fundarstjórnina.
    Já, hv. þm. sagði að ég hefði ekki veitt nein svör um kjörin. Það er rétt, ég gerði það ekki vegna þess að ég sagði og ég endurtek að sú nefnd sem fær þær tillögur sem liggja núna á borðinu til athugunar á að hafa um það frjálsar hendur frá ráðherra. Og svo eitt sem er meginatriði, það er þetta: Kjörin, útlánareglurnar, hljóta að fara nokkuð eftir því hvert ríkisframlagið verður. Þær hljóta að gera það. Það er alveg óhugsandi annað. Ef menn hins vegar trúa því sem mér finnst hv. þm. gera að það sé hægt að ganga hér í ríkissjóð og sækja næstum því ótakmörkuð framlög er hægt að ákveða kjörin fyrst, og hafa þau eins þægileg og mönnum lifandi getur dottið í hug.
    Hvað ætlaði fyrrv. ráðherra menntamála að gera varðandi vanda sjóðsins? Sá hann ekkert af þessu fyrir? Lokaði hann alveg augunum þegar fjárlög voru afgreitt í desembermánuði sl. með 1.730 millj. kr. ríkisframlagi. Hvað ætlaði hann að gera? Ég veit að hann hafði fullan hug á því eftir kosningar að hækka skatta um 8 eða 9 milljarða, ég veit það. Átti að afgreiða þetta bara með einum milljarði í fjáraukalögum núna í haust? Og hvað átti þá að gera í fjárlögum 1992? Ég þykist vita að hv. þm. er á mælendaskrá þannig að hann getur ætlað sér meira en tvær mínútur í að svara þessum einföldu spurningum og hann hlýtur að gera það, því að það er alveg óhugsandi annað en að fyrrv. ríkisstjórn hafi haft uppi einhverjar ráðagerðir um það hvernig yrði brugðist við vanda Lánasjóðs ísl. námsmanna á hausti 1991 og við fjárlagagerð 1992.
    Hv. þm. vísaði í einhvern varaþingmann Sjálfstfl. (Forseti hringir.), nú er ég að hætta, sem héti Viktor Guðlaugsson, ég kannast ekkert við hann, ég veit ekki til þess að hann sé varaþingmaður, og hann hefði sagt að þetta væru góð lög ef forsendur standast. En hafa þær staðist? Hafa þessar forsendur staðist? Það er einmitt það sem hefur ekki gerst.