Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 15:12:00 (631)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að flytja þakkir til þeirra sem tekið hafa þátt í þessari umræðu vegna þess að hún hefur í meginatriðum verið málefnaleg um þann vanda sem Lánasjóður ísl. námsmanna stendur frammi fyrir og hefur staðið frammi fyrir mjög lengi. Það er auðvitað ekkert nýtt að Lánasjóður ísl. námsmanna eigi við einhvern vanda að stríða. Það er hinn almenni vandi samneyslunnar, það er hinn almenni vandi stjórnvalda á hverjum tíma að tryggja það að félagsleg þjónusta eins og Lánasjóður námsmanna, eins og menntastofnanir, vísindi, rannsóknir, heilbrigðisþjónusta, fái fjármuni. Það er því

engin nýlunda í þessu efni af neinu tagi. En umræðan hefur í meginatriðum verið málefnaleg þó að menn hafi átt það til að kasta þessum venjulega sandi hver framan í annan sem alltaf er nú gert af og til úr þessum ræðustól, það er þér að kenna en ekki mér o.s.frv., þá er þetta í meginatriðum sæmilegt miðað við það sem maður á að venjast úr þessum stól. Þó hafa menn að vísu aðeins dottið niður í lífríki borðtuskunnar, svo ég vitni í hv. frummælanda Guðrúnu Helgadóttur.
    Það sem er kannski nauðsynlegast að velta fyrir sér í þessu máli, ef maður reynir að skoða það í grundvallaratriðum, er þetta: Hvað er Lánasjóður ísl. námsmanna? Er hann fjárfestingarsjóður handa þeim einstaklingum sem í hlut eiga eða er hann fjárfestingarsjóður þjóðarinnar í menntun og þar með hluti af hinu almenna menntakerfi í landinu? Ég lít svo á að Lánasjóður ísl. námsmanna sé það síðarnefnda. Hann sé hluti af hinu almenna mennta- og skólakerfi í landinu og í rauninni breytir það ekki öllu með hvaða hætti tekjur og gjöld þessa kerfis eru færð hjá ríkissjóði. Það breytir ekki öllu að mínu mati. Það er óskaplega þröngt að horfa á lánasjóðinn einungis sem fyrirtæki sem verði að bera sig og það er hættulegt orðalag á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum þar sem stendur, markmið endurskoðunarinnar er að tryggja framtíð lánasjóðsins. Í raun og veru er Lánasjóður ísl. námsmanna aðeins hluti af hinu almenna velferðarkerfi ríkisins og það er algjörlega fráleitt að ætla sér að skilja þar á milli eins og hæstv. núv. ríkisstjórn gerir.
    Það var vitnað til þess af hv. síðasta ræðumanni, 10. þm. Reykv., að í rauninni væri hér um að ræða fjárfestingu í sameiginlegum hag landsmanna allra og hún vitnaði til samgöngumála. Staðreyndin er auðvitað sú að Lánasjóður ísl. námsmanna er eins konar fjárfestingarsjóður í framtíðinni. Hann er samgöngur við framtíðina. Þjóð, sem ekki hefur vit á því að stuðla að menntun og menningu, vísindum og rannsóknum, er að brjóta niður vegi sem hugsanlega gætu leitt til framtíðar og batnandi lífskjara í framtíðinni í þessu landi. Þegar lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna voru sett á sínum tíma og undirrituð 1982 var um þau full samstaða hér í þinginu. Er það ekki rétt munað hjá mér að það hafi allir greitt atkvæði með lögunum á sínum tíma, þingmenn allra flokka? ( Gripið fram í: Það er rétt hjá ráðherranum.) Já, fyrrverandi og tilvonandi væntanlega. Það var full samstaða um málið á þeim tíma. Hver er kjarni málsins í lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna? Hver er hann? Hann er sá sem fram kemur í einni af fyrstu greinum laganna: ,,Meginhlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna er að veita íslenskum námsmönnum fjárhagsaðstoð til framhaldsnáms við stofnanir er gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar nemenda og gerðar eru til háskólanáms hérlendis.`` Síðan segir annars staðar í þessum lögum að þetta eigi að nægja hverjum námsmanni til framfærslu. Með öðrum orðum, lögin segja 100% umframfjárþörf. Það hefði þess vegna verið brot hjá menntmrh., hver sem það er, að reyna ekki að framkvæma þetta lagaákvæði. Ég er þeirrar skoðunar að skerðing sú sem Ragnhildur Helgadóttir og Sverrir Hermannsson gripu til á sínum tíma hafi verið í blóra við anda laganna eins og þau voru sett samhljóða á sínum tíma. Auðvitað gátu þau á sínum tíma tekið ákvörðun um skerðingu en þá áttu þau um leið að taka ákvörðun um að breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það var ekki gert. Það hafa engar tillögur verið fluttar á Alþingi á undanförnum árum um breytingar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna.
    Ég held að menn verði auðvitað að gera sér grein fyrir því, svo merkilegt sem það kann nú að virðast, að lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna hafa í meginatriðum staðist. Eins og fram kemur í því áliti sem ég vitnaði hér til fyrr í dag og nefndi þá einn af varaþingmönnum Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi, Viktor Guðlaugsson, en átti að sjálfsögðu við Viktor Kjartansson trúi ég, en hæstv. menntmrh. kaus að gleyma nafni hans líka af einhverjum sérkennilegum ástæðum.
    Meginbreytingin sem hefur orðið á þessum tíma frá 1982--1991, hver er hún? Hún er stórkostleg fjölgun námsmanna sem menn sáu ekki fyrir þegar lögin voru sett og sú fjölgun stafar ekki bara af því að það hefur fjölgað í þeim hópi sem lögin beindust að 1982 heldur stafar hún líka af því að það hafa verið teknir inn í framkvæmdina nýir hópar upp á mörg hundruð námsmenn. Þegar menn standa frammi fyrir veruleika af þessu tagi þá eru má segja fjórir möguleikar fyrir stjórnvöld. Einn er sá að hækka ríkisframlögin, annar er sá að yfirtaka þau lán sem sjóðurinn er með. Þriðji möguleikinn er sá að ríkið borgi vextina að hluta eða af öllu leyti og fjórði möguleikinn er sá að skerða lánin.
    Staðreyndin er sú að á undanförnum árum hefur það aftur og aftur gerst að ríkið hefur gripið til þess ráðs að yfirtaka skuldir félagslegra sjóða og félagslegra fyrirtækja. Ég bendi á að í tíð síðustu ríkisstjórnar þótti það ekkert tiltökumál að yfirtaka skuldir Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins upp á fleiri milljarða króna. Það þótti ekkert tiltökumál sem þýðir í raun og veru að rafmagnstaxtar á Vestfjörðum og á svæðum Rarik eru 30--40% lægri en þeir ella væru út af þessari yfirtöku ríkisins. Og ég segi miðað við þann skyldleika sem er með Lánasjóði ísl. námsmanna og ríkissjóði Íslands þá er það fullkomlega eðlilegt að ríkissjóður létti skuldabyrði af lánasjóðnum og yfirtaki hluta af skuldum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég vil skora á hæstv. menntmrh. um leið og farið verður yfir málið núna á næstunni að hann kanni það mjög vandlega með hvaða hætti má hugsa sér að ríkissjóður beinlínis yfirtaki skuldir lánasjóðsins að hluta til, létti þannig afborgunarbyrði hans og geri honum mögulegt að eflast og um leið að standa undir þeim skyldum sem óhjákvæmilegar eru.
    Ef menn velja hins vegar ekki þessa leið, ef menn velja þá leið að skera niður heildarframlög og lántökur vegna námslána, þá eru menn að gera hvað? Menn eru að taka ákvörðun um það að skera niður heildarfjármagn til skóla og menntamála á Íslandi. Og það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur því staðreyndin er sú að klisjan um þenslu útgjalda til heilbrigðismála annars vegar og menntamála hins vegar er vitlaus. Staðreyndin er sú að heildarútgjöld til menntamála hafa í rauninni ekki aukist miðað við þjóðarframleiðslu og ríkisútgjöld á undanförnum árum. Það hafa heilbrigðismálin aftur á móti gert. Ég tel það þess vegna stórkostlega hættulegt ef ríkisstjórnin ætlar í raun og veru að skera niður Lánasjóð ísl. námsmanna með þeim hætti sem hæstv. menntmrh. er að tala um, vegna þess að það þýðir ekkert annað en að verið er að setja lífskjarastig þjóðarinnar í framtíðinni niður frá því sem ella væri.
    Ég held að það sé kannski nauðsynlegt í þessu sambandi að rifja aðeins upp hvernig þróun þessara mála er í grannlöndum okkar. Í Þýskalandi er það t.d. þannig að 90% af hverjum árgangi sem kemur út úr grunnskóla fer í framhaldsnám. Það er talið nauðsynlegt að sem allra flestir fari í gegnum framhaldsnám af einhverju tagi. Við ákváðum á síðasta þingi að hækka framlög til vísinda og rannsókna um 25% að raungildi. En núv. ríkisstjórn vinnur á móti þessu öllu. Hún er að þrengja að framhaldsskólakerfinu með skólagjöldum, hún er að þrengja að háskólakerfinu með skólagjöldum, hún er að skera niður framlög til vísinda og rannsókna og hún er að ráðast hér að Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég segi að vegna framtíðarþróunar lífskjara þjóðarinnar er það mikilvægara en nokkurt álver, jafnvel þó að þau séu mörg, að tryggja menntun og vísindi og eðlilega þróun rannsókna í landinu. Þess vegna finnst mér að stefna ríkisstjórnarinnar í menntamálum almennt og þar með í málefnum LÍN einkennist af afturhaldssjónarmiðum og þröngsýni og skilningsleysi á því að hér er um heildarhagsmuni að ræða en ekki bara hagsmuni hvers einstaklings sem um ræðir.
    Ég vildi, virðulegi forseti, einnig minna á varðandi umræðurnar um þessi mál núna

í síðustu ræðum, að það voru engar tillögur á undanförnum árum um að breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Engar. Sjálfstfl. flutti engar tillögur á síðasta kjörtímabili um að breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Engar tillögur. Alþýðuflokkurinn gerði það ekki heldur. Ég tel að báðir þessir flokkar séu að koma aftan að kjósendum sínum núna með því að efna til þeirra róttæku breytinga á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem þeir eru bersýnilega að boða. En það er líka nauðsynlegt að rifja það upp að á síðasta kjörtímabili komu engar tillögur um hækkun á framlögum í Lánasjóð ísl. námsmanna. Ekki frá Sjálfstfl., ekki frá Kvennalistanum, ekki frá Alþfl., ekki frá Framsfl. Þegar málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna voru rædd t.d. í tengslum við fjárlög eða lánsfjárlög á síðasta kjörtímabili var það í rauninni Alþb. eitt sem hafði með þessi tvö ráðuneyti að gera, mennta- og fjrmn., sem ræddi um þessi mál, aðrir flokkar fluttu engar tillögur af neinu tagi um breytingar á framlögum eða lagabreytingar vegna Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þess vegna er það ódýrt hjá þessum aðilum að koma núna og segja: Við vissum, við sáum allt fyrir.
    Staðan er auðvitað þannig og það kemur í ljós ef menn fletta sögunni að þessir aðilar voru ekki með neinar hugmyndir um lagfæringar af neinu tagi. Hinu ætla ég ekki að neita, virðulegi forseti, að það var ekki alltaf auðvelt í síðustu ríkisstjórn að halda uppi Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég veit að ég þarf ekki annað en að vitna til hæstv. utanrrh. og ræðna hans um Lánasjóð ísl. námsmanna til þess að menn átti sig á því um hvað er verið að tala. Mér liggur við að segja að í síðustu ríkisstjórn hafi menntmrh. og fjrmh. haldið uppi Lánasjóði ísl. námsmanna með handafli, svo ég noti nú vinsælt pólitískt orðtæki um þessar mundir --- með handafli. Það var afar þungt og afar erfitt oft á tíðum og mér var það algjörlega ljóst á síðasta kjörtímabili að það gæti orðið mjög erfitt að halda þessum sjóði áfram með þeim hætti sem hann hefur verið. En hvernig átti að gera það? Það var m.a. með samvinnu við námsmenn sem núna hafa sýnt það að þeir eru tilbúnir til þess sjálfir að spara 400--500 millj. kr. með tilteknum breytingartillögum sem liggja fyrir af þeirra hálfu. Ég hlýt að segja það, bæði hér og annars staðar og hef sagt það við námsmenn oft að það er auðvitað mikið atriði að um lánasjóðinn sé þjóðarsamstaða. Það er mjög mikið atriði að reglur sjóðsins og vinnubrögð öll séu með þeim hætti að um hann sé sem allra víðtækust samstaða. Ég tel að núna sé hins vegar friðurinn um lánasjóðinn í verulegri hættu.
    Það kom fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur áðan að það væri ekki farið að vinna að frv. um breytingu á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það var sagt hér áðan. En hæstv. menntrmh. sagði að frv. mundi koma hér inn í þingið núna og yrði væntanlega afgreitt fyrir jólin. Ja, það gengur þá hraðar en ýmis önnur frv. sem blessuð ríkisstjórnin er að potast með. Hvar er þetta frv? Er ekki byrjað á frv. sem hæstv. ráðherra ætlar að afgreiða fyrir áramót? Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra að því hvar málið sé á vegi statt, hvort það sé virkilega þannig að ekki sé byrjað á því að vinna að málinu. Og auðvitað skora ég um leið á hæstv. ráðherra að standa þannig að þessu að fulltrúar allra flokka sem eiga sæti á Alþingi komi að vinnunni við þetta frv.
    Á síðasta kjörtímabili skipaði ég nefnd til að fjalla um Lánasjóð ísl. námsmanna og ég gaf öllum flokkum kost á því að tilnefna menn í þá endurskoðunarnefnd, öllum flokkum. Það eru auðvitað þau einu eðlilegu vinnubrögð sem um er að ræða ef menn ætla sér að ná sátt um sjóðinn. Ef menn ætla hins vegar bara að takmarka þetta við stjórnarflokkana eru menn að efna til ófriðar um Lánasjóð ísl. námsmanna og þá er verr af stað farið en heima setið.
    Virðulegi forseti. Ég tel að lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna hafi reynst vel. Ég tel að sjóðurinn hafi staðið sig vel og ég tel að það sé engin afsökun fyrir ráðherrann að

skerða kjör námsmanna þó að um vissa erfiðleika sé að ræða í sjóðnum, engin afsökun af neinu tagi heldur tilraun til að skapa sér skálkaskjól.
    Ég skora á þingmenn að halda utan um þau lög sem nú eru í gildi um Lánasjóð ísl. námsmanna. Og ef hraðinn verður svipaður á frv. um breytingu á lögum um LÍN og annað sem kemur frá núv. hæstv. ríkisstjórn held ég að það sé góð von til þess að lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna verði ekki einu sinni breytt á þessu kjörtímabili, virðulegi forseti.