Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 15:39:00 (633)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég vil aðeins vegna þeirra orða hv. 3. þm. Reykn. um kjör námsmanna í nágrannalöndum okkar benda hv. þm. á að reglurnar í Danmörku og Svíþjóð bera það í sér að á meðan menn eru að greiða námslán sín greiða þeir ekki skatta. Það er mjög mikilvægt. Auk þess er þarna um að ræða nafnvexti en ekki raunvexti, eins og hv. 10. þm. Reykv. benti á.
    Aðeins, herra forseti, og skal ég ekki tefja þetta mál. Hér hefur það þótt með ólíkindum að menn töluðu um að ríkið yfirtæki skuldir Lánasjóðs ísl. námsmanna að einhverju leyti eða legðu meira fram til sjóðsins. Víst eru þetta nokkrar tölur, en menn kippast ekkert við þó að í fjárlagafrv. hins íslenska ríkis 1992 eigi, fyrir frábæra framgöngu fyrrv. hv. 1. þm. Reykn., sem var athafnasamur maður þegar fjármál voru annars vegar, að fara í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 518,5 milljónir á næsta ári. ( Gripið fram í: Andsvar við hverju er þetta?) Þetta er andsvar við því sem hér hefur komið fram, herra þm.
    Jafnframt vil ég upplýsa að önnur álíka fjárveiting, sem um er talað nú, runnin frá sömu rótum, er án þess að nokkur depli auga 300 milljónir í íþróttahöll í Kópavogi. Ég vil biðja menn að reyna að halda nokkurn veginn sömu hlutföllum þegar verið er að tala um mikla fjármuni og litla.