Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 16:18:00 (642)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsti því hér áðan að honum þætti þessi umræða ekki vera tímabær. Ég er honum algjörlega ósammála. Á undanförnum vikum og mánuðum hefur dunið yfir landslýð ýmiss konar boðskapur þeirrar ríkisstjórnar sem tók við sl. vor. Við tókum heilan dag fyrir um það bil viku síðan til þess að ræða hugmyndir ríkisstjórnarinnar í skólamálum og skildum þá lánasjóðinn eftir. Þessi umræða er ekki að ástæðulausu og það má m.a. vitna til þess að í margnefndri hvítbók ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, er þess getið að það standi til að breyta lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna, með leyfi forseta, ,,í því skyni að hann fái risið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum og geti áfram tryggt jafnrétti til náms.``
    Það er boðað í stefnuplaggi ríkisstjórnarinnar að gerðar verði breytingar á lögum um lánasjóðinn. Síðan gerist það að nefnd sem ráðherra skipaði skilaði áliti og það er auðvitað það álit sem er kveikjan að þessari umræðu því að þar skjóta upp kolli hugmyndir sem hljóta að valda áhyggjum. Ráðherra hefur aðeins reynt að róa okkur hér með því að lýsa því yfir að margar af þessum hugmyndum séu óframkvæmanlegar, en ég hlýt að spyrja hann: Hvaða hugmyndir eru þá framkvæmanlegar af þeim sem þarna koma fram? Hvaða

hugmyndir eru það sem hann tekur undir af því sem fram kemur í áliti nefndarinnar?
    Þetta álit vekur áhyggjur okkar vegna þess að þarna er horft á Lánasjóð ísl. námsmanna algjörlega án samhengis við annað í þjóðfélaginu. Það er litið á lánasjóðinn eins og hvert annað fyrirtæki sem á að reka með hagnaði. Formaður nefndarinnar lýsti því yfir í útvarpi aðspurður að það kæmi málinu ekkert við hvort hertar endurgreiðslur yrðu til þess að námsmenn ættu erfiðara með að koma sér upp húsnæði. Það kæmi málinu ekkert við. Hugmyndir og stjórnarhættir af þessu tagi eru algjörlega ólíðandi. Þetta er það sem Íslendingar eru búnir að brenna sig á hvað eftir annað, að taka ákvarðanir án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Og hverjar yrðu afleiðingarnar ef þessar hugmyndir nefndarinnar kæmust í framkvæmd? Síðasti ræðumaður kom nokkuð inn á þær og ég tek undir það sem hann sagði. Ég held að afleiðingarnar yrðu m.a. mikil og aukin harka í launabaráttu háskólamanna. Það veitir að vísu ekki af að bæta þeirra kjör, en hertar endurgreiðslur hljóta að kalla á mjög herta launabaráttu.
    Það hlýtur að vera tilgangurinn með þessum tillögum að draga úr fjárstreyminu í gegnum sjóðinn og fækka síðan lánþegum og ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvort það sé tilgangurinn. Er það skoðun ríkisstjórnarinnar að það fólk sem leitar til langskólanáms sé einfaldlega of margt? Ef þessar tillögur komast í framkvæmd hljóta þetta að verða afleiðingarnar.
    Það sem vekur hvað mestar áhyggjur okkar kvennalistakvenna er auðvitað það hvað þetta þýðir fyrir konur. Konur hafa mjög sótt sig í námi á undanförnum áratugum. Konur eru orðnar meiri hluti námsmanna í Háskóla Íslands, þær eru í meiri hluta í framhaldsskólunum. Eins og launakjörum er háttað í landinu hlyti þetta að þýða það að þær yrðu að hugsa sig um tvisvar og þrisvar áður en þær legðu út í það að taka námslán. Lánasjóðurinn hefur í raun virkað sem jöfnunartæki. Þetta er eitt af okkar öflugustu jöfnunartækjum í þjóðfélaginu og það er mjög mikilvægt að varðveita.
    Auðvitað verður að viðurkenna það að lánasjóðurinn stendur frammi fyrir vandamálum. En það eru vandamál af því tagi sem stjórnvöld hafa verið iðin við að koma sér upp. Þau hafa komið hverjum sjóðnum á fætur öðrum í þá aðstöðu að þeir standa hreinlega frammi fyrir gjaldþroti. Þeim er gert að taka lán jafnvel erlendis en að endurlána það síðan á lágum eða engum vöxtum. Það sjá auðvitað allir að þetta er stefna sem engan veginn gengur upp. En hvað er þá til ráða? Mín skoðun er einfaldlega sú að ríkið eigi að standa við sitt. Það á að standa undir þessum sjóði vegna þess að við erum að tala um grundvallarþátt í íslensku samfélagi. Við eigum að nota okkar sameiginlegu sjóði fyrst og fremst í menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Fjármögnun á öðrum þáttum má skoða að mínum dómi.
    Það er boðað að endurskoða eigi lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna og ég vil ítreka þá skoðun okkar kvennalistakvenna að það á að gera og verður vonandi gert í samráði við námsmenn. Námsmenn hafa lýst miklum vilja til þess að skoða sjóðinn og þeir hafa lagt fram tillögur sem fela í sér sparnað. Á þær tillögur var ekki litið hér fyrr í sumar, en þær fela í sér verulegan sparnað. Þeir sem búa við þetta kerfi eru auðvitað þeir sem best þekkja það og vita hvar gloppurnar eru.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á það áðan að þær endurgreiðslur sem nú eru við lýði séu ekki háar, en það fer auðvitað eftir þeim launum sem fólk hefur. ( ÖS: Tekjutengdar.) Já, tekjutengdar. Þær tekjutengdu afborgarnir sem nú eru og það hvað fólk finnur fyrir endurgreiðslunum fer auðvitað eftir því hvaða laun fólk hefur. Eins og hv. þm. kom inn á í ræðu sinni eru laun háskólamanna ekki til þess að hrópa húrra fyrir og það eru margir sem finna verulega fyrir þessum endurgreiðslum eins og þær eru núna. Hins vegar er ég honum mjög sammála um það að þær eiga að vera tekjutengdar og þeir eiga

að borga meira og hraðar sem meiri hafa tekjurnar, en það er ekki gert ráð fyrir því í þeim drögum sem lögð hafa verið fram.
    Ég vil gera það að mínum lokaorðum að mér finnast umræður eins og þær hafa verið í dag nokkuð nöturlegar. Íslendingar eru meðal ríkustu þjóða í heimi, lífskjör eru hér með því besta sem þekkist þó þeim lífskjörum sé allt of misjafnlega skipt og þess vegna stöndum við einfaldlega frammi fyrir því að við eigum ekki að horfa í það fé sem fer til menntunar. Hér er illa farið með fé og þar má margt bæta, en menntakerfið á ekki að gjalda þess.