Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 16:55:00 (646)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Bjallan glumdi áður en ég var búinn að koma því til skila sem ég vildi sagt hafa, en ég geri þó hlé á þeirri ræðu til að víkja örfáum orðum að hv. 17. þm. Reykv. Mér var það mikið ánægjuefni að hann skyldi biðja um orðið og flytja hér efnislega og á pörtum nokkuð góða ræðu. Ég mun aldrei saka hann um innihaldsleysi, hvorki í ræðu né riti eða á öðrum sviðum, en það má alltaf deila um gæði. Það kom aftur á móti mjög skýrt fram í þeirri ræðu sem hann flutti hver er nútíðarvandi núv. ríkisstjórnar. Nútíðarvandinn er einfaldlega sá að formaður þingflokks Alþfl. hefur ekkert hugsað sér að samþykkja þær hugmyndir sem hæstv. menntmrh. ætlar að koma á framfæri. Það er ekkert samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna. Ekkert samkomulag. Það getur vel verið að þeir sjóði eitthvað saman þegar fer að nálgast jól, en í dag er ekkert samkomulag.
    Ég vil vekja athygli á því sem ég gerði hér að umræðuefni og var kominn að í ræðu minni en það er sá þáttur er lýtur að þeim mönnum sem ekki munu starfa á íslenskri grund í framtíðinni, en hafa notiðhér mikils stuðnings samfélagsins.
    Ef sá skilningur hv. 9. þm. Reykv. er lagður til grundvallar að þetta sé fjárfestingarsjóður þjóðarinnar hljótum við að spyrja, ef við berum saman það nám sem menn stunda og þá atvinnumöguleika sem þessi þjóð býður upp á í framtíðinni, hvort þar sé samræmi. Auðvitað viljum við að námsmenn hafi algjört frelsi með að velja sér það sem þeir vilja læra. En frelsinu fylgir einhver ábyrgð. Frelsi verður alltaf að fylgja einhver ábyrgð og sá sem tekur ákvörðun um það að fara í nám og þiggur há laun, eins og hv. 17. þm. Reykv. sagði að mundi verða í vaxandi mæli í framtíðinni, menn mundu fara í háskólanám, menn mundu ekki starfa hér á landi, menn mundu fara í nám erlendis. Hann sagði: Menntamenn þjóðarinnar munu í vaxandi mæli leita til erlendra þjóða þar sem þeir fá hærri laun.
    Þess vegna segi ég: Höfum við störf fyrir 121 arkitekt sem hefur fengið úthlutað 1989--1990? Hér erum við með 216 lækna, 232 lögfræðinga, 789 verk- og tæknifræðinga og 490 í listgreinum. Verður þetta í samræmi við þá atvinnumöguleika sem íslenskt þjóðfélag getur boðið upp á? ( GHelg: Já.) Já, segir hv. 14. þm. Reykv. og ég býst við að hún hafi hugsað um lögfræðingana, þeir virðast endalaust geta fundið sér vinnu en ég er ekki alveg jafnviss um alla hina. En ef þetta fólk fær mjög góð störf erlendis --- við skulum óska því alls hins besta, það á rétt á því að velja sér nám og velja sér starfsvettvang, það er hluti af því lýðræði sem við styðjum. Það er ekkert að því ef það tekur ákvörðun um að setjast að erlendis og vera þar í góðum störfum --- hvers vegna er þá ekki eðlilegt að það greiði til baka með vöxtum? Greiði einhverja vexti til baka af þeim fjármunum sem það fær. Hinir greiða nefnilega öll lánin til baka. Þeir greiða þau með tvennu móti. Annars vegar í gegnum afborganirnar, hins vegar í gegnum skattana. Það kom skýrt fram hjá hv. 14. þm. Reykv. að við greiðum skatta til margra hluta og þeir aðilar sem nú eru í framhaldsnámi á Íslandi og taka námslán og munu starfa hér á landi, munu greiða til baka að fullu sín námslán. Hverja einustu krónu í gegnum þetta tvennt. Spurningin er: Eiga þeir líka að greiða það sem hinir fengu sem setjast að erlendis? Það er hin siðferðilega spurning sem við verðum að gera upp við okkur. Höfum við efni á því að hafa þannig kerfi að t.d. Svíar telji það hagstæðara fyrir sig að borga læknum hærri laun en láta þá hafa minni námslán í von um að þeir fiski með því móti lækna erlendis frá og þurfi ekki að mennta jafnmargra lækna? Er það rökrétt að íslenska þjóðin greiði, hvort heldur við köllum það heimanmund eða útflutningsbætur, með gáfuðustu þegnum þjóðarinnar? Er það rökrétt? Ég tel að þar sé um svo vandaða útflutningsvöru að ræða að það sé mjög ólíklegt að það þurfi að greiða með henni. Þess vegna fer ég ekki ofan af því að þetta er sá þáttur í endurgreiðslukerfinu sem ber að skoða. Þetta á ekkert skylt við átthagafjötra eða nokkurn skapaðan hlut slíkan, þetta er bara spurningin um það að um leið og við viðurkennum að það eru sjálfsögðustu mannréttindi að þegnarnir fái að velja sér námsefni eins og þeir hafa áhuga á, um leið og við viðurkennum frelsið viðurkennum við ábyrgð frelsisins og við viðurkennum nauðsyn þess að íslenskt samfélag fái til baka eitthvað af því sem við höfum lagt til undir þessum kringumstæðum.
    Ég vil þakka frummælanda fyrir það að hafa tekið þetta mál hér á dagskrá. Ég er sannfærður um að svo er hv. 17. þm. Reykv. fyrir að þakka að kvíði námsmanna hefur minnkað verulega. Það reyndist nefnilega þegar til kom hægt að brýna deigt járn svo að bíti og það eru hinir jákvæðu hlutir sem við höfum upplifað hér í dag. Í staðinn fyrir að sitja eins og dauður hlutur í sæti sínu og láta málflutninginn ekkert á sig hafa þá rak hann

af sér slyðruorðið og gerði grein fyrir því hvaða atriði það væri sem hann vildi skoða. Og það var athyglisvert sem hann sagði: Alla mína ævi hef ég átt í stríði út af Lánasjóðnum. Hann veit ekki til þess að það sé búið að semja frið. Hann veit ekki til þess. Honum eru það bara ný tíðindi ef það er búið að semja frið í málinu. Þannig liggur það alveg ljóst fyrir að hugmyndir sjálfstæðismanna um endurskoðun á þessum lánasjóði verða að taka verulegt mið af því hvað hv. 17. þm. Reykv. telur sig geta samþykkt.