Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 17:51:00 (656)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Hér er til umræðu mál sem flestir eða allir eru sammála um að sé eitthvert örlagaríkasta mál sem fyrir Alþingi hefur legið um langt skeið. En umræðan fer þó fram með þeim hætti að við höfum ekki í höndunum nein þingskjöl og sumir segja, m.a. hv. form. utanrmn., að það sé takmarkað sem liggi fyrir skriflegt um þessi mál á þessari stundu, jafnvel hjá þeim sem verið hafa að fjalla um þau. Það hefur því kannski takmarkað gildi að hafa mörg orð um málið við þessar aðstæður og satt að segja finnst mér ásamt mörgum fleirum að þær umræður sem fram hafa farið um það hafi einkennst of mikið af fullyrðingum og kannski frómum óskum frekar en staðreyndum eins og við er að búast þegar þannig er í pottinn búið.
    Það hefur ekki verið, að okkur er sagt, gengið frá samningnum enn þá þannig að hann er ekki tilbúinn til að setja stafi undir og um önnur atriði, sem snerta okkur Íslendinga sérstaklega, eins og samningurinn við Evrópubandalagið um sjávarútvegsmál, er sagt að um hann sé alls ekki farið að ræða. Því er ekki von um að mikið sé komið á blað. En eins og staðan er núna er það svo að eftir því sem fleiri spurningar eru bornar fram sem takmörkuð svör fást við þá vakna fleiri.
    Það er að sjálfsögðu ofarlega í huga okkar hversu víðtæk áhrif þessa samnings kunna að verða og þegar lögfræðingar, sem manna mest hafa fjallað um þetta mál, eru spurðir er svarið það að þeir geti enga grein gert sér fyrir því á þessu stigi. En ljóst sé að við verðum að samþykkja margar reglur og lög sem í gildi eru hjá Evrópubandalaginu og það þó að þau séu ekkert betri en okkar og það kannski þvert á móti, en huggun okkar er sögð sú að þessum þjóðum hafi tekist að lifa með þeim og við ættum að geta gert það líka.
    En þrátt fyrir þetta er ljóst að það eru allmörg atriði, við vitum ekki hversu mörg, þar sem slík huggun hrekkur skammt. Þau eru alvarlegri en svo að þannig sé hægt að afgreiða málið og þessi atriði verður auðvitað að reyna að kryfja til mergjar eins og samninginn í heild og fá sem allra skýrasta mynd af því um hvað þar er að ræða. Fyrr en slíkt liggur fyrir er auðvitað útilokað að við hv. alþm. getum með rökum tekið afstöðu til málsins og því er það auðvitað mikilvægt að vinna að því að leggja það fram.
    Eitt þessara atriða er held ég sem betur fer flestum áhyggjuefni, en það er forræði okkar á landinu. Lendir landið í meira eða minna mæli með þess gögnum og gæðum í eigu útlendinga á komandi árum og áratugum eftir að við höfum gert þennan samning? Það er að vísu sagt að við höfum þar möguleika sjálf að búa til einhverjar girðingar og það hlýtur að vera lágmarkskrafa fyrir okkur a.m.k. að frv. að lögum, sem eiga að tryggja það, liggi fyrir sem allra fyrst hér á Alþingi. Síðan verður svo auðvitað spurningin sú hversu mikið hald verður í því í framtíðinni, hvort við sogumst nauðug eða viljug undir þennan Evrópurétt sem við eigum að undirgangast á ýmsum sviðum, hvort hann nær þar meiri tökum síðar þannig að úr gildi slíkra lagasetninga muni draga. Þeirri spurningu getur náttúrlega enginn svarað í dag. Það er sagt að við höfum aðlögunartíma til að vinna að þessu til ársins 1995. Þá er það spurningin: Snertir ákvæðið um að gildandi lög, sem tekið er fram í sambandi við annað í samningnum, ekki þetta atriði? Er staða okkar ekkert betri ef þessi lög eða það sem í lögum stendur þegar stafir eru settir undir samninginn heldur en þó að það dragist til ársins 1995? Um atriði í sambandi við fjárfestingar í sjávarútvegi

finnst mér kannski þó enn þá meiri spurning því að þar er beinlínis vitnað í núgildandi lög.
    Á það við á þeirri stundu þegar fundurinn var haldinn og ráðherrarnir komust að sinni niðurstöðu 22. okt.? Á tímasetningin við þegar samningamenn kunna að setja stafi sína undir samninginn þegar búið verður að ganga svo frá pappírum að það sé hægt? Á þetta við þegar búið verður að ganga svo frá samningi að ráðherrar geti skrifað undir hann? Á þetta við þegar Alþingi kann að hafa fullgilt hann? Hvenær er þessi tímasetning um núgildandi lög? Og ef þarna veltur á tímasetningu er það spurningin, hvort við séum kannski á þessari stundu að glata einhverjum tíma. Er kannski eitthvað sem við gætum látið fara betur í okkar löggjöf sem væri þörf fyrir okkur að reyna að lagfæra áður en þessi úrslitastund kemur þegar núgildandi lög taka gildi? Það voru sett ný lög um fjárfestingu útlendinga á síðasta vetri og ég hygg að í þeim, þegar á reynir, muni vera ýmislegt sem æskilegt væri að skýra nánar eða hafa gleggra. Eitt atriðið er t.d. það að sagt er að útlend fyrirtæki, sem eiga hlut í íslenskum fyrirtækjum þegar lögin voru samþykkt, megi halda sínum eignarrétti. En hvernig er það með ný fyrirtæki sem þau gerast svo aðilar að?
    Þar dettur mér í hug dæmi að nú standa yfir viðræður milli fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem eigandi eða hluthafi í öðru fyrirtækinu er hlutafélag sem er að nokkru leyti í eigu útlendinga. Eftir þessum lögum ætti það að halda sínum rétti og geta átt það áfram. En ef þessi fyrirtæki sameinast nú og mynda nýtt hlutafélag, hvernig fer þá? Verður nýja fyrirtækinu þá bönnuð starfsemi af því að þetta útlenda fyrirtæki er bakeignaraðili í gegnum kannski 2--3 liði? Svo er það spurning, hvernig fer ef erlendir bankar eignast hlut í fyrirtækjum? Eftir þessum gildandi lögum munu þeir hafa eins árs aðlögunartíma eða eins árs frest til þess að losa sig við eignarhlut sinn. Hvernig verður fylgst með því og hvernig verður eftir því gengið að þessi lög verði haldin? Verða fiskveiðiréttindin tekin af þessum fyrirtækjum og þau stöðvuð þannig eða hvernig á að framfylgja því?
    Þetta eru örfáar spurningar sem koma í hugann í sambandi við eitt atriði samningsins og sýnir það sem ég sagði áður að við það að velta fyrir sér einni spurningu vaknar önnur. Það sem ég vildi fyrst og fremst leggja áherslu á er að þarna fáum við sem allra nákvæmastar skýringar og að því verði unnið að kynna þetta mál af raunsæi, þannig að menn geti þar tekið raunhæfa afstöðu byggða á rökum en ekki einhverjum fullyrðingum og góðum óskum. Ég veit ekki hvort hæstv. utanrrh. getur svarað því enn þá hvenær við munum fá nauðsynleg gögn og upplýsingar í hendur en að sjálfsögðu er æskilegt að það verði sem fyrst því að áreiðanlega mun ekki af tímanum veita til þess að vinna að þessu máli og kryfja það til mergjar.