Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 22:16:00 (661)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en sagt það eftir þá ræðu sem hér var flutt þá er ég meira en lítið undrandi. Hvað er hv. formaður utanrmn. að segja við þingið? Hann er að segja okkur að það mál sem hæstv. utanrrh. hefur flutt um skýrslu til þingsins og er að tala um dag hvern og kvöld hvert við þjóðina, sé ekkert mál. Það sé ekki samningur, ekki drög að samningi, varla slitur af samningi og óvíst að það verði nokkurn tímann neitt úr því.
    Það er talsmaður Sjálfstfl. í utanríkismálum, stærsta flokksins í þinginu sem fræðir okkur á þessari stöðu máls. Ég vildi sannarlega óska að það væri innstæða á bak við hans orð og það mat sem hann er hér fram að færa, en það er þá nauðsynlegt að fá úr því skorið. Ég treysti því að hæstv. utanrrh. komi þegar í ræðustól og segi sitt álit á þessum málflutningi talsmanns Sjálfstfl. og formanns utanrmn. Því að það er utanrmn. þingsins sem hefur trúnað okkar varðandi athugun á þessu máli og er eini vettvangurinn sem hefur það til formlegrar skoðunar, þ.e. þau drög að samningi og að fylgjast með framgangi viðræðna o.s.frv. Ef hún og formaður hennar er þeirrar skoðunar að þetta sé einhvers staðar úti í buskanum, þetta sé ekki samningur, þetta séu tæpast slitrur af samningi og óvíst að

nokkurn tíma verði nokkuð úr því, þá eru það sannarlega tíðindi, ef þetta er viðhorf Sjálfstfl. til samningsins sem hæstv. utanrrh. telur sig hafa gert. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, að lokum aðeins þetta: Málið hefur verið þannig flutt af hæstv. utanrrh. að það sé búið að ganga frá því pólitískt í öllum aðalatriðum og ég heyri sömu túlkun frá hálfu Evrópubandalagsins. En formaður utanrmn. kemur hér með allt annað viðhorf, lýsir málinu á allt annan hátt.