Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 23:12:00 (667)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. reyndi að vinda sér fimlega undan ábendingum mínum um það að hann væri að borga sigurlaunin úr eigin vasa. Skýring hans sannfærði mig hins vegar ekki um það að hann hefði látið það vera að hafa þann háttinn á. Sá samningur er þó ekki gerður og liggur víst ekki einu sinni fyrir, ekki einu sinni í drögum, þannig að formaður utanrmn. gæti kannski með réttu haft þau orð um sjávarútvegssamninginn sem slíkan. En það gengur ekki að segja mönnum það að loðna sem aldrei hefur verið veidd af Evrópubandalaginu geti orðið skiptimynt. Og það gengur ekki að segja okkur það að loðna sem samkvæmt rétti Íslendinga fellur í hlut Íslendinga ef hún er ekki veidd sé eitthvað sem Evrópubandalagið hafði á hendi til að skipta á. Þessi málflutningur rímar að sjálfsögðu ekki. Hæstv. ráðherra ætti að lesa betur 5. gr. samningsins og hann ætti að ræða við menn sem hafa fylgst með þessu. Hann gati farið upp í Hafrannsóknastofnun og rætt við forstjóra hennar. Ætli þeir hafi ekki fylgst með þessu máli? Ætli hann hafi ekki reynt að nota sinn samningsbundna rétt frá 1989 í þessum efnum? Hitt kann svo að vera að ef starfsmenn hæstv. ráðherra hafi getað snúið á Evrópubandalagið út af einhverjum reiknireglum mundi ég nú ekki hafa hátt um það á meðan samningurinn er ekki gerður og ekki einu sinni kominn í drög.
    Hins vegar lét ráðherrann ýmsu ósvarað sem spurt var um en ég kem því ekki að hér í andsvari, virðulegi forseti, því að ég vil ekki ganga á þann rétt, en ég tek það fyrir hér á eftir í ræðu. Og ég vil þó nefna það sem dæmi um það sem ekki var svarað fyrir utan ágreiningsefni og það er um það hvaða tungumál eigi að gilda á þessu Evrópska efnahagssvæði í framtíðinni af hálfu EFTA. Hvaða tungum eiga Íslendingar að tala á þeim vettvangi? Ég spurði um þetta. Það væri nú gott að fá það upplýst.