Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 23:26:00 (675)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég ákvað að taka aftur til máls eftir að hæstv. ráðherra hafði flutt ræðu áðan og leitaðist við að svara nokkru af því sem ég bar fram við hann en lét öðru ósvarað. Nú ætla ég ekki að elta ólar við það til hlítar og læt ráðherrann um hvar hann lætur þögnina tala fyrir sig í þessu máli, en það er út af fyrir sig athyglisvert líka sem hann ekki tekur hér upp að gefnu tilefni og kýs að láta liggja í þagnargildi.
    Ég vil fyrst af öllu koma að því sem ég raunar byrjaði mína ræðu á áðan, en það er hvernig þetta mál kemur fyrir Alþingi. Og mér finnst það með nokkrum ólíkindum ef hæstv. ráðherra er ekki búinn að átta sig á því og kortleggja það eins og það er sagt á tæknimáli hvernig þetta mál verði fram borið við þingið því að þetta er ekkert nýtt að forminu til. Það er ekkert nýtt hvert er innihald þessa máls ef það kemst á leiðarenda, þ.e. af hálfu ríkisstjórnar inn í Alþingi með ósk um staðfestingu. Og það hefur nú hæstv. ráðherra sagt með mjög ótvíræðum hætti og e.t.v. hefur formaður utanrmn. hlýtt á hans orð þar að lútandi hvernig málið er túlkað af hálfu ráðherrans. Og ég vil inna hæstv. utanrrh.

betur eftir því og hann vísar því þá út í óvissuna ef óvissan er þarna, með hvaða hætti lagabálkar Evrópubandalagsins verði lagðir fyrir. Við fengum hér doðrant mikinn sem við kölluðum Bláskinnu á næstsíðasta þingi í fyrravetur sem var lausleg yfirferð embættismanna á þessum lagabálkum með athugasemdum við einstaka þætti og ábendingum, vissulega ekki í formi frumvarpa en þetta lá þarna fyrir skráð og þarna er um að ræða þau lög sem verða æðri íslenskum lögum. Verður þetta lagt fyrir hér í einum pakka, hæstv. ráðherra, verður þetta lagt fyrir í einum pakka e.t.v. með lagafrumvarpi og þá sem fylgigögn við það, svipað og þegar menn hafa verið að staðfesta stóra hluti, t.d., svo að dæmi sé tekið, samninga um álbræðslur með mörgum fylgisamningum, þar sem menn eru að lögfesta þessa gjörninga alla saman? Þetta hlýtur að vera orðið ljóst og skiptir allnokkru. Eða er málið þannig að það eigi ekki að fara í þetta svona, heldur eigi að fara að taka upp hin einstöku lagasvið íslensk, búa til frumvörp sem taki tillit til Rómarréttar í hverju ráðuneyti og leggja þau fyrir Alþingi eins og hver önnur þingmál til meðferðar og síðan umfjöllunar í nefnd? Það er þetta sem forvitnilegt væri að vita því að það skiptir allnokkru varðandi vinnuna sem er hér fram undan á árinu 1992 og þau mörgu frí sem forseti þingsins býður þingmönnum upp á á þessu ári eða þessum vetri sem gæti nú farið að styttast í eftir því hvernig á þessu máli er haldið gagnvart þinginu á árinu 1992. (Gripið fram í.) Ég vil halda mig að verki eftir því sem ástæður bjóða, hv. formaður þingflokks Alþfl. Og ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti veitt okkur einhverja betri úrlausn.
    Síðan í öðru lagi ein ósköp lítil og saklaus spurning: Hvaða tungumál er það sem á að gilda í stofnunum Evrópsks efnahagssvæðis að því er varðar EFTA-ríkin? Því ætti nú að vera fljótsvarað af hæstv. ráðherra. Ég hef tvívegis spurt og vænti svars.
    Hæstv. ráðherra hefur í sínu máli fjallað talsvert um stöðu öryggisákvæða, þróunarákvæða, í þessum samningi, að ekki sé nú talað um stöðu dómstóla og stöðu íslenskrar löggjafar og möguleika á að setja upp girðingar með tilliti til dómstóla. Nú er það svo að hæstv. ráðherra er ekki sérfræðingur á þessu sviði og hann er ekki í þeirri aðstöðu að kveða upp dóma. Ég veit ekki hvort ég á að fagna því að svo er ekki, en svo mikið er víst að mér finnst hann á tæpu vaði þegar hann er lætur liggja að því að allt önnur sjónarmið kunni að gilda og liggja til grundvallar í dómsmálum sem rekin eru fyrir EES-dómi en þeim sem rekin eru fyrir Evrópudómstólnum. Ég held að þetta sé tálsýn hjá ráðherranum. Ég vona að hæstv. ráðherra heyri mál mitt. Ef hann hefur gengið frá get ég hinkrað við. ( Forseti: Athygli hv. 4. þm. Austurl. er vakin á því að í næsta sal eru einnig hátalarar og ráðherra stendur þarna og heyrir mál hans.) Það er gott ef svo er. Þá skal ég halda áfram máli mínu.
    Ég bendi hæstv. ráðherra á að dómar, hvort sem þeir heita EES-dómstóll eða Evrópudómstóll, leggja sömu löggjöfina til grundvallar sem lögfesta á í þessum samningi sem fram er borinn. Og það eru nákvæmlega sömu skyldur sem menn taka á sig að því er varðar fjórfrelsið hvort sem þeir eru EFTA-megin í Evrópsku efnahagssvæði eða þeir eru Evrópubandalagsmegin. Á þessu er ekki munur og þess vegna hljóta menn að líta til dómstólanna sem áhrifaaðila í sambandi við þennan samning og þeirrar þróunar í réttarkerfi sem orðið hefur innan Evrópubandalagsins sjálfs.
    Nú kann vel að vera að fyrirvarinn varðandi sjávarútveg og fjárfestingar í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða haldi gagnvart dómstólum verði hann nógu tryggilega tekinn inn í þennan samning sjálfan, en það er því aðeins að svo verði gert. En engu að síður var það álit þriggja norskra lagaprófessora að ef ekki kæmi til þess að slík ákvæði væru fyrir í samningnum sjálfum gætu menn brotist inn í fiskveiðilögsögu Noregs, ekki út á undanþáguákvæði eða vegna þess að sjávarútvegssviðið lægi til hliðar, heldur í krafti ákvæða fjórfrelsisins um fjármögnun, fjármagnshreyfingar og rétt til að stofna fyrirtæki og kaupa

það sem framseljanlegt er þar í landi. Að þessu verða menn að gefa gaum þegar yfir þetta svið er farið.
    Það er nýkomin út bók eftir Stefán Má Stefánsson lagaprófessor sem heitir Sjávarútvegsreglur Evrópubandalagsins, fróðleg lesning um svið sem við þurfum vissulega að vera á verði á þó að við séum ekki komin inn í Evrópubandalagið sjálft og sem betur fer ekki sett undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu þess. Út úr þessu riti fæ ég hins vegar þann skilning staðfestan sem ég er að túlka hér, að reglur fjórfrelsisins verði lagðar til grundvallar hvort sem er innan Evrópsks efnahagssvæðis eða innan Evrópubandalagsins og þeim dómstólum sem þar er um að ræða, EES-dómstóli og EB-dómstóli. Þetta varðar miklu.
    Að því er snertir þróun og endurskoðun á samningum varðandi sjávarútvegsmál í EES-samningi vænti ég að það mat sé rétt að menn geti haldið þeirri stöðu, ef til kæmi, sem er samkvæmt þessum samningi, þ.e. það geti staðið járn í járn þótt kröfur séu upp teknar, en það er ekki hægt að segja að þróunarákvæðið, sem veitir rétt til upptöku mála og að bera sig saman um sjávarútvegssviðið á tveggja ára fresti, sé einskis virði, að það hafi ekki efnislegt inntak. Væri svo ekki væri þetta ákvæði að sjálfsögðu ekki inni í samningi. Þetta gæfi Íslendingum möguleika á því að segja: Við viljum fá endurskoðun á tollaákvæðum. En hvers megum við vænta sem andsvars á grundvelli þessa ákvæðis? Ég held að það sé alveg ljóst að því er Evrópubandalagið sjálft varðar.
    Á landbúnaðarsviðinu eru líka ákvæði inni í þessum samningsdrögum um endurupptöku mála. Það er m.a. kveðið á um það í þessum samningsdrögum að landbúnaðarsviðið eigi að endurskoða að því er snertir viðskipti með landbúnaðarafurðir fyrir árslok 1993 og síðan á tveggja ára fresti með það fyrir augum að rýmka til á þessu samningssviði. Ég vek athygli á þessu. Þetta er annars eðlis og því er með öðrum hætti fyrir komið í samningsdrögum en þróunarákvæðum varðandi sjávarútvegsmálefni og í rauninni er miklu ótvíræðara hvert stefna beri í sambandi við innflutning á landbúnaðarafurðum.
    Þetta eru nokkur af þeim atriðum, virðulegur forseti, sem ég sá ástæðu til að gera athugasemdir um.
    Að því er snertir sigurlaunin ráðherrans og skiptin á veiðiheimildum skulum við ekki orðlengja þau efni frekar að þessu sinni. Hins vegar verður fróðlegt að sjá þau samningsdrög sem hæstv. ráðherra ætlar að koma með eftir að hafa tekist á um þessi mál við Evrópubandalagið því að sannanlega virðist sem þeirri glímu sé ekki lokið. Auðvitað óska ég ráðherranum velfarnaðar í þeim átökum að því er snertir íslenska hagsmuni, en mér sýnist að staðan sé veik og ég held að ráðherrann þurfi að athuga þessi mál betur, veiti honum sömu ráðleggingar og hann gaf mér úr þessum ræðustól vegna þess að hans málflutningur er ekki á traustum grunni reistur að því er snertir þessi samskipti. Það er ekki hægt að skipta á því sem ekki hefur verið til skiptanna fram að þessu. Það er ekki frambærilegt.
    Ég vænti þess að lokum, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra komi hér og veiti nokkra úrlausn varðandi þau efni sem hér var um spurt og hef ekki ástæðu til að lengja mál mitt að sinni. Ég vænti að hann varpi frekara ljósi á það hvernig mál verði hér fyrir lögð og ekki síst svari ákveðinni lítilli spurningu um það að efni til og umfangi hvert verður samskiptamálið EFTA-megin í stofnunum Evrópsks efnahagssvæðis.