Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 13:50:00 (685)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég bjóst satt að segja við því að hæstv. forseti mundi taka afstöðu til ummæla hv. 3. þm. Reykv. hér úr forsetastóli að gefnu tilefni. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fara fram á það að hæstv. forseti greini frá því hver er hennar skoðun á þeim ummælum sem fram koma í grein hv. 3. þm. Reykv. í Morgunblaðinu í dag.
    Satt að segja var það þannig, virðulegi forseti, að þetta þinghald fór ekki allt of vel af stað. Fyrst og fremst var það vegna þess að stjórnarliðið kaus að neita samvinnu um kosningu í forsætisnefnd með því að gera kröfur um það að þingflokkur Kvennalistans ætti ekki fulltrúa í forsætisnefndinni. Við þær aðstæður var í raun og veru margt sem benti til þess að stjórnarliðið væri að segja sundur friðinn hér um þinghaldið yfirleitt.
    Í framhaldi af því kemur það mál upp nokkrum þingdögum síðar að það á að kjósa í útvarpsráð af því að fulltrúar Sjálfstfl. í útvarpsráði höfðu lagt á flótta úr út þeirri stofnun þar sem þeir treystu ekki núv. menntmrh. Út af fyrir sig kom það okkur stjórnarandstæðingum ekki á óvart þó að menn treystu ekki menntmrh. ( Forseti: Tala bara um þingsköp, takk.) Nákvæmlega. Ég er að því, að tala um þingsköp, forseti. Alveg held mig stíft við þingsköp. ( Gripið fram í: Þú ert langt frá þeim.) Ég held mig stíft við þingsköp, hv. þm. Þegar þessi mál komu síðan til umræðu á Alþingi þá gerðist það að við óskuðum eftir því að fá að heyra skoðanir hæstv. menntmrh. Þá stendur upp hv. 3. þm. Reykv. og ber það á okkur sem þá vorum í forustu fyrir stjórnarandstöðuna á forsetafundi, að við værum að bregðast samkomulagi sem við hefðum gert. Þannig beinist áburður hv. 3. þm. Reykv. að mér persónulega og hv. 1. þm. Norðurl. v. og þeim fulltrúa Kvennalistans sem sat viðkomandi fund. Ég hlýt því að taka þessum árásum mjög illa og ég geri ráð fyrir því að þeir sem þekkja til þeirra vinnubragða sem við höfum viðhaft hér á þinginu í ár og á undanförnum árum geti ekki rifjað upp dæmi um það að við höfum brugðist samningum.
    Hins vegar kemur það auðvitað oft fyrir og þekktustu dæmin um það eru úr þingflokki Sjálfstfl. að formönnum þingflokka gengur oft mjög illa að semja fyrir sína flokka. Frægustu dæmin um það munu væntanlega birtast í ævisögu núv. menntmrh. sem kemur út á næstu öld, vona ég, þar sem hann greinir frá því hvernig honum gekk að standa við samninga fyrir hönd þingflokks Sjálfstfl., t.d. á árunum 1980--1983, og verður það einkar fróðlegur kafli. Vitaskuld kemur það iðulega fyrir að þingflokksformenn hafa ekki stöðu til þess að segja fyrir um viðbrögð þingmanna sinna í einstökum atriðum. En í öllum meginatriðum held ég að hægt sé að fullyrða að við sem höfum samið hér fyrir flokka á undanförnum árum höfum lagt metnað okkar og starfsheiður í það að standa við þá samninga sem við höfum gert. Þess vegna hljótum við að taka orðum og árásum hv. þm. Björns Bjarnasonar mjög illa.
    Það er auðvitað nauðsynlegt ef það á að halda hér uppi einhverri reglu um þinghaldið að það náist gott samstarf milli forseta og formanna þingflokkanna. Nú er í rauninni búið að lýsa því yfir að sá samstarfsvettvangur sé ónýtur líka. Það er mjög alvarlegur hlutur og ég bið hæstv. forseta að íhuga það mjög alvarlega með okkur hinum hvaða afleiðingar það getur haft fyrir þinghaldið ef enginn vettvangur er lengur eftir til þess að eiga samvinnu á varðandi skipulag umræðna og dagskrár.
    Ég held að það sé rétt sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv. að það er úrslitaatriði að það skapi traust þarna á milli. Hins vegar hefur það borið við mjög víða að menn hafa verið að segja í sundur friðinn, ekki aðeins í forsætisnefndinni og samvinnu formanna þingflokka og forseta, heldur einnig víðar í ýmsum nefndum sem hafa verið kosnar á vegum þingsins núna að undanförnu. Þar hafa komið upp margvísleg umhugsunarefni þar sem menn hafa í rauninni reynt að beita valdi með fullkomlega óeðlilegum hætti og verður það ekki rakið nánar hér á þessu stigi. Ég tek það fram að það á ekki við þær þingnefndir sem ég sit í.
    Ég held þess vegna að þær ábendingar sem fram komu hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., Páli Péturssyni, séu gildar og það sé nauðsynlegt að þetta mál verði rætt mjög alvarlega. Það er spurning hvort á ekki að taka í það tíma nú þegar að menn setjist niður, forustumenn þingsins, formenn þingflokka og formenn flokka sem hér eru, til þess að fara yfir málin.
    Ástæðan til þess að þingstörf hafa tafist hér af og til í vetur hefur ekki verið sú að stjórnarandstaðan hafi verið að tefja. Ástæðan hefur fyrst og fremst verið sú að ráðherrar hafa ekki gegnt þingskyldum sínum. Það er t.d. bersýnilegt, virðulegi forseti, að fjarvera utanrrh. og félmrh. um tveggja vikna skeið getur skapað verulegan vanda hér í þinghaldi á næstunni þar sem þessir ráðherrar þurfa auðvitað að sitja fyrir svörum um sína málaflokka. (Forseti hringir.) Þess vegna er nú þinghaldið allt í uppnámi. Það ber að gagnrýna hv. 3. þm. Reykv. fyrir að hafa sett þinghaldið í uppnám með þessum hætti og það ber að spyrja hæstv. forseta hver er hennar skoðun á þessum vinnubrögðum sem hér hafa verið rædd og fram koma í grein hv. þm.