Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:16:00 (694)

     Björn Bjarnason :
     Virðulegur forseti. Hafi ég sagt hér í umræðunum að menn hafi gengið á bak samningum þá er mér ljúft að biðjast afsökunar vegna þess, en ég hef ekki sagt það, held ég, hér í umræðunum að menn hafi brotið samninga eða gengið á bak orða sinna.
    Í þessari grein sem ég skrifaði og hefur orðið tilefni umræðna hér á Alþingi stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hins vegar hefur verið upplýst í umræðum í þingsalnum, að ekki hafi reynst unnt að treysta því, sem menn töldu niðurstöðu á slíkum samráðsfundi forseta með þingflokksformönnum.``
    Þetta upplýsti ég sjálfur í ræðu í þingsalnum, þannig að þetta er ekkert nýmæli fyrir þá sem tóku þátt í þeim umræðum sem hér eiga sér stað, þetta upplýsti ég sjálfur hér í þingsalnum og við ræddum það á sínum tíma og það mál var leyst með þeim hætti sem gert var þegar þær umræður fóru fram.
    Ef menn hafa skilið orð mín á þann veg, sem stendur ekki hér í þessari grein, að ég beri menn þeim sökum að þeir hafi svikið samninga sem gerðir hafa verið, hins vegar taldi ég niðurstöðu vera aðra en á reyndi þegar kom í þær umræður. Hafi ég sagt í umræðunum áðan að menn hafi svikið samninga sem þeir hafi gert við mig, þá er mér ljúft að biðjast afsökunar á því. En ég sé ekki að hér í þessari grein fullyrði ég neitt um slík svik. Hins vegar tel ég að túlkun manna á þeirri niðurstöðu þá sem varð. Það var upplýst í þeim umræðum sem urðu af þessu tilefni að einn fundarmanna skýrði frá því hér í fundarsalnum úr þessum hv. ræðustóli, að hann hefði skipt um skoðun. Það er það sem ég er að vísa til en ég nefni hvergi í þessu máli mínu að menn hafi svikið samninga sem þeir höfðu gert við mig eða forseta Alþingis.
    Hér er um mjög viðkvæmt og alvarlegt mál að ræða, ég tek undir allt sem þingmenn hafa sagt um það. Ég ítreka þá ósk mína að samstarfið í Alþingi verði gott. Ég tek undir það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði hér, ég hef þau lýðréttindi að ég hef málfrelsi og frelsi til að láta í ljós þá skoðun sem ég tel að sé rétt þar sem mér dettur í hug, hvort sem er á prenti eða hér í þingsalnum, en ég sit ekki undir því heldur að menn oftúlki orð mín með þeim hætti að ég hafi lýst því hér yfir að menn hafi svikið samninga við mig. Það hef ég ekki sagt. Hafi ég sagt það án þess að ætla það þá er mér ljúft

að biðjast afsökunar á því.