Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:26:00 (697)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki lesið þessa grein í Morgunblaðinu þegar ég kom hingað í þingsalinn og var að fá hana í hendur. En mér finnst ég verða að andmæla þeim ásökunum sem á mig eru bornar í henni og sitja ekki alveg þegjandi undir þeim, því að í greininni segir að það sé óþægilegt fyrir framsóknarmenn að sætta sig við að hafa misst þau ítök sem þeir höfðu í stjórn þingsins.
    Ég tel að þetta sé mjög ósanngjörn ásökun á mig. Ég tel að við sem vorum í forsætisnefndinni á sl. sumri höfum ekki unnið þannig að við værum að reyna að tefja fyrir ríkisstjórninni þegar við fjölluðum um undirbúning að þinghaldinu.
    Ég vil t.d. benda á það að við stjórnarandstæðingar í forsætisnefndinni vöruðum mjög við því að fella niður fundi Alþingis snemma á þingtíma. Við töldum að það mundi ekki veita af fyrir stjórnarliðið að hafa fundi til þess að koma málum áfram. Þetta er aðeins eitt dæmi. Ég skal ekki tefja tímann lengur um það. Að sjálfsögðu er rétt að það er þægilegra fyrir okkur úr stjórnarandstöðunni sem vorum í forsætisnefndinni að vera þar ekki lengur við þessar aðstæður því að sjálfsögðu hefðum við talið það skyldu okkar að gera það sem í okkar valdi stæði til að greiða fyrir þingstörfum og leggja fram vinnu til þess ef við hefðum átt þar sæti áfram. En að það sé einhver hefndarhugur eða vonska sem bitnar á þingstörfum vegna þess að við erum þar ekki lengur, sérstaklega reyndar ég, þar sem talað er um framsóknarmenn, því vil ég algerlega mótmæla.