Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:33:00 (700)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Ef menn treysta hver öðrum þurfa þeir ekki að skrifa. Þegar menn eru hættir að treysta hver öðrum er rétt að fara að bóka.
    Varðandi samstarf þingflokksformanna við forseta þá vona ég að það geti orðið með skaplegum hætti. Ég lét það koma fram í upphafsorðum mínum að ég hefði ekkert upp á samskipti mín við frú forseta að klaga og ég vona að þau verði áfram góð. Á hinn bóginn setti ég fram kröfu, sem ég stend við, um að samráðsfundir, ef henni kann að sýnast að boða til þeirra samkvæmt þingsköpum, verði haldnir annars staðar en í forsetaherberginu. Það er ekki út af neinni óánægju við frú forseta, það er herbergi allra forsetanna sem hér er um að ræða. Ég vænti þess að hægt verði að verða við þeirri ósk minni að þessir fundir verði haldnir annars staðar í húsakynnum Alþingis.