Lánsfjárlög 1992

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 14:38:00 (702)

     Halldór Ásgrímsson (frh.) :
     Virðulegur forseti. Það var fyrir alllöngu síðan, fyrir þinghlé, að þetta mál var til umræðu á föstudegi og var þá hugmyndin að reyna að koma því áfram til nefndar. Hér er eitt af þýðingarmestu málum þingsins til umræðu, þ.e. frv. til laga um lánsfjárlög. Það ásamt fjárlagafrv. skapar þann ramma sem er hvað mikilvægastur í efnahagslífi okkar og því eðlilegt að þetta frv. fái nokkra umræðu á hv. Alþingi.
    Ég hafði í ræðu minni fjallað allnokkuð um peningamarkaðinn og þá stöðu sem þar er og haldið fram þeirri fullyrðingu að hæstv. ríkisstjórn hefði ekki tekist og væri ekki að takast að skapa þann stöðugleika á lánsfjármarkaði og peningamarkaði sem virtist ætla að duga til að koma vöxtum svo mikið niður að möguleikar gætu skapast til skynsamlegra kjarasamninga í landinu. Mér er fullkomlega ljóst, eins og flestum öðrum, að þetta er lykilatriði og því er nauðsynlegt að mikið aðhald sé í fjárlögunum og jafnframt í lánsfjárlögum og skil vel það sem hæstv. ríkisstjórn er að reyna að gera á þessu sviði en henni virðist ekki ætla að takast.
    Ég sé að hæstv. viðskrh. er kominn til þings sem ég fagna vegna þess að það er að sjálfsögðu mikilvægt að hann taki þátt í umræðu um lánsfjármarkaðinn og vaxtamálin og upplýsi þingið um hvaða blikur eru þar á lofti.
    Í viðræðum sem við höfðum átt í hv. efh.- og viðskn., m.a. við Seðlabankann, hefur komið fram að raunvextir á óverðtryggðum skuldabréfalánum eru nú á haustmánuðum 15,8%. Hógvær seðlabankastjóri orðaði það svo að þessir vextir væru æðiháir. Ég býst við því að ef hann sæti ekki í þeim stól, þá mundi hann hafa tilhneigingu til að orða það með öðrum hætti og væri fróðlegt að heyra það frá hæstv. viðskrh. hvaða lýsingu hann mundi gefa þessu vaxtastigi, þ.e. 15,8% á fjórða ársfjórðungi á óverðtryggðum skuldabréfalánum.
    Það er að sjálfsögðu meginverkefni lánsfjárlaga að reyna að skapa það jafnvægi sem til þarf til að koma þessum vöxtum niður. Ég viðurkenni fúslega að eitt af því sem þar er mikilvægt er jafnvægi í ríkisfjármálum. Hins vegar verður því ekki á móti mælt að sú mikla útgáfa á húsbréfum sem verið hefur á árinu 1991 hefur valdið verulegu ójafnvægi. Þar er um að ræða útgáfu húsbréfa fyrir um 15 milljarða kr. og hefur hún valdið mikilli spennu á lánsfjármarkaðnum, ekki eingöngu að mínu mati heldur jafnframt að mati Seðlabankans. Og svo að notuð séu þeirra orð þá hafa spariskírteini ekki getað keppt við húsbréfin. Það virðist vera á þessu fremur lítill skilningur í núv. hæstv. ríkisstjórn. Ég efast ekki um góðan ásetning hennar til að skaffa þeim aðilum, sem á því þurfa að halda að fá þessi bréf, möguleika til að afla sér eigin húsnæðis en það er nú svo að við munum ekki lifa á því um langan aldur á Íslandi að byggja yfir okkur húsnæði þótt það sé mikilvægt. Það er mikilvægara að undirstöðuatvinnvegirnir hafi rekstrarfé og fjárfestingarfé en mér finnst ekki vera skilningur á því hjá hæstv. ríkisstjórn. Mér finnst eins og hún telji mikilvægara að skaffa nægilegt fé til byggingarframkvæmda og það skuli ganga fyrir en atvinnulífið skuli mæta afgangi.
    Það hefur komið fram hjá fyrrv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands, bankastjóra hjá Landsbanka Íslands, að hann sjái ekki annað ráð en að loka fyrirtækjum, ekki svo að hann telji það vera neitt sérstakt ráð en það sé einfaldlega komið í þau efni að það sé nokkuð ljóst að þessi fyrirtæki munu stöðvast. Það væri fróðlegt að vita hvort þessi bankastjóri Seðlabanka Íslands talar þar fyrir hönd forsrh. eða í samráði við hann. Þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið eru ekki í miklu ósamræmi við málflutning hæstv. forsrh. núv. ríkisstjórnar ( Viðskrh.: Þú sagðir Seðlabanka í seinna sinnið.) Ég átti nú við landsbankastjóra og nánar til getið heitir hann Sverrir Hermannsson og ætti að vera viðskrh. að góðu kunnur þar sem þeir munu vera frá sama landshluta sem núv. forsrh. hefur að vísu boðist til að hjálpa með þeim hætti að flytja fólk þaðan í burt. ( Viðskrh.: Sama bæ.) Og meira að segja sama bæ. En ég veit að hæstv. viðskrh. hefur ekki þennan brennandi áhuga forsrh. að koma sem flestum þaðan á braut. En ég heyri þó að hæstv. viðskrh. hefur skilið við hvað ég átti. ( Viðskrh.: Þú nefndir bara annan banka. Ég hélt að ég væri kominn austur á land.) Austur á land? ( Viðskrh.: Af því að þú nefndir Seðlabanka og fyrrv. ráðherra.) Já. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að ég hafi orðið og hæstv. viðskrh. njóti málfrelsis þegar hann heiðrar okkur með nærveru sinni. Ég get vel skilið að hann hefur mikið að starfa og ég hef fullan skilning á því en ég veit að hann mun hafa tækifæri til að tjá sig í umræðum á eftir.
    Það er um mjög alvarlegt ástand að ræða á lánsfjármarkaði og ég hef ekki séð neitt sem bendir til þess að hæstv. ríkisstjórn sé að takast vel til í þessum efnum. Hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til margvíslegra aðgerða. M.a. hefur hún gripið til þeirra aðgerða að draga úr útgáfu á húsbréfum. Fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands höfðu metið það --- nú veit ég að hæstv. viðskrh. hefur ekki mikla trú á því sem þaðan kemur sem ég ætla að koma aðeins að síðar --- og þeirra mat var að það mundi draga úr útgáfu bréfanna um 5%. Ef það er rétt stangast það á við áform ríkisstjórnarinnar því að í lánsfjárlögum gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að samdráttur í útgáfu bréfanna verði mun meiri og því muni myndast meira jafnvægi á þessum markaði. Það er jafnframt ljóst, eins og ég gat um í ræðu minni, að viðskiptahalli er mikið vandamál í íslenskum þjóðarbúskap og það er ekki gerð grein fyrir því í þeim skjölum sem eru lögð fyrir okkur með hvaða hætti ríkisstjórnin sér að þessi viðskiptahalli verði fjármagnaður.
    Ríkisstjórnin greip líka til þeirra aðgerða að fara þess á leit við Seðlabankann að húsbréf yrðu skilgreind sem peningar í lausafjárstöðu. Það finnst mér undarleg hagfræði. Mér er að vísu ljóst að spariskírteini ríkissjóðs hafa verið skilgreind með þessum hætti, en að taka upp á því að skilgreina húsbréfin jafnframt, að vísu ekki að fullu heldur að hálfu sem peningalegar eignir, er hlutur sem ég fæ ekki skilið, en ég vænti þess að annaðhvort hæstv. fjmrh. eða hæstv. viðskrh. upplýsi okkur þingmenn um hvað liggi hér að baki.
    Við spurðum bankastjóra Seðlabankans um það hvort hér væri um góðar skilgreiningar að ræða. Það mátti skilja á þeim að þeir hefðu gert þetta en gegn vilja sínum og þeir teldu þetta ekki góða siði. Verð ég þá að spyrja, ef ég hef skilið seðlabankastjórana rétt, þó ekki sé orðrétt eftir þeim haft, ég tek það fram, því að þeir eru orðvarir menn, þá var a.m.k. ljóst að þeir töldu ekki rétt að skilgreina húsbréfin með þessum hætti, þeir hefðu hins vegar á það fallist en væntu þess að þessu yrði breytt.
    Það er eins og ég hafi heyrt það frá hæstv. ríkisstjórn að nú ætti að taka upp nýja hætti í öllum stjórnsýslustörfum, efla sjálfstæði Seðlabankans og sjálfstæði allra stofnana og meira að segaj hv. 3. þm. Reykv., sem hér hefur verið nokkuð til umræðu, minnist þessara merku tímamóta í sögu landsins með því að segja að nú eigi sér stað einhvers konar uppgjör, með leyfi hæstv. forseta, uppgjör við framsóknarmennskuna í landsstjórninni. Nú sé hún ekki lengur ríkjandi, hún hafi verið ríkjandi hér í áratugi, framsóknarmennskan í landsstjórninni, með alls konar afskiptum, boðum og bönnum, og aðrir stjórnmálaflokkar --- ef ég skil hv. þm. rétt --- hafi nánast verið teymdir með í þessa framsóknarmennsku og þeir hafi ekki getað sig þar hreyft. Slíkur hafi áhrifamáttur Framsfl. verið.
    Það er kannski þess vegna sem þeim virðist líða svona ljómandi vel og vera svona glaðir hér í þingsalnum, eins og allir hafa tekið eftir síðustu daga, að þeir séu nú lausir úr prísund framsóknarmennskunnar.
    En ég spyr hæstv. viðskrh. og kannski sérstaklega hæstv. fjmrh., hvort það samrýmist þessum nýju háttum í landsstjórninni nánast að fyrirskipa Seðlabankanum að skilgreina húsbréf sem peninga. Það finnst mér ekki vera mikið frjálslyndi. Ég tek undir það og hef oft haldið um það stuttar ræður --- því ég hef nú ekki talað lengi, a.m.k. ekki á Alþingi þau 15 eða 16 ár sem ég hef setið hér --- að það ætti að efla sjálfstæði Seðlabankans án þess að ég ætli að fara að blanda því saman við einhverja sérstaka isma í pólitíkinni. Þessi ismi, framsóknarmennska, er dálítið sérkennilegt hugtak, vegna þess að stór hluti Sjálfstfl. er gjarnan kenndur við þessar kenningar og félagar gera það gjarnan í þeirra garð, svona heldur til að ávíta þá, eins og við upplifum það. En það er nú svo að stundum þarf að hafa afskipti af ýmsum málum í litlu samfélagi þar sem sveiflur eru miklar og efnahagsstjórnun erfið, þá þarf ríkisvaldið að hafa nauðsynleg stjórntæki til þess að grípa þar inn í. Þetta eru mikilvæg mál sem ég bið hæstv. ráðherra að upplýa betur í þessum umræðum sem nú fara hér fram.
    En nú ætla ég með nokkrum orðum að víkja að sjálfu frv. en þar eru nokkur atriði sem ég vildi minnast á.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því í 3. gr. að atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar fái allt að 1.250 millj. kr. Á þessum sjóði og starfsemi hans hefur farið fram alveg sérstök úttekt af hálfu ríkisstjórnarinnar og ekki líður sá dagur að ríkisstjórnin tjái sig ekki sérstaklega um þessa starfsemi. Hefur hæstv. forsrh. gengið þar fremstur í þeirri víglínu og farið hinum háðulegustu orðum um allt það sem þar hefur gerst.
    Ég ætla ekki að halda því fram að þar hafi ekki átt sér stað einhver mistök, eins og gengur og gerist í lánastarfsemi, það er langt í frá, en ég veit að hæstv. viðskrh. er mér sammála í því að sú starfsemi var sett í gang af mikilli nauðsyn og af því hugarfari að það yrði að koma atvinnulífinu til aðstoðar, undan því yrði ekki vikist. En ég hlýt því að spyrja hæstv. fjmrh., sérstaklega að þessu, vegna þess að hér eru aðrir sjóðir. Það hefur verið fjallað sérstaklega um Byggðastofnun og starfsemi hennar af hálfu ríkisstjórnarinnar á þann hátt að hv. 1. þm. Vestf., stjórnarformaður þeirrar stofnunar, hefur nánast ekki séð sér fært að sitja hér oft á tíðum inni í þingsalnum.
    En hér eru líka aðrir sjóðir sem ríkissjóður á aðild að og ávallt hefur verið venja að kæmu fram í lánsfjárlögum. Hér er t.d. Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður. Iðnlánasjóður þarf allt að 1.600 millj. kr., Iðnþróunarsjóður allt að 600 millj. kr. Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Mun núv. ríkisstjórn beita sér fyrir einhverri sérstakri úttekt á lánastarfsemi þessara sjóða með sama hætti og gerst hefur í öðrum tilvikum? Mun forsrh. eða fjmrh. fara þess á leit við Ríkisendurskoðun að þeir kafi sérstaklega ofan í reikninga þessara sjóða og athugi hvort ekki hafi þar átt sér stað einhver mistök sem gætu kannski fallið undir þau lýsingarorð sem hæstv. ráðherrar hafa notað hér í umræðum og ég ætla ekki sérstaklega að hafa eftir? Og hef ég þó enga ástæðu til að ætla að slíkt eigi sér stað í þessum sjóðum. Hins vegar veit ég að þar hafa átt sér stað mistök í útlánum og þessir aðilar eru að tapa fé vegna áhættureksturs og slíkt hlýtur alltaf að verða hér í landinu.
    Hér er Fiskveiðasjóður, sem þarf allt að 2.750 millj. kr. og á mikið fé útistandandi hjá fiskvinnslu og útgerð. Það er mikilvægt að það fé sé sem best tryggt, og er í nánu samhengi við starfsskilyrði sjávarútvegsins og þá skattheimtu sem ríkisstjórnin hyggst leggja á sjávarútveginn í ár og á næstu árum. Það er því náttúrlega alveg ljóst að ef ýmsar hugmyndir, sem fleygt er í stjórnun fiskveiða og margt annað, verður að veruleika, þá mun það skapa áhættu fyrir þessa sjóði. Það er hins vegar svo að það er afar erfitt að meta það í hverju þessi áhætta felst. Það er t.d. alveg ljóst að ef við Íslendingar stæðum frammi fyrir því að geta veitt aðeins 150.000 tonn af þorski á ári, þá væru útlán flestra sjóða á Íslandi í gífurlegri hættu og bankarnir gætu riðað til falls. En það er jafnframt ljóst að ef afli yrði mun meiri þá hefði það mikil áhrif á þá áhættu sem þar er fyrir hendi. Þess vegna ættu menn að temja sér gætið orðalag um það hvað er tapað í slíkum útlánum þótt auðvitað verði að vera fyrir hendi einhver venja sem gerir ráð fyrir afföllum í þessu sambandi. Sú gætni hefur ekki átt upp á pallborðið í túlkun núv. ríkisstjórnar þótt ég sé þar fyrst og fremst að vitna til orða hæstv. forsrh. og reyndar hæstv. fjmrh. Hæstv. viðskrh. hefur ekki tjáð sig með sama hætti í því máli og lít ég þá svo á að hann sýni meiri skilning á þeim vandamálum sem þar eru uppi þó að ég telji að hann hafi fulla ástæðu til að setja ofan í við hæstv. forsrh. og fjmrh. fyrir ógætilegt tal í þessu sambandi.
    Þetta eru að sjálfsögðu mikilvægustu atriðin sem tengjast lántökum einstakra sjóða. Hér eru vissulega aðrir sjóðir eins og Stofnlánadeildin með verulega lántöku, og Útflutningslánasjóður. En það sem skiptir afar miklu máli í II. kaflanum, um ríkisábyrgðir, er væntanleg lántaka Landsvirkjunar upp á allt að 6.650 millj. kr.
    Í þjóðhagsáætlun gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að ráðist verði í byggingu álvers og byggingu virkjana á Austurlandi og framkvæmda á Þjórsársvæðinu, en síðan er tekið fram að verði ekkert úr þessum framkvæmdum þá þurfi að taka þjóðhagsáætlun til endurskoðunar.
    Ég vænti þess að úr þessum framkvæmdum geti orðið. Þær eru mikilvægar íslensku efnahagslífi og ekki veitir af að fá nýtt líf í okkar efnahagslíf á ýmsum sviðum.
    Vinnuveitendasamband Íslands kaus að líta á þetta mál með öðrum hætti og sagði sem svo að það væri réttara að gera ráð fyrir því að þetta yrði ekki, en ef það yrði þá yrði þjóðhagsáætlun tekin til endurskoðunar.
    Það má segja að þetta séu tvær leiðir til að nálgast sama hlutinn. Hæstv. viðskrh. líkaði þessi nálgun þeirra afar illa og las yfir þeim miklar ávítur og skammir fyrir ógætilegan málflutning, að þeir skyldu leyfa sér að draga þetta í efa. En það er nú því miður svo með ýmsa hluti að hvorki hæstv. viðskrh. né aðrir ráðherrar né aðrir menn almennt fá öllu ráðið. Það geta komið upp þær aðstæður að ekki verði ráðið við það sem menn eru að reyna að koma í framkvæmd og þess vegna þurfa menn að gera áætlanir um það hvað gera skuli ef illa fer. Ég sé ekki ástæðu til að hafa uppi einhverjar heitstrengingar við Vinnuveitendasamband Íslands, þó að ég ætli ekki að fara að verja þau samtök sérstaklega, það eru aðrir hæfari til þess, þótt þeir vilji nálgast hlutina með öðrum hætti. En aðalatriðið er að sjálfsögðu það, ef í þessar framkvæmdir verður ráðist af fullum krafti, hvaða áform hæstv. ríkisstjórn hefur uppi um það að skapa nauðsynlegt jafnvægi á peningamarkaði til mótvægis við þá miklu spennu sem kann að hljótast af þessum umfangsmiklu og mikilvægu framkvæmdum. Þetta er ekki mjög skýrt í frv. en ég vænti þess að við fáum jafnframt tækifæri til þess í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar að fjalla nánar um þetta mál.
    Hér eru vissulega ýmis önnur atriði sem ástæða væri til að gera að umræðuefni, en ég hef kosið að ræða það fyrst og fremst í samhengi við jafnvægi á lánsfjármarkaðnum sem ég tel að sé langt í frá að menn séu að ná og því sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því sem þar er að gerast.

    Ég vil í nokkrum orðum, herra forseti, koma að öðru mikilvægu máli sem snertir þetta samhengi allt og það er hluti af fjárlagafrv., þ.e. tekjuhlið fjárlagafrv. Við sem störfum í efh.- og viðskn. fjöllum um það mál og það er okkur mikilvægt að geta átt orðastað við hæstv. fjmrh. um atriði því máli tengd og verður ekki hjá því komist að líta til þeirra í tengslum við lánsfjárlög. Enda má segja að þessi tvö frv., frv. til lánsfjárlaga og frv. til fjárlaga séu svo nátengd að það sé eðlilegt að um þau sé fjallað í einu.
    Í fjárlagafrv. kemur fram að gert er ráð fyrir því að allnokkur hækkun verði á tekjuskatti. Það er hins vegar orðað svo að ekki sé um hækkun tekjuskatts að ræða. Það eru orð sem hæstv. fjmrh. má alls ekki heyra. Hann telur að hér sé ekki um hækkun á tekjuskatti að ræða. Hann hefur notað þau orð að það eigi að breikka skattstofnana. Þetta minnir mig á það að ef á að stækka hús þá sé það aðeins stækkun á húsinu ef byggt er ofan á það, en ef byggt er við hliðina á því þá sé það engin stækkun á húsinu.
    Það má vel vera að hæstv. fjmrh. líti svo á að ekki sé um neina aukningu að ræða. En auðvitað er verið að tala hér um allverulega hækkun á tekjuskatti og menn eiga að hafa manndóm í sér til að ræða málið í því ljósi. En það heitir aukna tekju- og eignatengingu barnabóta, skerðingu á afsláttarliðum o.fl. Í þessu sambandi langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. hvað sé átt við þegar rætt er um aukna tekju- og eignatengingu barnabóta. Eins og ég skil það mun vera ætlunin að hækka tekjuskatt hjá hjónum sem eiga mörg börn, þ.e. að hjá hjónum sem hafa allmiklar tekjur og hafa barnabætur til frádráttar frá tekjuskatti sé ástæða til að skerða barnabætur og þar með að hækka tekjuskatt þessara hjóna.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða hugmyndafræði er þarna að baki? Sjálfsagt mundi hv. þm. Björn Bjarnason fella þetta undir hugmyndafræði framsóknarmennskunnar en hann telur að þaðan sé allt illt sprottið. Ég kannast hins vegar ekki við það. Mér finnst það afar undarleg hugmyndafræði í tekjuskatti að hækka hann sérstaklega hjá hjónum með miklar tekjur sem eiga börn börn en alls ekki hjá hjónum sem eiga engin börn, en mér sýnist að þetta sé ætlun núv. ríkisstjórnar og núv. fjmrh. ( ÓÞÞ: Hún er komin frá Kína, þessi kenning.) Já, það er væntanlega komið þaðan, en ekki ætla ég að fullyrða neitt um það, hv. þm.
    Síðan hefur hefur komið fram að þá sé líka ætlunin að hækka tekjuskatt þeirra aðila sem njóta einhvers konar afsláttar, t.d. vaxtaafsláttar, þ.e. að hjá tekjuháum hjónum með vaxtaafslátt sé ástæða til að skerða hann sérstaklega. Þannig verða þessi mál skilin. Nú er það svo að margir einstaklingar hér í samfélaginu eru að berjast við að vinna fyrir afborgunum af lánum og greiða niður skuldir sínar og auka tekjur sínar til þess. Mér finnst ekki vera sanngirni að draga úr frádrætti þessa fólks og hækka tekjuskattinn sérstaklega á þeim sem eru að berjast fyrir því að koma sér upp húsnæði. Þetta finnst mér afar skrýtin hugmyndafræði og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. fjmrh. hvernig hugmyndin sé að koma þessari tekju- og eignarskattshækkun einstaklinga, sem mér sýnist að eigi að verða um 1 milljarður kr. eftir þeim tölum sem ég sé hér í fjárlagafrv., í framkvæmd, hversu miklu á að ná fram með skerðingu barnabóta, hversu miklu í vaxtabótum, hversu miklu í sjómannaafslætti, vegna þess að hann hefur verið nefndur sérstaklega, að hann eigi að skerða, og jafnframt hefur komið fram að til standi að draga úr afslætti vegna hlutafjárkaupa. Væri fróðlegt að fá nánari sundurliðun á þessu máli.
    Þá er líka í fjárlagafrv. vikið nokkuð að skattastefnunni og þar er talað um að skattlagningu eigna og eignatekna þurfi að samræma. Þar kemur líka fram að ætlunin sé að setja skatt á fjármagnstekjur, en þessum skatti sé alls ekki ætlað að skila meiri tekjum í ríkissjóð. Ég spyr því hæstv. fjmrh. hvort honum finnist ekki meiri sanngirni í því að þessi skattur á fjármagnstekjur skili fremur einhverju í ríkissjóð en sérstakur skattur á barnafjölskyldur með háar tekjur, og kemur mér nokkuð á óvart að slík stefna skuli vera tekin upp, jafnvel þótt Sjálfstfl. eigi í hlut sem hefur nú losnað undan álögum framsóknarmennskunnar eftir áratuga innri baráttu. Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem við höfum fengið þarna þó að maður botni að vísu ekkert í þeim.
    Þá verður jafnframt að spyrja hæstv. fjmrh. um það hvar sú vinna sem var hafin um niðurfellingu aðstöðugjaldsins sé á vegi stödd. Aðstöðugjaldið er versti skattur sem nú er í framkvæmd á Íslandi og það er nú svo merkilegt að um það eru allir flokkar nánast sammála, eftir því sem mér skilst. Það má vera að Sjálfstfl. sé bundinn í þetta gjald og geti ekki losnað undan því og þeirri gömlu hugmyndafræði sem þar liggur að baki. Þessi skattur stendur íslensku atvinnulífi fyrir þrifum. Þessi skattur rýrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs gagnvart atvinnulífi erlendis. Er það sanngjarnt að fólk sem verslar í verslun í Reykjavík þurfi í reynd að borga jafnvel 1,5% í aðstöðugjald, og það megi bæta við skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem í reynd lendir á þessu fólki, en verslunareigandinn í Glasgow þarf að sjálfsögðu ekki að greiða þessa skatta? Auðvitað koma þessi gjöld inn í vöruverð á Íslandi og rýra þar með samkeppnishæfni þessara aðila til að standa sig í samkeppni við verslanirnar í Glasgow og þótt víðar væri leitað. Ég er viss um að hæstv. fjmrh. hefur leitt hugann að þessu máli og ég spyr því: Með hvaða hætti verður unnið að breytingu á aðstöðugjaldinu?
    Mér er fullkomlega ljóst að hér er ekki um einfalt mál að ræða og það er ekki hægt að gera ráð fyrir að þetta gjald falli niður án þess að nokkuð komi þar í staðinn. Hins vegar er það svo að sveitarfélögin á Íslandi og þá sérstaklega stærstu sveitarfélögin á Íslandi, og þegar ég tala um stærstu sveitarfélögin tala ég nú um sveitarfélög upp á nokkur þúsund íbúa --- ( Forsrh.: Eins og Kópavog.) Ég lít t.d. ekki á Kópavog sem lítið sveitarfélag eins og hæstv. forsrh. gerir, en hann hugsar sjálfsagt stærra en við margir hinir hér á Alþingi. ( Fjmrh.: Það er rétt til getið.) Það er rétt til getið, upplýsir hæstv. fjmrh. og efast ég ekki um mikla trú hans á verkstjóra sínum í ríkisstjórninni. En hvað um það. Þessi sveitarfélög hafa fengið mikla tekjuaukningu á undanförnum árum, notað þessa miklu tekjuaukningu til mikillar uppbyggingar sem hefur að sjálfsögðu komið þegnum þessara sveitarfélaga til góða og alls staðar eru verkefnin. Spurningin er hins vegar þessi: Á að taka atvinnulífið fram yfir ýmsar aðrar þarfir eða ekki? Eða á það bara að vera í hátíðarræðunum þegar hæstv. ráðherrar koma og ávarpa samtök atvinnuveganna? Er það aðeins þá sem atvinnulífið á að ganga fyrir í þessum efnum? Mér virðist að svo sé og ég hef ekki séð nokkra tilburði hjá núv. ríkisstjórn til að halda áfram þessu starfi og vinna að því í samvinnu við stjórnarandstöðu og Alþingi. Ef einhver vilji er til þess af þeirra hálfu að eiga við þá aðila samstarf sem við höfum í einlægni miklar efasemdir um væri gott að fá það upplýst. Það læðist að okkur sá grunur að hagsmunir þeirra sem hafa notið þessarar miklu skattheimtu, ósanngjörnu skattheimtu, sérstaklega stærstu sveitarfélaganna í landinu, skuli ganga fyrir hagsmunum atvinnulífsins.
    Auðvitað eru mörg önnur atriði sem eru mikilvæg í skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Ég hef t.d. ekki minnst á þá miklu aukningu sem felst í innheimtu sértekna og þjónustugjalda og væri það allt of langur listi að fara ítarlega út í þau mál. Þar er margt afar óljóst og við höfum ekki fengið miklar upplýsingar þar um. Við heyrum það við umræður í nefndum að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru sumir hverjir litlu nær en við hinir og við lifum þá í þeirri trú að við munum njóta þess að verða upplýstir af hæstv. ríkisstjórn samhliða því að þessir ágætu menn sem starfa í nefndum fá frekari upplýsingar um málið. Við vorum t.d. að ræða um það í morgun á nefndarfundi hvenær við mundum sjá frv. til laga sem á að tryggja Hafrannsóknastofun 525 millj. kr. og á jafnframt að útiloka að sá sjóður, sem komið var upp á sínum tíma, Hagræðingarsjóður, geti hjálpað til við að minnka fiskiskipaflotann sem er mikilvægt viðfangsefni og ekki minna mikilvægt en að ná hallalausum ríkisbúskap. Þó að það sé vissulega mikilvægt þá er ýmislegt annað sem skiptir máli í þessu samfélagi. Það er ekki rétt að láta svo mikilvæg verkefni hverfa bara vegna þess að menn vilja ná jöfnuði í ríkisfjármálum sem ég geri ekki lítið úr. En þar er jafnframt gert ráð fyrir því að lokað sé fyrir þá möguleika að koma litlum byggðarlögum til aðstoðar sem hafa misst sínar veiðiheimildir. Þetta er hluti af sértekjumáli fjárlagafrv. sem ég reikna með að við fáum betri upplýsingar um síðar og ég ætlast í sjálfu sér ekki til að hæstv. fjmrh. upplýsi það nú í neinum smáatriðum.
    Ég ætla, hæstv. forseti, ekki fara út í tekjustefnu fjárlaganna í mjög löngu máli. Ég býst við að menn hefðu tilhneigingu til þess að fella það undir málþóf hér í þinginu eins og allar aðrar ræður. Menn opna vart orðið svo munninn hér á Alþingi að því sé ekki haldið fram af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar að stjórnarandstæðingar séu með málþóf. Það er ekki mín meining, langt í frá. Ég krefst þess hins vegar að við fáum upplýsingar um mikilvæg mál en þær upplýsingar eru af skornum skammti og stefna núv. ríkisstjórnar mjög óljós. Er nú kominn tími til að hún verði þannig upplýst hér á Alþingi að það verði einhver möguleiki á að koma öllum þeim málum fram sem hljóta að tengjast afgreiðslu fjárlaganna. Mörg þessara mála hafa ekki séð dagsins ljós hér á Alþingi. Ég nefni öll tekjufrumvörpin. Þau hafa ekkert sést hér. Hvernig stendur á því að hæstv. ríkisstjórn er ekki búin að koma þessum frumvörpum inn í þingið? Er það vegna þess að stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi og ríkisstjórnin hefur ekki tíma til þess að vinna undirbúninginn? Eina frv. sem er komið fram er frv. um framlengingu skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og við gætum í sjálfu sér margt sagt um það frv., bæði flutt eigin ræður um þau mál hér á Alþingi og sérstaklega lesið upp fyrri ræður hæstv. núv. fjmrh. um það mál sem hann hefði átt að prenta með frv. til hægðarauka. Það hefði komið í veg fyrir frekari umræður um þessar ræður. Vil ég biðja hann að athuga hvort hann geti ekki bætt úr þessu með því að gefa út sérstakt fylgiskjal með frv. þannig að     nýir þingmenn fái upplýsingar um það hvers konar ræður hæstv. núv. fjmrh. flutti um það mál hér á Alþingi þannig að við þurfum ekki að gera það að umræðuefni undir ásökunum um einhverja málþófsþörf. Það er nefnilega þannig með Sjálfstfl. að hvort sem hann hefur verið í álögum framsóknarmennskunnar eða ekki hefur hann þá tilhneigingu að tala sitt á hvað og út og suður. Það er eitt í dag og annað á morgun og út úr því hefur komið afar haldlítil stefna og heldur sundurleit. Og um þann flokk eiga kannski við þau orð sem mátti skilja svo í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins stuttu fyrir kosningar að það væri miklu skynsamlegra að segja sem minnst og vera ekki að setja fram allt of mikið af stefnum en gera þeim mun meira í málinu eftir kosningar og reyna að sannfæra fjöldann um þá stefnu sem mönnum líst best á. Það má vel vera að það sé hugmyndafræði Sjálfstfl. í núv. ríkisstjórn, a.m.k. ber fjárlagafrv. nokkurn vott um það. Framlenging skattsins á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, framlenging skerðingar á gjöldum til kirkjunnar og heldur aumlegir tilburðir til þess að breyta þessu og koma með alls kyns afsakanir í þeim efnum. Það gæti verið að skynsamlegra hefði verið fyrir Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu að halda heldur styttri ræður og innihaldsminni á Alþingi meðan hann var í stjórnarandstöðu. Það hefur komið honum í koll og nú er hann smátt og smátt að éta það allt saman ofan í sig. Við sem erum í núverandi stjórnarandstöðu getum vel skilið að það er sársaukafullt og tekur nokkuð á taugarnar og með því vil ég hafa fulla samúð og skilning.