Lánsfjárlög 1992

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 15:27:00 (703)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir ánægju með að frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992 skuli hafa verið lagt fram á sömu vikum og verið er að fjalla um fjárlagafrv. fyrir það sama ár. Lánsfjárlög hljóta að byggjast á fjárlögum og vera byggð á sömu forsendum og

hafa legið til grundvallar við samningu fjárlagafrv. Þó eru þær forsendur vægast sagt mjög hæpnar og í þessu frv. er gert ráð fyrir að fjmrh. geti ákveðið hvort lántökur fari fram innan lands eða utan. Það frjálsræði getur bæði verið til hagræðis og líka haft slæm áhrif. Til hagræðis er að þá getur ráðherra veitt innlendum lánamarkaði aðhald en sú hætta er líka fyrir hendi að hægt sé að taka erlend lán og dæla þannig peningum inn í hið íslenska hagkerfi. Það hlýtur að skapa þenslu og sú þensla leiðir fyrr en varir til verðbólgu. Við höfum nú búið við stöðugleika í tæp tvö ár og það er ekki æskilegt að ríkissjóður verði til að rjúfa þann stöðugleika með erlendum lántökum.
    Í 7. gr. lánsfjárlagafrv. er sagt með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán að hluta eða öllu leyti í stað þess að veita ríkisábyrgð á lántökur þeirra aðila sem tilgreindir eru í II. kafla og endurlána til þeirra með þeim kjörum og skilmálum sem hann ákveður.``
    Því spyr ég vegna þess að mér finnst það ekki koma nógu skýrt fram í þessu frv.: Er þetta fyrsta skrefið til að afnema ríkisábyrgðir á lán?
    Ef við víkjum svo aftur að forsendum fjárlaga og lánsfjárlaga þá byggjast þær forsendur á því að verðbólga verði 3% á næsta ári. Það er mikil bjartsýni að halda að það markmið náist. Það hefur víst gerst aðeins einu sinni á þessari öld. Á hverju byggist svo þessi spá um að stöðugleikinn haldist? Hún byggist á því að engar launahækkanir verði þó að samningar séu lausir og ekkert vitað á þessu stigi hvernig framvindan verður. Þær tillögur sem komið hafa fram frá ríkinu í samningamálum boða engar lausnir. Frumvarpið byggir á því að vextir fari lækkandi en þó er stefnt að sama halla á næstu fjárlögum og að var stefnt í fjárlögum yfirstandandi árs og sá halli verður helmingi meiri eða 8--9 milljarðar á yfirstandandi ári. Og vextir hafa hækkað á þessu ári. Munu þeir þá ekki halda áfram að hækka samkvæmt þeim markaðslögmálum sem gilda í stjórnarháttum núv. hæstv. ríkisstjórnar? Í athugasemdum við lagafrumvarpið segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Aukin spenna á lánamarkaði leiddi loks til vaxtahækkunar sl. vor. Líklegt er að áhrif þessarar vaxtahækkunar séu ekki að fullu komin fram enn.`` Lánsfjárþörf opinberra aðila hefur aukist. Hún hefur aukist mikið á sl. fimm árum eða úr 4% af landsframleiðslu árið 1986 í 9,7% árið 1991. Lánsfjárþörfin hefur því meira en tvöfaldast á þessu árabili eða úr 15 milljörðum árið 1986 í 36 milljarða 1991. Af þessari aukningu má rekja 2 / 3 hluta til húsnæðiskerfisins. En árið 1992 er áætlað að heildarlántökur opinberra aðila og opinberra lánasjóða verði 47 milljarðar. Af því fer um helmingur í afborganir og aukið lánsfé verður því um 24 milljarðar. Af því verða erlendar lántökur um 9 milljarðar. Það mun svo aftur valda rýrari lausafjárstöðu bankanna vegna vaxandi viðskiptahalla.
    Ég ætla að vitna hér enn einu sinni í frv. þar sem stendur: ,,Áætlað er að kerfisbundinn sparnaður verði um 19 milljarðar króna samanborið við röska 17 milljarða á þessu ári. Gætir þar fyrst og fremst áhrifa tekna af vaxandi eignum lífeyrissjóðanna. Rétt er að undirstrika að skekkjumörk við þessar áætlanir eru veruleg. Því verður að skoða niðustöðurnar með fyrirvara.`` Ég held að það sé full ástæða til að skoða niðurstöður þessa lánsfjárlagafrv. með miklum fyrirvara.
    Virðulegi forseti. Það er vissulega lofsverð viðleitni ríkisstjórnar að reyna að draga úr lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs. En þar sem þær forsendur sem liggja að baki eru bæði veikar og byggðar á óraunhæfu mati á þróun verðlags í landinu tel ég að þetta frv. til lánsfjárlaga sé ekki sérlega traustvekjandi né muni koma til með að standast miðað við útlitið á fjármagnsmarkaðnum á næstu mánuðum.