Lánsfjárlög 1992

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 15:34:00 (704)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Herra forseti. Hv. 1. þm. Austurl. vék í máli sínu nokkrum spurningum og athugasemdum að mér sem ég vil gjarnan svara ef hann kýs að hlýða á mál mitt. En hvað sem því líður vil ég taka það skýrt fram að ég tel að margt af því sem kom fram í máli hv. 1. þm. Austurl. hafi verið vel og skynsamlega athugað. Ég er honum m.a. alveg sammála um það hvert sé verkefni lánsfjárlaga, en það er að stilla svo í hóf lánsfjárútvegun vegna hins opinbera og opinberra sjóða sem kostur er og haga henni þannig að vextir haldist líka við hóf.
    Til þess að ná þessu markmiði er það alveg rétt athugað hjá hv. 1. þm. Austurl. að þar er jafnvægi í ríkisfjármálum mikilvægasta forsendan. Ég vildi lýsa yfir ánægju minni með þann skilning á þessu efni sem kom fram í máli þingmannsins. Ég vildi hins vegar benda á að dæmið sem hann tók af þróun verðlags og vaxta á síðasta fjórðungi þessa árs sýnir náttúrlega fyrst og fremst að verðbólgan hefur hjaðnað mjög ört að undanförnu. Það er spenna á milli vaxtanna og verðlagsins og það þarf að gefa þessu tíma til að jafna sig. Það er einmitt þannig --- og ég veit að þingmaðurinn er mér sammála um það --- að við náum vaxtastiginu fyrst og fremst niður með því að ná tökum á ríkisfjármálunum og með því að ná hér kyrrð í verðlaginu.
    En það er líka annað mjög mikilvægt atriði í þessu máli sem athuga þarf, og kom kannski ekki alveg nógu skýrt fram hjá þingmanninum, og það er að til þess að útvega atvinnuvegunum lánsfé á samkeppnisfærum kjörum, fjármagn á heimsmarkaðsverði, þá þurfum við að opna okkar lánamarkað. Að því máli er nú unnið og síðasta dæmið um það er að sjálfsögðu það sem samþykkt var í mars á síðasta þingi að heimila erlendum lánastofnunum að opna hér útibú sem væntanlega verður fest skýrar í lög á næstu dögum. Þannig og aðeins þannig fáum við samkeppniskjör á fjármagni til okkar atvinnuvega. En það er líka rétt að þar er ákaflega mikilvægt að stilla svo í hóf opinberri eftirspurn eftir lánsfé og útgáfu skuldabréfa til að fjármagna hið opinbera húsnæðislánakerfi sem frekast er kostur.
    Ég vildi þó benda á í sambandi við húsbréfaútgáfuna --- og ég veit að hv. þm. þekkir það mál vel --- að það er ekki alveg rétt að leggja að jöfnu útgáfu húsbréfa og útgáfu spariskírteina ríkissjóðs sem hugsuð væru til þess að standa undir nýjum framkvæmdum. Það er af því að húsbréfin koma að nokkru leyti í stað annarra skuldaviðurkenninga húsbyggjenda eða húskaupenda. Að hluta haldast húsbréfin hjá þeim sem húseignirnar selja og að hluta létta þær á bankakerfinu. Þar kem ég einmitt að því að með nokkrum rökum má halda því fram að útgáfa húsbréfanna hafi létt af viðskiptabönkunum ýmsum skuldbindingum sem þeir áður höfðu og gert þeim þannig hægara um vik að sinna þörfum atvinnuveganna sem eins og réttilega er athugað hjá þingmanninum er þeirra verkefni, mjög mikilvægt verkefni.
    Vegna þess sem þingmaðurinn sagði um það að skilgreina húsbréfin að hálfu sem laust fé gagnvart skuldbindingum viðskiptabankanna um lausafjárkvaðir, er það rétt að þetta var ákveðið af Seðlabankanum í samráði við ríkisstjórnina til þess að vekja viðskipti með húsbréf, koma húsbréfaviðskiptunum á öruggan grundvöll. Mig langar til að minna þingmanninn á að hann tók þátt í því með öðrum að gefa bönkunum og Seðlabankanum þetta hlutverk. Þetta er hins vegar tímabundið ástand og það er alveg rétt athugað hjá hv. 1. þm. Austurl. að þetta er ekki að jöfnu leggjandi við laust fé þegar horft er til langs tíma og tilgangurinn fyrst og fremst sá að koma húsbréfaviðskiptunum á eðlilegan grundvöll. Þetta er reyndar í samræmi við ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar í málinu. Mig langar aðeins til þess að nefna þetta hér því að mér fannst hann tala furðu ókunnuglega um málið.
    Hitt er svo líka að athuga að mér segir hugur um að sá virðulegi landsbankastjóri sem þingmaðurinn vitnaði til --- og er meðal annarra góðra hluta fyrrv. þm. Austurlands --- var ekki að tala um fjármálastefnuna eða peningastefnuna þegar hann talaði um vandræði Landsbankans og bankanna. Ef ég man rétt var hann að tala um fiskveiðistjórnina og

eitthvað sem hann kallaði örbirgðarstefnu í fiskveiðimálum. Ég ætla alls ekki að gera þær skoðanir hans að mínum. En rétt skal vera rétt og ef gagnrýnisbroddur var í ræðu landsbankastjórans beindist hann að þeim sem standa fyrir fiskveiðistefnunni sem við nú framfylgjum og höfum gert um nokkurt skeið. Með þessu er ég alls ekki að taka undir þetta. Ég vildi bara að rétt væri rétt því að þegar hann var að tala um að loka þyrfti hér fyrirtækjum var það af því að menn fengju ekki að fiska nóg sem er náttúrlega mjög vel kunnugt sjónarmið en ekki endilega rétt.
    Mig langaði svo að lokum, virðulegi forseti, að víkja nokkrum orðum að því sem kom fram hjá þingmanninum um þjóðhagsspár og forsendur fjárlaga og framkvæmdir við álver og virkjanir sem því tengjast. Ég tel það alveg óþarfa fyrir hv. 1. þm. Austurl. að taka hér til varna fyrir VSÍ. Reyndar tel ég að hann hafi í raun og veru sett málið fram með allt öðrum hætti en talsmenn vinnuveitenda höfðu gert. Það er auðvitað alveg rétt athugað hjá hv. þm. að þegar ekki er full vissa um einhvern mikilvægan atburð á sviði efnahagsmálanna er annaðhvort hægt að setja upp þjóðhagsáætlun sem byggist á því að hann verði eða verði ekki. Verði hann ekki, verði áætlunin endurskoðuð. Eða hins vegar --- og það taldi þingmaðurinn gætilegra sjónarmið --- að gera ráð fyrir því að þessi atburður verði ekki, en verði hann, þá verði þjóðhagsáætlun tekin til endurskoðunar. Þetta var ákaflega hlutlaust sett fram hjá hv. 1. þm. Austurl. og í raun og veru ekkert við það að athuga annað en að líkurnar eru að áliti þeirra, sem við málið fást og næst því standa, meiri --- og þær miklu meiri --- á því að framkvæmdirnar hefjist og þess vegna eðlilegt að setja áætlunina upp með þeim hætti sem gert hefur verið. Þetta taldi ég fyrir fram frekar líklegt að hv. 1. þm. Austurl. mundi verða mér sammála um. En auðvitað er það alveg rétt hjá honum að það er alltaf hægt að gera því skóna að ástæður geti reynst þær að menn verði að haga sínum málum með öðrum hætti ef aðstæður breytast. En það er ekki alveg víst að þetta sem hann kallaði hið varkára sjónarmið sé skynsamlegt og ekki síst þegar að því kemur að velta því fyrir sér hvort menn ná hér yfirleitt saman um skynsamlega tekjustefnu og efnahagsstefnu á næsta ári. Þá er ég alveg sannfærður um að sjónarmiðin mundu verða líkari hjá mér og hv. 1. þm. Austurl. en milli mín og Vinnuveitendasambands Íslands eins og þeir stilltu málinu upp. Þeir gerðu það alls ekki með þeim hætti sem þingmaðurinn gerði, enda varla á því von.
    Að endingu, virðulegi forseti, um þau tvö stórmikilvægu mál á sviði tekjumálefna ríkissjóðs sem þingmaðurinn nefndi vildi ég taka fram að ég tel það mjög mikilvægt verkefni að aðstöðugjaldið verði lagt niður og önnur gjaldtaka í þess stað sem skynsamlegri reynist verði tekin upp. Það er meðal allra brýnustu viðfangsefna á sviði skattamála að koma þessu í framkvæmd. Eins er með hitt að samræma skattmeðferð eigna og eignatekna og láta það ekki dragast. Það tel ég líka vera mjög mikilvægt verkefni, eins og reyndar kemur fram í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar: Velferð á varanlegum grunni.