Lánsfjárlög 1992

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 16:08:00 (706)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ekki vil ég verða valdur að því að tafir verði á því að koma þessu máli til nefndar en það sem gerir það að verkum að ég sé mig knúinn til að taka til máls í þessari umræðu er afar athyglisverð yfirlýsing hæstv. viðskrh. í ræðu hans áðan og er þess eðlis að ég held að við verðum að staldra við og skoða hvað hún þýðir. Það væri mjög æskilegt, virðulegi forseti, ef viðskrh. er hér í húsinu, að fá hann hingað. ( Forseti: Það er verið að sækja hæstv. ráðherra.)
    Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi að fara örfáum orðum um þá umræðu sem fram hefur farið um aðstöðugjald. Mér fannst gæta nokkurs misskilnings hjá hæstv. fjmrh. þegar hann taldi að aðalástæðan fyrir því að menn hefðu agnúast út í þennan skatt væri sú að hann hafi flutt fjármagn frá landsbyggðinni, eða eigum við að segja öðrum sveitarfélögum til Reykjavíkur. Það er ekki aðalástæðan. Það er hins vegar staðreynd að svona er þetta. Í nýlegum gögnum kemur fram að yfir 50% af innheimtum aðstöðugjöldum renna til Reykjavíkurborgar. En þetta er alls ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er það að þetta er mjög ósanngjarn skattur gagnvart atvinnulífinu og hann vegur það þungt að hann getur í sumum tilfellum skilið á milli hvort fyrirtæki lifa eða deyja. Ég held líka að menn verði að skoða mjög rækilega þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra reifaði hér áðan að þeir skattar sem kæmu í staðinn yrðu að vera frá atvinnulífinu því að ef svo væri án nokkurra annarra reglna mundi þessi skattheimta halda áfram að færa peninga til höfuðborgarinnar þar sem er rekinn mikill fjöldi fyrirtækja sem þjónar öllu landinu þannig að eftir sem áður yrði sá annmarki á.
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að víkja aftur að upphafi míns máls þar sem ég sagði að kveikjan að því að ég tek hér til máls er afar athyglisverð yfirlýsing viðskrh. áðan þegar hann sagði að við fengjum aldrei fjármagn á eðlilegum kjörum fyrr en við opnuðum fjármagnsmarkað okkar og fyrstu skrefin hafi verið stigin á síðasta ári með því að leyfa stofnun útibúa erlendra banka hér á landi og að því verði unnið áfram. Undir þetta get ég tekið. Hitt er alvarlegra mál að sé þessi yfirlýsing viðskrh. rétt hafa á síðustu sex árum verið færðir til meiri fjármunir í íslensku atvinnulífi heldur en nokkurn tíma fyrr á fölskum forsendum því að allt var þetta gert í nafni þess að það skyldi vera hinn frjálsi markaður sem réði vöxtunum. Og nú stendur hæstv. viðskrh. upp og segir okkur það að við höfum búið hér við fákeppnismarkað sem hafi ekki verið fær um að sjá til þess að fjármagn til atvinnulífsins fengist á eðlilegum kjörum, eins og hann orðaði það áðan. Miðað við þær upphæðir sem hafa færst frá atvinnulífinu til fjármagnseigenda á þessu tímabili eru þeir 9 milljarðar sem hefur verið skuldbreytt í Atvinnutryggingar- og Hlutafjársjóði smápeningar. Ef það vaxtastig sem nú er í landinu helst er um það að ræða að miðað við skuldsetningu atvinnulífsins séum við að færa frá því 12 milljarða á ársgrundvelli. Ég veit að þetta er ýkt framsetning, en kannski þarf stundum, hæstv. viðskrh., að setja hlutina þannig fram til að þeir skiljist.
    Ég ætla hér, með leyfi forseta, að vitna í dæmi sem mér var sýnt fyrir örfáum dögum og er af fjármagnsmarkaði okkar hér á Íslandi í dag. Þar er um að ræða 18 mánaða skuldabréf upp á 1.400 þús. sem var tekið síðast í ágúst með mánaðarlegum afborgunum, þeirri fyrstu núna fyrstu daga í nóvember. Fyrsta afborgunin var 120 þúsund. Þar af voru 77 þús. afborgunin. 1 / 18 af höfuðstólnum, 43 þús. voru vextir af 1.400 þús. í tvo mánuði. Þetta eru rúmlega 20% vextir og þar er ekkert um að ræða neina 15,8% raunvexti. Þar er um að ræða rúmlega 20% raunvexti því að þetta er í at vinnugrein sem hefur búið við nánast óbreytt afurðaverð sl. tvö ár þannig að þar hefur engu verið hægt að velta út í verðlagið.
    Virðulegi forseti. Þetta eru þær staðreyndir sem við búum við í vaxtamálum í dag. Ég hef löngum haldið því fram að innlendi fjármagnsmarkaðurinn sé mjög vanburða og engan veginn fær um að sinna þörfum atvinnulífsins og lánsfjármarkaðarins óstuddur á þessum síðustu árum. Og mér þykir vænt um það að hæstv. viðskrh. hefur stigið í ræðustól hér á hinu háa Alþingi og staðfest þessa skoðun mína.
    Ég vil benda á eitt í þessu sambandi og það styður væntanlega líka það sem hæstv. viðskrh. sagði. Ég ætla að vitna til vaxta eins og þeir eru erlendis meðan raunvextir hér eru að nálgast 20%. Raunvextir í Bandaríkjunum eru 3,5% og hafa þó Bandaríkjamenn búið viðvarandi fjárlagahalla. Ég kann ekki að greina hvort hann hefur frá tíma til tíma verið meiri eða minni en hér á landi. Sérstakur sérfræðingur í þeim málum hér í þingsal er hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson þannig að ég bið hann að leiðrétta mig í þessu ef ég fer með rangt mál hvað það snertir. En ég ætla líka að vitna til þess að samkvæmt skýrslu Seðlabankans eru millibankavextir í London núna 5%. Og það eru þeir erlendu vextir sem menn hafa mjög oft viljað vitna til.
    Ég ætla líka að nefna annað máli mínu til stuðnings og varðandi það að við búum hér við mjög ófullkominn fjármagnsmarkað. Ég spurði fulltrúa Seðlabankans að því á fundi efh.- og viðskn. hver væri eðlilegur vaxtamunur á ríkisvíxlum og sambærilegum pappírum á almennum markaði. Svörin voru nokkuð misvísandi en þó skildi ég þann sérfræðing þannig að það væri eðlilegt að þar væri í það minnsta þriggja prósentustiga munur.
    Hefur innlendi lánsfjármarkaðurinn sýnt þau merki að þessar viðurkenndu hagstærðir, þar sem um er að ræða eðlilegan og fullburða frjálsan peningamarkað, hafi endurspeglast hér? Nei, langt í frá. Ef svo hefði verið, þá hefði ekki þurft að grípa til þeirra handaflsaðgerða sem notaðar voru af hæstv. ríkisstjórn til þess að þrýsta upp vöxtum á fyrstu mánuðum síns starfsferils.
    Virðulegi forseti. Ber þetta ekki allt að sama brunni? Ber þetta ekki að þeim brunni að þrátt fyrir það að ég býst við að hér sé mikill meiri hluti á Alþingi sammála því að vextirnir eigi að mótast á frjálsum markaði eins og önnur viðskipti í okkar landi, ber þetta ekki að þeim brunni að við hefðum þurft að fara miklu varlegar þegar verið var að losa þessi tök? Við hefðum þá kannski komist hjá einhverju af þeim óskapa hremmingum sem hafa fylgt þeim fjármagnsflutningum frá atvinnulífi og ekki síður einstaklingum til fjármagnseigenda á síðustu árum.
    Ég ætla að vitna hér í ummæli tveggja bankastjóra, fyrst til bankastjóra Íslandsbanka sem voru viðhöfð í útvarpi fyrir tæplega hálfum mánuði síðan. Ég býst reyndar við að hæstv. viðskrh. hafi verið erlendis þá þannig að ég er kannski að segja honum tíðindi sem hann hefur ekki heyrt áður. Þar greinir þessi talsmaður Íslandsbanka frá því að bankinn hafi tapað á fyrstu átta mánuðum ársins 400 millj. Hann sagði líka: Við gerum okkur vonir um það og sjáum fram á það að við munum geta unnið þetta tap upp á síðustu fjórum mánuðum ársins. Ég er ansi hræddur um það að forsvarsmenn ýmissa þeirra fyrirtækja sem nú berjast í bökkum --- og hæstv. viðskrh. sagði á fundi iðnþings fyrir tæpum hálfum mánuði, að aðstoð við þá væri að henda peningum í vandamál --- hefði þótt ágætt að geta verið í þeirri stöðu að hækka bara sitt afurðaverð á síðustu mánuðum til þess að ná endum saman. En þannig ganga hlutirnir ekkert fyrir sig þar sem frjáls markaður ræður og, hæstv. viðskrh., er þetta ekki ein staðfestingin enn á því að á íslenskum fjármagnsmarkaði ríkir ekki frjáls samkeppni?
    Ég vitna til ummæla bankastjóra Landsbankans Sverris Hermannssonar þar sem hann bendir á að nú sé svo komið í stærsta banka þjóðarinnar að hann treystir sér ekki lengur til þess að lána til fyrirtækja í frumatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum. Hann bendir líka

á að þeir séu búnir að leggja í afskriftasjóð 3 1 / 2 milljarð. Þessi niðurstaða hans hlýtur að þýða það að hann treysti því ekki að þessi 3 1 / 2 milljarður nægi til þess að mæta afföllum vegna lána til frumatvinnuveganna. Hverjir borga svo þessi afföll? Þau borgum við sem höfum verið að borga þessa okurvexti síðustu árin og leggjum þannig í þessa afskriftasjóði atvinnulífsins.
    Það læðist reyndar líka að mér sá grunur að í þessum aðvörunarorðum bankastjóra Landsbankans felist að hann óttist það mjög ef sú stefna núv. ríkisstjórnar að láta gjaldþrotin hreinsa til í atvinnulífinu verði látin ganga fram fylgi henni meiri umbrot en banki hans þolir.