Lánsfjárlög 1992

20. fundur
Miðvikudaginn 06. nóvember 1991, kl. 17:00:00 (708)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Eins og menn hafa e.t.v. tekið eftir hefur enginn talað af hálfu Alþb. í þessari umræðu. Ástæðan var einfaldlega sú að við töldum í sjálfu sér ekki þörf á því að koma inn í hana m.a. vegna þess að hv. þm. Halldór Ásgrímsson gerði ágæta grein í sinni ræðu fyrir flestum þeim sjónarmiðum sem við töldum eðlilegt að setja fram við umræðuna. Af því að það er nú sungið innan þings og utan, var m.a. gert fyrr í dag, að stjórnarandstaðan væri eitthvað sérstaklega að tefja fyrir málum, þá vona ég að menn taki eftir því að við höfum ekki fram að þessu verið að taka einhvern sérstakan tíma í þessari umræðu, heldur þvert á móti reynt að haga þannig framgöngu okkar í umræðunni að greitt væri fyrir málinu. Hins vegar gerðu svarræður hæstv. viðskrh. og hæstv. fjmrh., sérstaklega hæstv. fjmrh., það nauðsynlegt að segja nokkur orð vegna þess að hæstv. fjmrh. hélt áfram þeirri siðvenju, sem forsrh. er einkum frægur fyrir en ráðherrar Sjálfstfl. virðast hafa gert að venju, að nota öll tilefni til að ráðast á síðustu ríkisstjórn og setja fram fullyrðingar um verk hennar, efnahagsstefnu og annað sem ógerlegt er að sitja undir í þingsalnum án þess að víkja að nokkrum orðum.
    Þar eð hæstv. viðskrh. tekur þátt í umræðunni, og ber að fagna því vegna þess að hann hefur verið mikið fjarverandi síðustu fjórar vikur og lítt sést í þingsalnum, er eiginlega óhjákvæmilegt að nota þetta fyrsta tækifæri sem okkur talsmönnum Alþb. gefst til þess að spyrja hæstv. viðskrh. í mikilli alvöru hvort hann sé sammála þeim dómum sem fram hafa komið hjá hæstv. forsrh. og reyndar einnig hjá hæstv. fjmrh. um þá sjóði í þágu atvinnulífsins sem við sameiginlega stóðum að að koma á fót haustið 1988. Síðan þing hófst höfum við setið undir sífelldum dómum hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. um þessi verk okkar. Ég tala ekki um það sem sagt hefur verið utan þings. Ég sagði það fyrr í vetur að ég hefði í sumar lítt svarað þessum ásökunum. En mig langar óneitanlega til þess að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé sammála þessum dómum. Ég spyr vegna þess að þegar við komum að viðræðuborðinu um myndun nýrrar ríkisstjórnar í september 1988 var lagt í hendur okkar nánast fullbúið frv. um slíka skuldaskilasjóði. Það var alveg ljóst að meginhöfundur þess frv. var núv. hæstv. viðskrh. sem var reyndar sá af hálfu Alþfl. sem í

stjórnarmyndunarviðræðunum annaðist mótun þessara tillagna. Auk þess að vera meginhöfundur þeirra gagna, tillagna og frumvarpsdraga sem við fengum í hendur stýrði hann verkum mjög myndarlega í þeirri undirnefnd sem væntanlegir stjórnarflokkar settu á laggirnar og við mátum þá vinnu mjög mikils og tókum heils hugar þátt í þeim verkum.
    Ég er þeirrar skoðunar að þau hafi verið mjög gagnleg og skynsamleg. Ástæðan fyrir því að Alþb. tók þátt í þessum verkum var m.a. sú að þær hugmyndir og tillögur sem þar lágu fyrir í frumvarpsdrögum voru mjög í svipuðum dúr og við höfðum sett fram í ágústmánuði 1988. Ég er ekki að vekja máls á þessu og leggja þessa spurningu fyrir hæstv. viðskrh. til að koma einhverju sem einhverjir kynnu að kalla sök yfir á hann. Þvert á móti. Ég er mjög stoltur af þessum verkum. En mig langar til að vita hvort núv. hæstv. ráðherrar Alþfl., sérstaklega hæstv. viðskrh., ætli lengi að hafa geð í sér til að láta forsrh. kalla þessi verk okkar sukk og svínarí, svo maður nefni nú bara tvö orð sem hann hefur notað í þingsölum um þessi verk.
    Um leið og ég óska eftir því að viðskrh., ekkert endilega í löngu máli, hann má gjarnan gera það í einni, tveimur setningum, lýsi afstöðu sinni til þessara sameiginlegu verka okkar vil ég spyrja að því í tilefni ummæla hæstv. sjútvrh. utan þings síðustu daga, hvort ætlunin sé að breyta núv. fjárlagafrv. fyrir árið 1992 og því lánsfjárlagafrv. fyrir árið 1992 sem hér er til umræðu á þann veg að hægt sé að fresta afborgunum af lánum í Atvinnutryggingarsjóð um tvö ár. Hæstv. sjútvrh. var áðan í þingsölum og er e.t.v. enn í húsinu og væri mjög gagnlegt að eftir því væri leitað að hann kæmi í umræðuna, því þessi yfirlýsing hæstv. sjútvrh. er satt að segja eitt af því merkara sem sagt hefur verið síðustu daga af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar ef ekki það eina sem fram hefur komið alveg nákvæmlega um einhvers konar tillögur í efnahagsmálum.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. hvort þeir eru sammála þeirri skoðun sjútvrh. að þetta verði gert og hvaða breytingar á núv. frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 og núverandi lánsfjárlagafrv. fyrir árið 1992 ríkistjórnin hyggst gera til þess að framkvæma þessa aðgerð.
    Hæstv. fjmrh. óskaði eftir því fyrr í umræðunni að greitt væri fyrir því að koma málinu til nefndar svo afgreiðsla þess gæti tengst vinnu við fjárlög fyrir næsta ár. Ég hef allan skilning á þeirri nauðsyn, en þá er líka óhjákvæmilegt að þingið viti hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í málum sem verða mæld, ekki bara í tugum milljóna og ekki hundruðum milljóna, heldur kannski í 1.000--2.000 millj. í fjárlagagerðinni og lánsfjárlagagerðinni fyrir næsta ár.
    Ég vil einnig víkja nokkrum orðum að þeim þungu orðum sem hæstv. fjmrh. lét falla í garð fráfarandi ríkisstjórnar varðandi vexti og ríkisfjármál. Hann sagði m.a. að síðasta ríkisstjórn hefði ekki haft skilning á samspili vaxta og sparifjár. Það voru hans óbreyttu orð. Að síðasta ríkisstjórn hafi ekki haft skilning á samspili vaxta og sparifjár. Hver var banka-, vaxta- og sparifjármálaráðherra í fyrri ríkisstjórn? Það vill svo til að það er sá sami maður og fer með þá málaflokka í núv. ríkisstjórn. Hafði hann ekki skilning á þessu samspili? Jú, auðvitað hafði hann skilning á því samspili. Hvað eiga svona sleggjudómar og orðaleppar að þýða? ( EgJ: Hann fékk ekki að ráða.) Jú, hann fékk að ráða mjög miklu, hv. þm. Egill Jónsson. Hann fékk að ráða mjög miklu. Og við stóðum oft saman, ég og núv. hæstv. viðskrh., í sameiginlegum aðgerðum fjmrn. og viðskrn. á þessu sviði. Við gengum hins vegar út frá þeirri grunnkenningu sem hæstv. viðskrh. lýsti alveg réttilega hér fyrr í umræðunum að íslenski peningamarkaðurinn væri fákeppnismarkaður. Við það miðuðust allar okkar aðgerðir og þess vegna skiluðu þær árangri, af því að greiningin var rétt, frumforsendan var rétt, skilningurinn var réttur á eðli íslenska peningamarkaðarins. En Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu á þeim tíma hélt fram þeirri kenningu að íslenski peningamarkaðurinn væri frjáls, opinn og fullkominn samkeppnismarkaður og þess vegna væri hægt að beita og ætti að beita hér á landi aðferðum sem fyrst og fremst eru sniðnar að nánast fullkomnum samkeppnismarkaði í peningamálum.
    Og það er sú kenning, sem er röng, sem leiddi til þess að núv. hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. beittu sér fyrir því strax í fyrstu starfsviku núv. ríkisstjórnar að raunvaxtastigið á ríkispappírunum var hækkað um þriðjung og þar með gefin réttlæting fyrir röskri þriðjungs raunvaxtahækkun í peningakerfinu öllu. En af því að greiningin var röng, kenningin var vitlaus hefur niðurstaðan líka orðið á allt annan veg en þessir ráðherrar ætluðu og það var þeim sagt, m.a. af mér í þessum ræðustól í maí. Í maí sögðu þeir sjálfum sér til réttlætingar að síðla sumars og í haust mundu raunvextirnir falla. Hefur það gerst? Nei, það hefur ekki gerst. Það kemur okkur ekki á óvart, hvorki mér né hæstv. viðskrh. Ég veit að það kemur honum ekki á óvart vegna þess að ég tók auðvitað eftir því að hann hafði engin slík orð hér í maí að slíkt mundi gerast. En ráðherrar Sjálfstfl., fjmrh. og forsrh., endurtóku þessa villukenningu hvað eftir annað.
    Þessi villukenning hefur reynst atvinnulífinu dýr. Hún hefur reynst efnahagsástandinu á Íslandi dýr og það er auðvitað eitt af því sem liggur á bak við yfirlýsingar landsbankastjórans hér á síðustu dögum að hann er að bregðast við þeim veruleika sem m.a. hefur skapast af þessu.
    Það er þess vegna nauðsynlegt að ítreka það hér og spyrja: Fær hæstv. viðskrh. að móta stefnu ríkisstjórnarinnar á þann veg að tekið sé mið af því að peningamarkaðurinn á Íslandi sé fákeppnismarkaður eða ríkir falskenning Sjálfstfl. áfram? Ríkir hún í fjmrn.? Ríkir hún í forsrn.? ( Gripið fram í: Í Byggðastofnun.) Nei, hún ríkir nú ekki í Byggðastofnun, það er eitt sem víst er.
    Ég vil einnig víkja að því sem hér hefur verið sagt um aðstöðugjaldið. Hvers vegna vil ég gera það? Jú, vegna þess að ég hef verið þeirrar skoðunar í rúmt ár að ein af forsendum þess að hægt væri að ná stöðugleika, lágri verðbólgu, friði á vinnumarkaði og efnahagslegu jafnvægi á árinu 1992 væri það að fyrir árslok 1991 yrði aðstöðugjaldið afnumið. Það væri einn af lykilþáttunum í því að ná hér áframhaldandi stöðugleika og jafnvægi í efnahagsmálum að menn þyrðu að taka á þessu aðstöðugjaldsmáli, menn þyrðu með öðrum orðum að færa til nokkra milljarða sem með röngu hafa fallið stærstu sveitarfélögunum í skaut í krafti þessa rangláta tekjuöflunarkerfis sveitarfélaganna. Ég var líka þeirrar skoðunar vegna þess að til að hægt væri að draga atvinnulífið að kjarasamningaborði og ná þar jákvæðri niðurstöðu í sumar er leið væri nauðsynlegt að skapa atvinnufyrirtækjunum aukið svigrúm með því að létta þessu vitlausa gjaldi, aðstöðugjaldinu, af atvinnulífinu. Því væri afnám aðstöðugjaldsins ekki bara spurning um hvort menn vildu leggja af vitlausan skatt heldur væri það einn af lyklunum til þess að geta haldið áfram skynsamlegri efnahagsstefnu á árinu 1992.
    Um þetta voru allir flokkar í síðustu ríkisstjórn sammála. Alþfl. var þessu sammála, Framsfl. var þessu sammála, Alþb. var þessu sammála. Það er því ljóst að það er þingmeirihluti hér á Alþingi fyrir því að afnema aðstöðugjaldið. ( Gripið fram í: Það á að gera það.) Já, það er nefnilega alveg rétt. Það á að gera það, hv. þm. En hvers vegna er það ekki gert? Það er vegna þess að Sjálfstfl. hefur tekið sér neitunarvald í þessu máli. Mikið hefur verið rætt um það að menn eigi að fá að njóta þingstyrksins hér. Það er alveg ljóst að Sjálfstfl. sem minnihlutaflokkur á Alþingi er að nýta oddastöðu sína í ríkisstjórn til þess að koma í veg fyrir að þingmeirihluti um afnám aðstöðugjaldsins nái fram að ganga. Þar með er Sjálfstfl. að leggja stein í götu næstu kjarasamninga, leggja stein í götu áframhaldandi stöðugleika og lágrar verðbólgu vegna þess að þetta er einn af lyklunum. Og ef menn afneita þessum lykli, þá spyr ég: Hvaða aðra lykla hafa menn? Ég er tilbúinn að ræða það ef bent er á hvaða aðra lykla menn hafa. En það hefur ekki verið gert, enda stefnir núna allt í hörð átök og öngþveiti á vinnumarkaði í stað þess að ef rétt hefði verið haldið á málum, þá hefði verið hægt að ljúka kjarasamningum í sumar og koma til móts við atvinnulífið í þeim efnum með því að afnema aðstöðugjaldið.
    Mér þykir það mjög leitt að greinilegt er að Sjálfstfl. hefur í fjmrn. og annars staðar í ríkisstjórninni, kannski í gegnum forsrn. og afstöðu fyrrv. borgarstjóra og núv. borgarfulltrúa í Reykjavík, Davíðs Oddssonar, komið í veg fyrir það að sá mikli kraftur sem við vorum búin að setja í þessa vinnu þegar við vorum í ríkisstjórn hefur að mestu leyti verið látinn renna í hægagangi þannig að nú er talað um þetta með almennum orðum, alls konar athugunum og kemur ekki til umfjöllunar fyrr en kannski í fyrsta lagi á næsta ári. Ég vil segja við virðulegan fjmrh.: Þetta var rangt að stíga á bremsurnar varðandi afnám aðstöðugjalds.
    Það er auðvitað athyglisvert að sú mikla vinna sem ég beitti mér fyrir í fjmrn. til að færa skattlagningu atvinnulífsins til nútímahorfs --- og þar vorum við hæstv. viðskrh. sammála og hv. 1. þm. Austurl. og unnum saman að því máli --- hefur líka verið sett í mikinn hægagang þannig að þau veigamiklu skref sem við ætluðum að stíga á þessu ári, á þessu haustþingi í þeim efnum verða ekki stigin.
    Það þýðir óskaplega lítið að koma hér og tala um vegabréf inn í 21. öldina og nútímavinnubrögð í efnahagsmálum ef menn stíga á bremsurnar varðandi þær nauðsynlegu aðgerðir að færa skattlagningu atvinnulífsins á Íslandi til nútímahorfs. Atvinnulífið á Íslandi hefur ekki efni á því miðað við núverandi aðstæður að bíða í mörg ár eftir að því starfi sem við hófum í fjmrn. verði haldið áfram. Við lögðum mikla vinnu á síðasta vetrarþingi í að breyta lögum og taka upp tryggingagjaldið. Það var mikil vinna, menn kvörtuðu undan því að það væri gert með miklum hraði, en það var gert, því var komið í kring, því var komið í höfn og það er enginn sem kvartar sérstaklega undan því í dag. En nú allt í einu er stigið á bremsurnar.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh.: Hvaða skref verða stigin nú fyrir áramót til þess að færa skattlagningu atvinnulífsins til nútímahorfs? Og ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Er hann ekki reiðubúinn í samvinnu við okkur hér innan þings, sem myndum meiri hluta til afnáms aðstöðugjalds, að gera það að veruleika? Eða ætlar hann að líða Sjáflstfl. lengi að hafa stöðvunarvald í þeim efnum?
    Ég vil einnig segja fáein orð um tvö, þrjú önnur atriði. Þær hugmyndir sem fjmrh. kynnti hér um að sú stefna yrði tekin upp í skattlagningu sveitarfélaga að skattar á atvinnulífið rynnu til sveitarfélaga held ég að séu mjög ranglega hugsaðar og ég bið hæstv. fjmrh. að ræða það rækilega við forustumenn sveitarfélaga allt í kringum landið og forustumenn atvinnulífsins áður en hann heldur lengra áfram á þeirri braut. Ég er alveg sannfærður um það eftir þær viðræður sem ég átti við forustumenn atvinnulífsins og forustumenn sveitarfélaganna að þeir eru ósammála slíkri stefnu með gildum rökum. Meginrökin eru þau að það muni óhjákvæmilega leiða til mismununar í skattlagningu atvinnufyrirtækja, m.a. vegna þeirrar nálægðar sem er milli sveitarstjórnarmanna og forsvarsmanna atvinnulífsins í hverju byggðarlagi, og hins vegar telji sveitarfélögin miklu eðlilegra og öruggara að sveitarfélögin njóti tekna af tekjum manna í fyrsta lagi, fasteignum í öðru lagi og í þriðja lagi hugsanlega bifreiðaumferð hjá skráðum bifreiðum í sveitarfélögunum frekar en að fara að tengja tekjur sveitarfélaganna alfarið við sveiflurnar í atvinnulífinu. Ég vona að þetta hafi bara verið hugdettur hjá virðulegum fjmrh. og vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort þetta sé stefna sem hafi verið afgreidd af hálfu Alþfl. þannig að hér sé um einhver sameiginleg viðhorf að ræða.
    Ég vil einnig víkja örfáum orðum að því sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson vék

einnig að, að skattur verður lagður á fjármagnstekjur, og ég fagna því --- og það er gaman að lesa mörgu ræðurnar sem Sjálfstfl. flutti á móti þeirri hugmynd hér á síðasta kjörtímabili, en ég ætla nú ekkert að vera að stríða ráðherrum Sjálfstfl. á því. Það er eins og annað, þeir segja eitt í stjórnarandstöðu og annað í ríkisstjórn, reyna að stofna til fjöldafunda gegn fjármálaráðherra sem vill leggja skatta á fjármagnstekjur en koma svo hér og telja það eðlilegt. Látum það vera. Það ber að fagna því. Þeir hafa loksins séð að sér og átta sig á því að Ísland getur ekki verið eina landið á öllum Vesturlöndum þar sem slík skattlagning er ekki. --- En hitt finnst mér fullkomlega fráleitt að fara að nota skatta á fjármagnstekjur til að lækka hér aðra eignarskatta og skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ef menn vilja lækka eignarskatta og skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, þá gera menn það. En að fara að taka tekjuskattsbreytingar, sem skattlagningin á fjármagnstekjunum er, það er breyting á tekjuskattslögunum, og fara að rugla því saman við strúktúrinn og kerfið í eignarskattinum í landinu er fullkomlega út í hött og ræðst eingöngu af einhverju pólitísku öngstræti sem Sjáflstfl. er í eða einhverjum kreddum. Þar er sú stefna sem Alþfl. boðaði með okkur hinum á síðustu árum, að nota skattlagningu á fjármagnstekjur til þess að breyta tekjuskattinum að öðru leyti, t.d. að hækka skattleysismörkin eða taka upp jöfnunaraðgerðir af ýmsu tagi eins og húsaleigubætur og fleira sem núv. félmrh. hefur t.d. boðað, miklu skynsamlegri stefna.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. viðskrh. eða formann þingflokks Alþfl., sem hér er mættur í salinn, hvort Alþfl. skrifar upp á þessa stefnu að á móti skattlagningu fjármagnstekna eigi að lækka eignarskattana og fella niður skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði í stað þess að gera þær jöfnunaraðgerðir í tekjuskattinum, sem ég hélt að Alþfl. væri sammála okkur hinum um að ætti að gera.
    Hér hefur einnig nokkuð verið vikið að þeim forsendum sem eru gefnar í fjárlagafrv. og í fjárlögunum varðandi álverið. Ég ætla ekki að segja mörg orð um það. En ég var auðvitað í sömu sporum og núv. hæstv. fjmrh. fyrir rúmu ári síðan að á mér stóðu ýmsar óskir um að reikna með nýju álveri inni í fjárlagafrv. fyrir árið 1991 og reikna einnig með fullum gangi þess máls inni í lánsfjárlögum fyrir árið 1991. Ég tók þá afstöðu að segja þá: Þau mál eru í slíkri óvissu að við getum ekki leyft okkur að reikna með þeim. Ef það hins vegar gerist að samningar takast, þá er það jákvætt og menn geta þá bætt þeim jákvæða þætti við.
    Nú er hins vegar farin önnur braut. Nú er lagt fram fjárlagafrv. þar sem reiknað er með þessu þótt óvissan nú sé síst minni en í fyrra. Ég vil segja við hæstv. fjmrh.: Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð, að gefa sér þessa forsendu í fjárlagafrv. eingöngu til að ná inn hærri upphæðum á tekjuhliðina. Ég veit að það er ástæðan. Hallinn er nægilega mikill á fjárlagafrv. Ef aftur á móti takast samningar um álver, þá minnkar það hallann í reynd og það er gott. En að gefa sér það fyrir fram og sitja svo kannski uppi með það segjum í janúar eða febrúar að forstjórar álfyrirtækjanna komi og segi t.d.: Nú ætlum við að fresta þessu um eitt ár. Það er svo mikil óvissa á erlendum peningamörkuðum, við fáum ekki bankana til að fjármagna þessa byggingu og við ætlum að fresta þessu um eitt ár --- þá er þingið nýbúið að samþykkja fjárlagafrv. sem er byggt á þessari forsendu og fjmrh. verður að koma hér með frv. inn í þingið, í febrúar væntanlega, því ég reikna með að hann vilji vera ábyrgur fjmrh. og taka allt dæmið upp.
    Ég held þess vegna að það sé miklu skynsamlegra í forsendum fjárlaganna að reikna með því að veruleikinn verði á næsta ári eins og í ár hvað þetta snertir. Það stóðu einhverjar vonir til þess að þetta yrði ákveðið í mars á þessu ári. Það gerðist ekki. Og mér finnst satt að segja vaxandi líkur á því að það gerist heldur ekki fyrir mars á næsta ári. En ef það gerist hins vegar, þá getur fjmrh. fagnað vissum ávinningi í sinn hlut og það eru

skynsamlegri vinnubrögð.
    Ég vil þess vegna mælast til þess bæði við þá nefnd sem þetta frv. fær til umfjöllunar og eins hv. fjárln. að menn hafi sama hátt á í þessum efnum varðandi fjárlagagerðina sjálfa og reyndist vel á yfirstandandi ári. Þar voru menn varkárir og sú varkárni var réttlætanleg. Hæstv. viðskrh. sagði hér í ræðu sinni: Ekki er víst að varkárnissjónarmiðin séu skynsamleg en þau reyndust skynsamleg í fyrra, virðulegi viðskrh. Það er nú reynslan að skynsemissjónarmiðin hjá fjmrh. í fyrra voru raunhæfari en bjartsýnissjónarmiðin hjá hæstv. viðskrh.
    Virðulegi forseti. Þetta eru nokkur atriði sem ég vildi víkja að í tilefni af þeim ræðum sem hæstv. fjmrh. sérstaklega en einnig hæstv. viðskrh. fluttu hér. Ég vil svo að lokum segja að það er vissulega virðingarvert hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að lesa vandlega hina hvítu bók, sem ég kýs nú að kalla hina hvítu mús, til að reyna að finna einhverja skynsemi í öllu því orðaflóði, en ég get fullvissað hann um það að hann er líklegast eini þingmaðurinn hér á Alþingi sem leggur þetta á sig því ég hef ekki hitt neinn, hvorki í stjórnarliðinu né stjórnarandstöðunni, sem tekur þannig mark á þessari bók að hann leggi það á sig að reyna að finna eitthvert vit í þeim texta.
    Að lokum þetta, virðulegi forseti. Forsvarsmenn Vinnuveitendasambands Íslands og forsvarsmenn samtaka launafólks hafa sagt hér á síðustu vikum að forsendan fyrir því að hægt sé að gera nýja kjarasamninga sem festa stöðugleikann í sessi sé allt önnur stefna en felst í fjárlagafrv. og þessu lánsfjárlagafrv. því að sérfræðingar þessara samtaka allir saman hafa kveðið upp þann dóm yfir fjárlagafrv. og yfir þessu frv. að það sé engin von til þess að þau markmið í vaxtamálum eða í peningamálum náist sem nauðsynleg eru vegna næstu kjarasamninga ef þessi frumvörp fara í gegnum þingið í grófum dráttum í þeirri mynd sem þau eru nú. Þess vegna er það auðvitað dálítið barnalegt hjá hæstv. fjmrh. að óska eftir því við þingið að það hraði afgreiðslu sinni á þessum frumvörpum vegna þess að ef þingið ætlar að koma til móts við þau sjónarmið sem ríkja hjá aðilum vinnumarkaðarins og stuðla fyrir sitt leyti að efnahagslegum stöðugleika, þá er alveg ljóst að verður á næstu vikum að taka fjárlagafrv. meira og minna upp og taka þetta lánsfjárlagafrv. meira og minna upp og það væri nauðsynlegt, virðulegi forseti, að við fengjum tíma, t.d. í næstu viku að viðstöddum hæstv. forsrh., til að ræða þau stóru mál við ríkisstjórnina.