Iðnráðgjöf á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 10:35:00 (709)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
     Virðulegur forseti. Á þskj. 28 hef ég ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds leyft mér að bera fram fsp. til iðnrh. um iðnráðgjöf á landsbyggðinni. Fsp. er svohljóðandi:
    ,,Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin tryggja fjármagn til áframhaldandi starfsemi iðnráðgjafa í kjördæmum landsins?``
    Bakgrunnur þessa máls er sá að á sl. vori var lögum um Byggðastofnun breytt og sett lög um það að Byggðastofnun geti átt aðild að atvinnuþróunarfélögum á landsbygginni. Í 4. gr. þessara laga, frá 15. mars 1991, segir:
    ,,Í hverju kjördæmi skal starfa a.m.k. einn atvinnuráðgjafi. Hlutverk hans er að stunda almenna atvinnuráðgjöf á starfssvæði sínu. Komið skal á nánu samstarfi við aðra aðila sem vinna að ráðgjafar- og leiðbeiningarstarfi í kjördæminu. Byggðastofnun tekur þátt í kostnaði við starfsemi atvinnuráðgjafa.``
    Í grg. með lagafrv. var tekið fram svohljóðandi um 4. gr. í skýringum: ,,Byggðastofnun er og ætlað að taka við hlutverki iðnrn. vegna iðnráðgjafa og greiða hluta af kostnaði við starfsemi a.m.k. eins þeirra í hverju kjördæmi.``
    Í framhaldi af þessu var 24. okt. 1991 sent bréf frá Byggðastofnun til atvinnuráðgjafa sem fjallar um þetta mál, undirritað af Sigurði Guðmundssyni. Þar segir m.a. um þetta efni: ,,Í grófum dráttum hefur stofnunin hugsað sér að þetta verði gert með tvennum hætti [þ.e. framkvæmd laganna]. Annars vegar með því að styrkja með rekstrarframlögum starfsemi atvinnuráðgjafa og atvinnuþróunarfélaga. Hins vegar með því að taka þátt í kostnaði við ýmiss konar verkefni á vegum þessara aðila eða annarra þeirra sem við atvinnuþróun á landsbyggðinni starfa. Þá mun stofnunin væntanlega sjálf standa fyrir einhverjum verkefnum á landsvísu eins og hún hefur gert í takmörkuðum mæli á undanförnum árum. Að sjálfsögðu mun það endanlega fara eftir vilja fjárveitingavaldsins hversu miklu fé stofnunin getur varið til atvinnuþróunarstarfs á landsbyggðinni.``
    Samkvæmt fjárlagafrv. er framlag til Byggðastofnunar lækkað um ekki minna en 50 millj. kr. og í þessu erindi eru auðvitað engin fyrirheit heldur fyrirvarar frá Byggðastofnun um það hversu miklu fjármagni hún geti veitt til þessa verkefnis. Lög um iðnráðgjafa voru felld úr gildi með samþykkt á breytingum á lögum um Byggðastofnun. Þannig eru þessi mál í óvissu að því er virðist.
    Ég og hv. þm. Ragnar Arnalds spyrjum því hæstv. iðnrh. hvað ríkisstjórnin hyggist gera til þess að tryggja fjármagn til áframhaldandi starfsemi iðnráðgjafa í kjördæmum landsins.