Iðnráðgjöf á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 10:50:00 (716)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Það kemur fram í þessum umræðum þakkarverður áhugi á þeirri breytingu á starfsemi Byggðastofnunar sem ákveðin var með lögunum í vor og sem áhersla er lögð á í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. En þar segir að stofnuninni verði ætlað sérstaklega að gera tillögur um hvernig laða megi að landsbyggðinni innlenda jafnt sem erlenda fjárfestingaraðila sem þar gætu valið fyrirtækjum sínum stað. Þetta er sú stefnubreyting sem felst í því að gefa Byggðastofnun það jákvæða hlutverk að hafa atvinnuráðgjöf í landshlutum á sínum vegum.
    Ég þakka ábendingu hv. 2. þm. Vestf. um að það sé réttara að tala um starfsemina á Ísafirði og Akureyri sem samþætta rekstri Byggðastofnunar í heild. Auðvitað er það réttara því að þessi starfsemi á að fara fram út um land, á landsvísu eins og hv. þm. orðaði það. Það voru vissulega orð í tíma töluð.
    Ég vildi hins vegar vegna þeirra orða sem féllu hjá hv. 4. þm. Austurl. og hv. 3. þm. Norðurl. v. og reyndar hv. 6. þm. Norðurl. e., þess efnis að ekki væri ætlað fé til þessarar starfsemi, leiðrétta þann misskilning sem ég tel að komi fram í þeirra orðum. Það á að beina fé og fjármagni Byggðastofnunar í meira mæli til ráðgjafarþjónustu af því tagi sem atvinnuráðgjöfin felur í sér og það verður gert innan þess fjárhagsramma sem þingið setur. En að sjálfsögðu er það ekki lengur iðnrn. að gera tillögur um fé til starfseminnar þegar iðnrh. hefur sjálfur gert um það tillögur að það sé eðlilegra og á það hefur verið fallist af öllum þingflokkum, reyndar að ég tel með vissum fyrirvörum frá hv. 4. þm. Austurl., að það sé rétt stefna. Þess vegna hlýtur sá forgangur að vera viðurkenndum í fjárveitingum en það er ekki þar með sagt að það feli í sér viðbót við það fé sem stofnunin hefur til ráðstöfunar.
    Vegna þess sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., þá get ég gjarnan endurtekið það að ég tel að Byggðastofnun eigi í meira mæli að beina sínum kröftum að jákvæðu uppbyggingarstarfi en ekki í það að leysa gjaldþrotavanda. Dæmin sem hv. þm. tók voru einmitt dæmi um ný fyrirtæki, Foldu og Ístex, sem voru reist á rústum gjaldþrota fyrirtækis. Ég tel að það hafi verið rétt ráðstöfun af stjórn Byggðastofnunar að taka þátt í því endurreisnarstarfi.