Málefni flugfélaga á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:10:00 (722)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég tel að hæstv. samgrh. hafi með svari sínu áðan sagt að ef flugfélög munu ekki fljúga með tvo flugmenn til afskekktustu byggða á Íslandi verði flug þangað lagt af. Þetta gildir t.d. með Árneshrepp á Ströndum. Það er nú nokkuð síðan að Lindberg flaug einn yfir Atlantshafið og nokkur tækniþróun hefur orðið síðan. Auðvitað eru menn mislífhræddir, ég geri mér grein fyrir því, og kannski ætti að innleiða það að allir næðu prestsfundi áður en þeir færu upp í flugvél. Þetta hefur þó ekki verið gert. Hins vegar finnst mér að það sé út í hött að ætla að setja svona reglur og fylgja þeim eftir við íslenskar aðstæður eins og menn eru hér að gera. Og mig undrar það ef menn eru svo forstokkaðir af tölvuútskriftum að þeir sleppi því að hugsa sjálfstætt þegar þeir taka svona ákvarðanir.