Menntunar- og starfsréttindi lögreglumanna

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:32:00 (732)

     Fyrirspyrjandi (Björn Bjarnason) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svör hans. Þau eru fullnægjandi að mínu mati. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem fram komu í máli hans að framkvæmd laganna sé að komast í fastar skorður og vona að framkvæmdinni verði hagað þannig að Landssamband lögreglumanna og aðrir sem hlut eiga að máli séu að fullu sáttir við það.
    Ég tók einnig eftir því að ráðherrann sagði að lögin væru ekki afturvirk gagnvart þeim sem voru við störf þegar þau tóku gildi. Ég tel að sú regla sé sanngjörn og það eigi að virða starfsreynslu manna sem voru við störf þegar lögin tóku gildi og þau geti ekki verið afturvirk að þessu leyti.
    Varðandi Lögregluskólann þá er það rétt hjá ráðherranum að að sjálfsögðu þarf að huga að fjármunum til hans, en það sem ég vakti athygli á var að hann er nýlega fluttur í nýtt leiguhúsnæði að Nóatúni 21 og það kemur í ljós að þar er aðstaða ekki eins og skyldi til þess að taka við auknum fjölda manna í skólann. Ég veit ekki hvort það kostar mikla fjármuni fyrir ráðuneytið að huga að breytingum að þessu leyti, en vil aðeins vekja athygli á þessu.
    Ég ítreka það sem ég sagði að ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör og tel þau fullnægjandi frá mínum bæjardyrum séð.