Fræðsla í skyndihjáp í grunnskólum

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:34:00 (733)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
     Virðulegi forseti. Fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 58 um kennslu og þjálfun í skyndihjálp í grunnskólum landsins er svohljóðandi: ,,Hvernig er háttað kennslu og þjálfun í skyndihjálp í grunnskólum landsins?``
    Í aðalnámsskrá grunnskóla er skýrt kveðið á um að allir nemendur grunnskóla eigi samkvæmt grunnskólalögum að njóta kennslu og þjálfunar í skyndihjálp og hefur Rauði kross Íslands forustu um kennsluna. Ég hef ástæðu til að ætla að þessi kennsla sé ekki alls staðar fyrir hendi og því er þeirri spurningu beint til hæstv. menntmrh. hvort ekki sé tímabært að skerpa enn frekar á þessu mikilvæga námi. Nám þetta þarf að vera markvisst frá upphafi og meginþungi kennslunnar þarf að fara fram í 9.--10. bekk, en þá hafa nemendur öðlast þann þroska að nýta sér kennsluna.
    Skyndihjálparkennsla beinist að því hvernig koma megi í veg fyrir slys og efla heilbrigðisvitund. Þetta er því liður í mikilvægu forvarnarstarfi um leið og kennd eru viðbrögð við bráðum veikindum og slysum.
    Á árunum 1982--1986 var gerð könnun sem leiddi í ljós mikilvægi þess að hinn almenni borgari kynni eitthvað fyrir sér í skyndihjálp. Athuguð voru t.d. afdrif allra þeirra sem fengu hjartastopp í Reykjavík á umræddu tímabili. Í ljós kom að 29% þeirra er fengu fyrstu hjálp frá vegfarendum og öðrum nærstöddum áður en sjúkrabíll kom útskrifuðust af

sjúkrahúsi en sjaldgæfara var að fólk lifði af ef engin hjálp fékkst fyrr en sjúkrabíll mætti á staðinn. Það getur því skipt sköpum að almenningur kunni fyrstu viðbrögð þegar komið er á slysstað. Það er oft of seint að kíkja í vasabókina þegar t.d. viðstaddur sér mann meðvitundarlausan á botni sundlaugar. Ef engin kunnátta er fyrir hendi fer dýrmætur tími til spillis.
    Virðulegi forseti. Með þessari fsp. er athygli hv. þm. beint frá slysum í stjórnmálum, sem gerast daglega, að slysum á mönnum sem möguleiki er á að draga úr með hertu forvarnarstarfi og með meiri þjálfun og kennslu í viðbrögðum á slysstað.