Fræðsla í skyndihjáp í grunnskólum

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:36:00 (734)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvernig háttað sé kennslu og þjálfun í skyndihjálp í grunnskólum landsins og svar mitt er svohljóðandi:
    Í grunnskólalögum er ekki kveðið sérstaklega á um kennslu í skyndihjálp. Í 48. gr. laganna segir m.a. að í öllu starfi skólans skuli leggja áherslu á að stuðla að líkamlegri og andlegri velferð, heilbrigðum lífsháttum og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi. Nánari útfærslu á ákvæðum laga um nám og kennslu er að finna í aðalnámsskrá grunnskóla sem gefin var út endurskoðuð í apríl 1989. Þar er sérstakur kafli helgaður skyndihjálp og getið meginmarkmiða og helstu viðfangsefna. Samkvæmt aðalnámsskránni eru meginmarkmið náms og kennslu í skyndihjálp þessi:
    Að nemendur fræðist um slys og hvernig koma megi í veg fyrir þau.
    Að nemendur fái aukið sjálfstraust og áræði við að veita slösuðum fyrstu hjálp.
    Að nemendur efli heilbrigðisvitund sína.
    Að nemendur auki félags-, tilfinninga- og siðgæðisþroska sinn.
    Mest áhersla er lögð á að koma í veg fyrir slys, hvernig tilkynna skal um slys og kalla á hjálp og hvernig veita skal fyrstu hjálp.
    Skyndihjálp er ekki sérstök námsgrein í grunnskólum enda verður að fjalla um þetta efni eftir aldri og þroska nemenda. Kennsla í skyndihjálp er hluti af starfi íþróttakennara og þeir fá þjálfun í skyndihjálparkennslu í námi sínu. Aðrir kennarar þurfa að afla sér sérstakra réttinda hjá Rauða krossinum til að kenna meðferð slasaðra.
    Algengast er að almennir kennarar fjalli um hvernig koma skal í veg fyrir slys og hvernig kalla skuli á hjálp ef slys verður í tengslum við ýmsar námsgreinar. Meðferð slasaðra er gjarnan kennd á sérstökum námskeiðum í efstu bekkjum grunnskóla og mega eingöngu þeir sem hafa til þess leyfi Rauða krossins annast þá kennslu.
    Ég vona að þetta svar sýni að sæmilega sé séð fyrir þessu mikilvæga leiðbeiningarstarfi, en spurningu hv. þm. um hvort ekki sé ástæða til að skerpa á þessari kennslu svara ég svo að það megi sjálfsagt alltaf betur gera en gert er, en mér er ekki kunnugt um annað en að sæmilega sé séð fyrir þessu leiðbeiningarstarfi.