Loðnuveiðar

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:43:00 (737)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda hefur fyrri lið fsp. verið svarað í verki. Um annan liðinn er það að segja að þar kemur fram sú fullyrðing að veiðar séu látnar tefjast ár eftir ár. Þetta er staðleysa að mínu mati. Síðan sumarveiðar hófust á loðnu 1975 hefur ýmist verið heimilt að hefja loðnuveiðar 15. júlí eða 16. ágúst, nema 1982 og 1983 þegar stöðva varð loðnuveiðar vegna hruns stofnsins. Fram til sumarsins 1989 var loðnuveiði mikil yfir sumarmánuðina enda þótt þær drægjust heldur saman á árinu 1987 og 1988 vegna aukinnar rækjuveiði loðnubáta yfir sumar- og haustveiðar. Þó urðu þær yfir 300 þús. lestir bæði þessi ár.
    Sumarið 1989 var heimilt að hefja loðnuveiðar í júli en fyrsta skip fór til loðnuveiða í byrjun ágúst. Loðnuveiði þetta sumar gekk mjög illa og veiddust aðeins 53 þús. lestir til áramóta. Ekki var það vegna aðgerða stjórnvalda heldur fannst lítil loðna og aðstæður voru mjög erfiðar og breyttar frá því sem áður þekktist.
    Sumarið 1990 máttu veiðar hefjast þegar í júlí en íslensku skipin hófu veiðar í októbermánuði.
    Bæði árin 1989 og 1990 kappkostuðu stjórnvöld að leita að loðnu og var leit og rannsókn á loðnustofninum stóraukin.
    Í sumar var staðan aftur á móti sú að ekki var hægt að ákveða kvóta til bráðabirgða þar sem mælingar á loðnustofninum höfðu brugðist og var ákvörðun um veiðimagn frestað uns fyrir lægju nýjar mælingar. Þessar mælingar lágu fyrir í lok október og var þá bátum hleypt til veiða. Þrátt fyrir þetta hafa fáir bátar enn þá hafið veiðarnar en það er samkvæmt ákvörðun útgerðarmanna þeirra.
    Sé litið til þess sem að framan er rakið er vafasamt að tala um þjóðhagslegan ávinning af því að leyfa loðnuveiðar fyrr, en þó má hafa eftirfarandi atriði í huga:

    1. Samkvæmt meðaltali, unnu af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins um fituinnihald í loðnu til nokkurra ára, verður fituinnihaldið 16% um miðjan september, hækkar síðan í rúm 17% um miðjan október, er rúmlega 16% í byrjun nóvember en fer síðan lækkandi og er orðið um 14% um áramót. Eftir áramótin fellur fituinnihaldið síðan mikið, eða um 2% á mánuði til vertíðarloka. Framleiðsla lýsis er undir fitumagni komið og því fæst mest lýsi þegar fituinnihaldið er mest.
    2. Þurrefni sem eru undirstaða mjölframleiðslu eru aftur á móti að mestu óbreytt frá upphafi vertíðar til loka, eða rúmlega 17%.
    3. Rétt er að hafa í huga að verð á mjöli og lýsi er mjög sveiflukennt, en þó ber að athuga að mjölverð hefur verið mun hærra en lýsisverð síðan 1986. Auk þess fæst mun meira magn af mjöli en lýsi úr heildarveiðinni.
    4. Rétt er að hafa í huga að kostnaður við að veiða loðnu er mjög mismunandi og ljóst er að hann er að jafnaði minnstur í mánuðunum janúar--mars. Koma þar til bæði veiðanleiki loðnunnar og fjarlægðir milli veiðisvæða og löndunarstaða. Veiðar undanfarin tvö sumur hafa verið mjög dýrar fyrir skipin og litlu skilað fyrir verksmiðjur. Það er ekki hagkvæmt að setja í gang loðnubræðslu og bíða síðan með fullmannaðar verksmiðjur eftir loðnu sem veiðist ekki.
    Loks má ekki gleyma að sum árin getur frysting loðnu og loðnuhrogna skapað góðar tekjur í lok vertíðar.