Innheimta opinberra gjalda

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:52:00 (740)

     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til fjmrh. á þskj. 79 er um hvort fjmrh. hyggist grípa til sérstakra aðgerða til að bæta skattskil og innheimtu opinberra gjalda, og ef svo er til hvaða aðgerða?
    Eru uppi áform um að bæta framtalsskil einstaklinga og lögaðila í ljósi upplýsinga sem fram komu á þskj. 962 á 113. löggjafarþingi um að á tíunda þúsund einstaklinga og yfir 30% lögaðila skiluðu ekki framtali á tilskildum tíma á sl. ári?
    Virðulegi forseti. Árið 1986 var lögð fram á Alþingi svokölluð skattsvikaskýrsla og vakti hún mikla athygli. Í skýrslunni var að finna tillögur til úrbóta í skattamálum og tillögur í nokkrum liðum um eflingu skatteftirlits. Í fyrrasumar birtist í Morgunblaðinu mikil grein um svokallað neðanjarðarhagkerfi og var umfjöllunin tengd skýrslu skattsvikanefndarinnar. Í umfjölluninni var staðhæft að velta neðanjarðarhagkerfisins á árinu 1990 væri um 20 milljarðar kr. eða um 6% vergrar landsframleiðslu og hefði vaxið úr tæpum 5 milljörðum frá 1986. Talið var að tekjutap ríkisins næmi um 4 milljörðum kr. í formi glataðra skatta á árinu 1990. Hvort sem þessar tölur eru réttar eður ei eru margir þeirrar skoðunar að of litlu fé og mannafla sé varið til skatteftirlits og skattrannsókna hér á landi.
    Tillögunum sem skattsvikanefndin setti fram fyrir fimm árum hefur ekki verið hrint í framkvæmd þótt skilja megi að þær hafi þótt nauðsynlegar og um þær verið nokkur sátt. Komið hefur fram að innheimta neysluskatta hafi batnað til muna með tilkomu virðisaukaskatts og fækkun undanþágna. Eins gerði fyrrv. fjmrh. góða gangskör varðandi skattskil fyrirtækja. Hins vegar er talað um svimandi upphæðir í töpum sem fyrirtæki hérlendis eru sögð eiga sem þau geta notað þannig að skattgreiðslur verða litlar sem engar jafnvel á næstu árum.
    Á sl. vetri bar ég fram fyrirspurn varðandi skattframtöl og í skriflegu svari undir lok þings komu fram athyglisverðar upplýsingar, m.a. að frá 25% og upp í 30% lögaðila fengu áætlaða skatta á sl. fjórum árum og þar af 2860 aðilar árið 1990. Þegar skoðað er í svarinu hve stór hópur einstaklinga fær áætlaðan skatt kemur í ljós að þeir eru á tíunda þúsund og að 5000 þeirra gera ekkert í málinu. Liðlega 800 manns hafa látið áætla á sig í fjögur ár samtals um 2000 manns í þrjú ár samtals og upp undir 5000 manns í tvö ár samtals. Því er haldið fram í ákveðnum hópum að það borgi sig að telja ekki fram til skatts þó að mati skattstjóra sé talið afar ósennilegt að gjaldendur hafi af því fjárhagslegan ávinning. Ég spyr: Hyggst hæstv. fjmrh. grípa til aðgerða varðandi þessi mál?