Innheimta opinberra gjalda

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 12:02:00 (742)

     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir greinargóð svör. Ég er sérstaklega ánægð að heyra um þær aðgerðir sem eru í gangi og tel að það verði til mikilla bóta að útbúin verði slík handbók sem hann nefndi hér. Það kemur mér ekki á óvart að heyra að það er enn þá svipuð staða uppi, það er um helmingur sem skilar ekki skattframtali eftir kærufrest. En ég bind nokkrar vonir við þessar upplýsingar um undirbúning að breyttu fyrirkomulagi varðandi skattskýrslur einstaklinga því þó skattskýrslan hafi einhvern tíma haft það hlutverk fyrst og fremst að mæla tekjur til skatts, þá gegnir hún miklu víðtækara hlutverki í dag þar sem samkvæmt skattskýrslu eru mældar tekjur fólks til þess að leggja mat á upphæð ýmissa endurgreiðslna. Skattskýrslan er orðin mikilvægur þáttur varðandi hvers konar tekjutengingu greiðslna hvað varðar Lánasjóð ísl. námsmanna, endurgreiðslur, vaxtabætur vegna húsnæðiskaupa, lífeyrisgreiðslur vegna tekjutryggingar og lengi mætti telja.
    Það hefur líka komið í ljós, og ég þekki dæmi um það, að þar sem metin er greiðslugeta fólks vegna húsnæðiskaupa þá er það orðinn hvati til þess að hafa skattskýrsluna í lagi. En það er fyrst og fremst mikilvægt að sporna við skattsvikum og auka skattskil. Það er réttlætismál gagnvart öllum þeim sem allt sitt líf greiða sinn skerf til samneyslunnar og það er ákveðinn hópur launafólks sem greiðir alltaf skattana. Fólk sem skilar ekki sínu skattframtali --- skattframtalið fer þá að verða siðferðis- eða reikningspróf þar sem allar upplýsingar um launamann eru til annars staðar í opinberum gögnum ef það eru þeir eingöngu sem skila skattframtali en ekki aðrir því að þegar birt eru í dagblöðum hæstu opinber gjöld eftir álagningu hverju sinni vekur það athygli að þeir eru gjarnan lægstir í hverjum hátekjuhópi sem fá áætlaða skatta.
    Það er ekki gengið sérstaklega eftir því hjá gjaldendum eins og kom fram í máli ráðherra að framtali sé skilað, enda ekki gert ráð fyrir slíkum eftirrekstri í lögum og það er það sem ég tel mjög mikilvægt. Það ber vott um aðhaldsleysi að fylgja því ekki eftir að skattskýrslu sé skilað og það væri alger háðung gagnvart öllum þeim sem sitja sveittir yfir skattskýrslunni sinni í ársbyrjun ef þeir sem láta hana lönd og leið hafa af því fjárhagslegan ávinning.