Framhaldsdeildir við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 12:20:00 (749)

     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Hann sagði hér áðan að ekki hefði borist formleg umsókn frá Blönduósi um framhaldsdeild þar. Ég vil upplýsa ráðherrann um það að í fjárlagatillögum Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki fyrir árið 1991, sem sendar voru frá Sauðárkróki 18. apríl 1990, kemur fram bein ósk um það að Fjölbrautaskólinn standi að framhaldsdeild í Húnaþingi. Þannig má segja að sú beiðni kemur fram frá skólanum þegar á árinu 1990. Það er augljóst mál að ekki er lengur raunhæft að tala um þetta nám á þessu hausti þar sem þessu var synjað og ekki er um neinar fjárveitingar í fjárlögum 1991 að ræða en við skulum vona að málið verði tekið til nánari skoðunar við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1992 og ég vænti þess fastlega að það megi skilja orð hæstv. ráðherra á þann veg að hann sé því vinveittur og vilji athuga það mál nánar.
    Ég þakka svo ráðherranum fyrir svör hans og bið hann að athuga málið betur. Það hafa komið upp ágreiningsefni milli heimamanna og ráðuneytisins um kostnaðarhlutdeild sem, eins og ég sagði hér áðan, koma heimamönnum mjög spánskt fyrir sjónir. Menn telja að það sé ekki í neinu samræmi við lög um framhaldsskóla sem þar hefur verið sett fram og ég vil eindregið óska eftir því við ráðherrann að hann kanni það mál frekar og verði vinsamlegur og hjálpi til að tryggja að þetta nám verði sett á stofn á næsta ári í samræmi við afgreiðslu fjárlaga sem vonandi verður jákvæð.