Samráðsfundir forseta og formanna þingflokka

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 13:02:00 (756)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti vill í tilefni þeirra umræðna sem fram fóru hér í gær um þingsköp og snerust um samráð forseta og þingflokksformanna skv. 1. mgr. 72. gr. þingskapa taka fram eftirfarandi: Forseti telur að þessir samráðsfundir, sem hafa verið hefðbundnir hér í þinginu þótt þetta samráð hafi ekki verið lögfest fyrr en í nýjum þingsköpum, hafi verið mjög gagnlegir og ánægjulegt samstarf hafi tekist á þessu þingi milli forseta og þingflokksformanna um skipulagningu þingstarfa. Við höfum á þessum fundum farið yfir drög að dagskrám næstu fundardaga og reynt að ná samkomulagi um málsmeðferð. Það hefur yfirleitt tekist og þingstörfin gengið samkvæmt því. Hins vegar hefur stundum farið svo að mál hafa skipast með öðrum hætti en að var stefnt en við því er lítið að segja og forseti vill ekki sakast við neinn um það, allra síst formenn þingflokka. Forseti ber fullt traust til þeirra og hefur ekki reynt þá að öðru en drengskap.
    Við erum nú að hefja störf á Alþingi samkvæmt nýjum þingsköpum sem á margan hátt eru frábrugðin þeim sem við höfðum áður. Það er varla von til þess að allt fari árekstralaust af stað. Við þingmenn þurfum auðvitað tíma til þess að átta okkur á nýjum vinnubrögðum og forseti vonar að sátt geti tekist um þingstörfin.
    Þetta vildi forseti taka fram vegna þeirra umræðna sem fram fóru í gær og ítrekar þá ósk sína og von að geta áfram átt gott samstarf við þingflokksformenn og þingheim allan eftirleiðis sem hingað til.