Lánsfjárlög 1992

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 13:07:00 (759)

     Guðni Ágústsson :
     Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að vekja athygli á því að þrátt fyrir örstuttan stans hæstv. viðskrh. í þinghúsinu í gær, þá er hann ekki hér á ráðherrabekkjum nú og þetta mál er mjög erfitt að ræða í fjarveru hæstv. viðskrh. ( Forseti: Hæstv. viðskrh. er væntanlegur hér að því er forseti best veit eftir 5 mínútur. Hann þurfti að sinna öðrum störfum viðkomandi sínu embætti í hádeginu og forseti veit ekki annað en hann verði kominn hér korter yfir eitt og vil þá biðja hv. þm. um að hefja sína ræðu ef hann telur sér það fært og í þeirri trú að hæstv. viðskrh. verði kominn á meðan sú ræða stendur yfir.)
Ég þakka hæstv. forseta upplýsingar og vænti þess að það megi standa að viðskrh. verði hér innan stundar í húsinu.
    Hér hafa farið fram málefnalegar umræður um frv. til lánsfjárlaga. Mig langar að koma að nokkrum atriðum sem minnst var á í ræðum manna í gær, ekki síst um vaxta- og peningamál. Menn höfðu á orði í gær að andrúmsloftið í húsinu hefði breyst eftir þau átök sem þá áttu sér stað, eftir að menn höfðu gagnrýnt hin röngu og ósanngjörnu skrif hv. 3. þm. Reykv. sem hann hefur nú beðist afsökunar á og forseti komið með yfirlýsingar um. Það kann að vera að fleira valdi þeirri sátt sem er að takast um störf þingsins í bili. Hæstv. forsrh. hefur ekki verið í húsinu í dag eða gær. Kann það að vera einhver skýring, ekki síst vegna ummæla hans og ég vil segja hatursfullra ádeilna á fyrrv. ríkisstjórn og marga stjórnmálamenn hér á Alþingi á síðustu vikum og mánuðum. Er það gerbreyttur tón svo að ekki er að undra þó að hér hafi verið og muni verða á næstu vikum mjög hörð átök því að ummæli forsrh. um fortíðina, sem hann sífellt tönnlast á, hafa gefið það til kynna. Þau hafa ekki bara snúið að okkur stjórnarandstæðingum. Þau hafa snúist af meiri heift en fyrr að mörgum félögum forsrh.
    Ég ætla í upphaf máls míns að minna á þau ummæli forsrh. að margir stjórnmálamenn hafi haft tilhneigingu til þess þegar þeir hafa komið að því að úthluta fé almennings að gera það jafnvel með ólögmætum hætti. Þessi ummæli forsrh. eru náttúrlega fyrir neðan allar hellur og eru auðvitað að stórum hluta völd að þeim óróa sem hér hefur verið í þinginu, og sem þegar er að verða í þjóðfélaginu. Þessi ummæli beinast ekki eingöngu að stjórnarandstæðingum því að þau hafa fallið af meiri heift en þekkst hefur að samherjum forsrh. Ég hygg að hv. þm. Matthías Bjarnason eigi margar andvökunætur. Hans andvökur stafa ekki af fortíðinni. Hans andvökur stafa af ótta við framtíðina, ótta við þau nýju viðhorf sem hafa fylgt nýjum mönnum inn í forustu í flokki hans í ummælum sem hér hafa fallið á þingi. Ég er sannfærður um að þessir menn eiga fáa kosti aðra en að stefna forsrh. fyrir þessi ummæli. Og það er kannski athyglisvert að í ríkisstjórninni sjálfri

sitja ýmsir þeir sem þarna liggja undir sök.
    Hæstv. samgrh. Halldór Blöndal er einn af þeim sem þarna eiga þunga sök, ef rétt er, sem fyrrv. stjórnarmaður í Byggðastofnun. Ég hygg að hæstv. menntmrh. liggi einnig undir sök og þurfi að verja hendur sínar. Ég hygg að það þurfi fleiri að gera, hv. þm. Pálmi Jónsson, hv. þm. Egill Jónsson o.s.frv. þannig að það er ekkert að undra þó að hér ríki á hinu háa Alþingi alvarlegri deilur en fyrr á milli þingmanna innan flokka og ekki síður á milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar slík ummæli hafa fallið sem hér hefur verið lýst.
    En hver var hún þessi fortíð sem forsrh. er alltaf að sakast við? Hann virðist ekki sjá til sólar og snýr jafnvel öfugt á þjóðarskútunni, maðurinn sem á að standa í stafni, takast á við storma og stýra fari heilu til hafnar. Hver er þessi fortíð sem hann svo hart deilir á?
    Ég gerði það mér til gamans að fletta upp skjölum til fróðleiks. Ég gæti t.d. verið með dánarvottorð eða grafskrift um verk fyrri ríkisstjórnar sem mér finnst skylt að lesa upp. Hér kom til landsins á haustmánuðum 1990, eftir að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði tekist á af krafti við landsmálin í tvö ár, sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess að taka út íslenska efnahagslífið. Hver var fortíðarvandinn sem þessi sendinefnd benti á? Var hér allt í kaldakoli eða höfðu menn tekist á við stjórnmál og efnahagsmál Íslendinga af meiri krafti en fyrr? Með leyfi forseta ætla ég að grípa örfáar setningar úr áliti þessarar alþjóðlegu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 21. nóv. 1990, en þar segir:
    ,,Grundvallarþættir íslensks efnahagslífs hafa tekið stórstígum framförum á síðustu árum. Stjórnun ríkisfjármála og peningamála hefur batnað til muna, verðbólga hefur verið lækkuð í þriðjung þess sem hún var fyrir 1--2 árum og hagkerfi kemur út úr samdráttarskeiði betur í stakk búið til þess að mæta tímum hagvaxtar. Þessar breytingar hafa gerst samtímis efnahagslegum erfiðleikum en það er einmitt á slíkum tímum sem Íslendingar hafa reynst úrræðagóðir og vandanum vaxnir.``
    Síðan fjallar sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins enn frekar um málin og segir: ,,Ef litið er á ríkisfjármál og peningamál er augljóst að mestur árangur hefur náðst í lækkun verðbólgu og er þetta afleiðing ábyrgrar stefnu í launamálum, festu í gengismálum og frekari styrkingar opinberra fjármála.
    Í öðru lagi hefur verið náð verulegum árangri í því að styrkja stöðu ríkisfjármála sem kemur fram í því að halli á ríkissjóði hefur minnkað á skeiði samdráttar í efnahagslífinu.
    Í þriðja lagi hefur átt sér stað markverð breyting í fjármögnun á halla ríkissjóðs þar sem árinu 1990 er snúið frá fyrirgreiðslu í Seðlabanka og erlendri lántöku og í stað þess byggt á sölu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði. Og samkvæmt áætlunum verður þessu fram haldið á árinu 1991.
    Í fjórða lagi, til viðbótar þessum síðasta lið, gefur ný löggjöf um Seðlabankann skýrari vísbendingar um skyldur hans og takmarkar aðgang ríkissjóðs að fyrirgreiðslu hans, en árum saman var þetta atriði einn akkilesarhællinn í íslenskri efnahagsstjórn.``
    Þessi lýsing er nú ekki full af sorg og kvíða eða vanþakklæti í garð þeirra manna sem höfðu stýrt efnahagslífi Íslendinga á árunum frá 1988--1990. Það kann að vera að hæstv. fjmrh. hristi höfuðið en ég sé þó að minni heilbrrh. er með þeim hætti að það hýrnar yfir honum, hann minnist þeirra björtu daga þegar hann var gerður foringi í fjárveitinganefnd og stóð að mörgum góðum verkum með fyrri ríkistjórn. Hann man þessa tíma og það glaðnar yfir svip hans yfir því að hafa verið þátttakandi í góðum verkum og góðu samstarfi. Það er í rauninni undarlegt hvernig Alþfl. hefur látið beygja sig, kreista sig og

svívirða hér í þinginu og þjóðfélaginu af hæstv. forsrh. Þeim ummælum sem hann hefur viðhaft og líka látið hafa sig út í þau hræðilegu verk sem felast í stefnu núv. ríkisstjórnar og ég mun koma hér frekar að. ( Heilbrrh.: Var þá bjart yfir sveitum þessa lands?) Því miður, hæstv. heilbrrh., það er ekki verulega bjart þessa stundina yfir sveitum þessa lands. Ég hygg að þegar hin alþjóðlega sendinefnd gjaldeyrissjóðsins kemur hér í heimsókn verði skýrslan ekki jafnbjört og þeir munu hafa sitthvað að athuga við þá fortíð sem er stutt hjá þessari ríkisstjórn, aðeins nokkrir mánuðir. En það hefur verið gæfa Íslands um langa tíð að hún hefur átt íslenska stjórnmálamenn sem hafa þorað að horfa einbeittir til framtíðarinnar. Við höfum haft stafnbúa sem hafa ekki haft allt á hornum sér eða snúið höfði sínu öfugt heldur horft og tekist á við erfiðleika stundarinnar með framtíðina í huga, enda er það svo að fortíðin er liðin. Það er framtíðin sem við tökumst á við eða byggjum okkur undir að takast á við. Við lifum í nútíðinni og það er mikilvægt að hæstv. stjórnarsinnar geri hæstv. forsrh. þetta ljóst.
    Ég ætla ekki að halda því fram að núv. hæstv. ráðherrar séu vondir menn eða kjarklitlir. Hitt er svo staðreynd að valdamaður sem er hugrakkur án réttlætis er ógnun við þjóðfélagið. Það er kannski staðreyndin, þó að stór orð séu, sem við búum við, að því miður hafa margir af núv. hæstv. ráðherrum sett sig í þá stöðu að vera ógnun við þjóðfélagið. Þeir ætla að umbylta, þeir ætla að breyta, þeir valda óvissu. Meira að segja hæstv. heilbrrh. er ógnun við gamla fólkið. Það er áhyggjufullt þessa stundina. Hæstv. fjmrh. er ógnun við þá fátæku. Með gjörðum sínum veldur hann því að þeir sjá ekki til framtíðarinnar. Þeir vita ekki hvernig þeir eiga að komast af í því þjóðfélagi sem nú er á Íslandi.
    En þá skulum við spyrja okkur: Hver er framtíðin? Er framtíðin á Íslandi þessa stundina björt? Það er vert að ræða um framtíðina þegar við ræðum lánsfjárlög hér á hinu háa Alþingi. Ég er ekki viss um að það fréttabréf sem ég fékk í hendurnar sé skrifað af einhverjum alþýðubandalagsmönnum eða framsóknarmönnum í vondum hug, en það er fréttabréf sem snýr að framtíðinni. Það er frá Félagi ísl. iðnrekenda þar sem þeir fjalla um þjóðarbúskapinn á Íslandi árið 1991 og reyna að horfa til efnahagsmálanna á árinu 1992. Eru þær horfur bjartar? Hvað segja þessir menn um störf ríkisstjórnarinnar og þá stefnu sem hún rekur? Þeir hafa fyrirsögnina ,,Meiri umsvif og meira ójafnvægi``. Það er það sem þjóðin má búa við. Þeir segja, með leyfi forseta:
    ,,Á þessu ári eru horfur á að viðskiptahalli verði um eða yfir 20 milljarðar króna. Þetta er 5--6 milljörðum meiri halli en gert hefur verið ráð fyrir til þessa og um 8 milljörðum meiri halli en fram kom í síðustu spá Félags ísl. iðnrekenda.``
    Ýmislegt virðist vera að síga á ógæfuhliðina því að spár iðnrekendanna, sem áreiðanlega hafa lesið hina hvítu mús rækilega, standast ekki. Það horfir margt á verri veg. Þeir segja enn fremur:
    ,,Þróun utanríkisviðskipta á þessu ári bendir til mikils ójafnvægis. Innflutningur fyrstu átta mánuðina jókst um 14% að raungildi, miðað við sama tíma fyrir ári. Samdráttur í vöruútflutningi nam á sama tíma tæplega 9% þótt verðmæti útfluttra vara sé meira nú í krónum talið.`` --- Þeir segja enn fremur:
    ,,Vísbendingar af vinnumarkaði benda til meiri eftirspurnar eftir vinnuafli en í fyrra. Vísbendingar eru um að landsframleiðsla verði meiri á þessu ári en árið 1990 og að vöxtur framleiðslunnar verði meiri en hingað til hefur verið gert ráð fyrir. Mestur hefur vöxturinn verið í verslun og þjónustu, en aukin umsvif byggjast á erlendum lánum eins og vaxandi viðskiptahalli ber vott um. Hagvöxturinn er því tekinn að láni erlendis.``
    Þetta er staðan í ár sem þeir sjá fyrir sér, félagarnir í Félagi ísl. iðnrekenda. En hvernig sjá þeir framtíðina? Þeir segja að óvissa ríki um þróun efnahagsmála á næsta ári. Gert sé ráð fyrir samdrætti í útflutningstekjum. Einnig sé gert ráð fyrir að eftirspurn innan lands hjaðni. Búist er við vaxandi viðskiptahalla á næsta ári þar sem gert er ráð fyrir því að útflutningstekjur dragist hraðar saman en innflutningur. Þegar á heildina er litið eru óvissuþættir margir og ólíklegt að sérhver þeirra þróist til verri vegar. Næsta ár mun þó einkennast af samdrætti og erfiðleikum.
    Þeir hika ekki við að senda ríkisstjórninni nokkrar ráðleggingar í þessu fréttabréfi sínu og spyrja undir stórri fyrirsögn: Hvað þarf að gera? Þeir segja: Það þarf að draga úr umsvifum og lánsfjárþörf hins opinbera, lækka vexti með auknum sparnaði og minni opinberum lántökum, bæta samkeppnisstöðu án gengislækkunar, jafna starfsskilyrði með afnámi aðstöðugjalds, sem hér var mjög til umræðu í gær, afnema ríkisverndaða einangrun frá alþjóðlegri samkeppni og afnema samkeppnishindranir innan lands. Síðan segja þeir: ,,Ríkisstjórnin verður að setja fram tímasetta áætlun fyrir næsta missiri um aðgerðir á öllum þremur sviðum.``
    Hvers vegna eru þeir að senda ríkisstjórninni þessa áætlun? Hafa þeir ekki lesið hina hvítu mús? Hafa þeir komist að því sama og við að bókin er fyrst og fremst falleg á litinn, eins og helg bók að sjá, en innihaldið gagnslítið? Þar er enga stefnu að finna. Það sem er þar að finna er þó fyrst og fremst hættulegt íslensku atvinnulífi og framtíð þessarar þjóðar.
    Hvað segja þeir í lokin um þessa ríkisstjórn? Þeir segja, með leyfi forseta, um hina hvítu mús trúlega:
    ,,Í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir m.a. að það verði að skapa einstaklingum og fyrirtækjum örvandi starfsskilyrði með sanngjörnum leikreglum og stöðugleika í efnahagslífinu. Einnig segir að brýnt sé að tryggja starfsskilyrði iðnaðar- og þjónustugreina sem ekki megi búa hér við lakari aðstæður en keppinautar á helstu samkeppnismörkuðum.``
    Í áætluninni eru síðan fyrirheit um ýmsar aðgerðir, og þá segja þeir þetta: ,,Allt of margt er óljóst og eingöngu stefnt að og látið kanna.`` Er það ekki tilfellið að Viðeyjarsáttmálinn er ekki lengra kominn en það að í aðalatriðum fjallar hann um að stefna að og láta kanna? Síðan flumbrast ráðherrarnir áfram með hinar og þessar ákvarðanir sem koma samherjum þeirra í ríkisstjórninni oft á óvart. Hér vantar því hina markvissu stefnu. Þeir segja að það sem vanti sé tímasett áætlun um alla þætti sem skipta máli fyrir starfsskilyrði atvinnulífsins, þannig að vissa ríki um starfskjörin á næstu árum. Það er nauðsynleg forsenda þess að atvinnulífið geti snúið vörn í sókn.
    Þessir menn fjalla ekki ýkja mikið um fortíðina eins og hæstv. forsrh. í þessu fréttabréfi. Áhyggjur þeirra virðast snúast að framtíðinni eins og hjá hæstv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, snúast um aðgerðir og aðgerðarleysi þessarar ríkisstjórnar sem virðist ekki hafa haldfasta stefnu í hinum mikilvægustu málum.
    Ég tek undir það sem hér kom fram í gær og er vert að minnast hér á, að fjárlagafrv. boðar ekki bjarta tíð á Íslandi. Það er ekki spennandi frv. ef það kemst til framkvæmda, eins og hæstv. ráðherrar ætla sér, eins og það hefur verið sett fram. Auðvitað er það von mín að forsendum þess verði breytt og að mennirnir sjái að sér í ýmsum atriðum hvað það varðar. Það er t.d. ljóst að þrátt fyrir kosningaloforð verða skattar hækkaðir. Það væri t.d. fróðlegt að lesa ræður hæstv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem ég heyrði oft í gegnum vegginn á síðasta þingi, um að það bæri að lækka skatta. Nú situr þessi hv. þm. í hópi þeirra manna sem ætla að auka skattinnheimtu á Íslandi um 5 milljarða. Hafi hv. þm. lesið rangt og haldið að verið væri að lækka þá um 5 milljarða er ljóst í forsendum fjárlagafrv. að hækka á skatta á Íslandi um 5 milljarða.
    Ræðurnar sem hv. þm. og fleiri flokksbræður hans fluttu á síðasta þingi hafa ekki komist inn í hina hvítu mús eða stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem nú er á Íslandi. Ég hygg

að margt í fjárlagafrv. sem verður að taka til umræðu einnig muni valda því að það þrengi enn að atvinnulífinu á Íslandi, og þá ekki síst er frv. fjandsamlegt byggðum þessa lands og mun koma hart niður á samkeppnisstöðu atvinnulífsins á landsbyggðinni gagnvart atvinnulífi á höfuðborgarsvæðinu.
    Ég ætla ekki undir þessum lið að ræða alla þá sérskatta sem á að leggja á sjúka, fjölskyldurnar, börnin. Það er stórmál út af fyrir sig, af flokki sem stýrir ríkisstjórninni, hefur haft kristilegt siðgæði að leiðarljósi, málefni þjóðkirkjunnar iðulega til umfjöllunar og talið hornstein þjóðfélagsins vera fjölskylduna. Mér sýnist að ef svo fer fram sem horfir í upphafi þings verði stöðu fjölskyldunnar á Íslandi mjög raskað. Hann verður stór sá minnihlutahópur sem ekki kemst af ef menn sjá ekki að sér á hinu háa Alþingi og breyta um stefnu.
    Hæstv. forseti. Ég sakna enn hæstv. viðskrh. og bið um að kannað verði hvort hann sé enn á landinu því að mér er mikilvægt að hann sé við þá umræðu sem ég þarf hér að eiga um vaxta- og peningamál. ( Forseti: Forseta er ljúft að upplýsa ræðumann um það að hæstv. viðskrh. er á leiðinni í þingsalinn.)
    Í gær töluðu tveir hæstv. ráðherrar, fjmrh. og viðskrh., og verð ég að gera athugasemdir við ýmislegt sem fram kom í máli þeirra og reyndar nokkurra annarra hv. alþm.
    Hér var mjög rætt um peninga og vaxtamál sem eðlilegt er undir þessum lið. Sumt var þar með réttu sagt og annað ekki. Auðvitað er mikilvægasta verkefni dagsins að lækka vexti og halda verðbólgu niðri. Ef íslenskum stjórnmálamönnum tekst það ekki mun atvinnulífið stranda, öll nýsköpun deyja út og allt unga fólkið með húsbréfin missa eigur sínar áður en öldin er liðin. Ef íslenskum stjórnmálamönnum tekst ekki að skapa þjóðarsátt um þetta meginverkefni mun það blasa við að hér verður hrun í atvinnulífinu og að skuldsetta fólkið með verðtryggðu lánin mun missa eigur sínar. Því er þetta brýnasta verkefnið, að ná raunvöxtum niður, halda verðbólgunni niðri og reyna að skapa betri aðstæður fyrir atvinnulífið. --- Það bólar ekki enn á hæstv. bankamálaráðherra. Hefur hann gengið í húsið? ( Forseti: Samkvæmt þeirri skrá sem forseti hefur hefur ráðherrann ekki gengið í húsið. Hann var á fundi inni í Borgartúni 6 en lofaði starfsmönnum þingsins að flýta sér og að hann mundi koma eins fljótt og kostur væri. Það eru þær upplýsingar sem forseti hefur hér í þessum forsetastóli.) ( ÓÞÞ: Hefur hann fjarvistarleyfi?) Það er fáheyrt að hæstv. ráðherra skuli rétt reka löppina niður á þetta volaða land sem því miður á í erfileikum og sjái sér ekki fært að vera við þá umræðu sem skiptir miklu máli og hann hefur tekið þátt í og sagt ýmsa hluti. Hver eru úrræði forseta í þessu máli? Verður að sækja manninn í böndum eða líður ráðherranum orðið það illa hér í þinginu að hann getur ekki þolað hér við? ( Forseti: Ég upplýsi ræðumann um að verið er að athuga hvað ferðum ráðherra líður þannig að við vonum að hann komi hingað skjótt.) ( Gripið fram í: Hann gæti verið í Ásbyrgi.) Ég hygg að hæstv. viðskrh. sé ekki staddur í Ásbyrgi. Hann hefur gjarnan sótt í aðrar áttir hér innan lands.
    Ég ætla þá að minnast örfáum orðum á ræðu hæstv. fjmrh. sem var kannski ekki mjög ítarleg í gær og snerist varla um aðalatriði máls, enda er það varla von því að aldrei fyrr hefur ráðherra farið jafnhressilegt flikk-flakk úr þingmannsfötunum yfir í ráðherrafötin.
    Nú er þessi hæstv. fjmrh. ókrýndur konungur vaxtastefnunnar. Hann hefur hækkað raunvexti meira með einu pennastriki en nokkur annar ráðherra hefur gert fyrr eða síðar. Brúðkaupsnótt Viðeyjarstjórnarinnar var íslenskri alþýðu og atvinnulífinu á Íslandi dýr nótt. Þar hafa raddir þeirra fengið náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar sem henni voru kærastir því að á þessari brúðkaupsnóttu voru raunvextir á spariskírteinum ríkissjóðs hækkaðir með einu pennastriki úr 6,6% upp í 8,1%.

    Ég minnist þess að allir þeir sem fjölluðu um peningamál á þessum tíma áttu ekki orð. Þeir skynjuðu ekki eða skildu þessa aðgerð ríkisstjórnarinnar. Þeir töldu hana óþarfa, töldu að það hefði þurft að hækka nafnvexti á öðrum pappírum ríkissjóðs en að hækka raunvaxtagrunninn á spariskírteinum ríkissjóðs úr 6,6% í 8,1%. Menn sáu fyrir sér að þjóðarsáttin færi fyrir bí, að sá gróði sem var að myndast í fyrirtækjunum var með einu pennastriki sem hæstv. fjmrh. hefur á þessari brúðkaupsnóttu ríkisstjórnarinnar verið píndur til að gera, sjálfsagt bestu vinum og stuðningsmönnum flokks síns til ábata. Ég efast ekki um að þarna hefur hann verið píndur á þessari brúðkaupsnótt ríkisstjórnarinnar. En hvað þýddi þessi ákvörðun? Hún þýddi samkeppnin um spariféð á Íslandi jókst. Bankarnir og peningastofnanirnar urðu að hækka sína innlánsvexti til að halda sinni stöðu á markaðinum. Þetta þýddi meira. Þetta þýddi það að raunvextir útlánanna jukust einnig.
    Hæstv. viðskrh., sem nú er genginn í salinn, minnist þess, ef ég veit rétt, að honum hafði tekist sem bankamálaráðherra fyrri ríkisstjórnar að lækka raunvexti útlána um 7,5% undir lok tímabils þeirrar ríkisstjórnar. Á einu bretti með þessari ákvörðun fjmrh. í vor hækkuðu raunvextir útlánanna og hafa síðan verið í 10--11%.
    Svona geta nú nætur á Íslandi verið dýrar. Það er þess vegna enn einn áfellisdómurinn um þessa ríkisstjórn sem ég er hér með í höndunum frá mikilvægum fundi sem var haldinn á dögunum. Þar sjáum við tvo dökkleita menn. Annar ber ábyrgð á atvinnulífinu á Íslandi og heitir Einar Oddur Kristjánsson og er kenndur við Flateyri. Hann segir: ,,Vaxtapólitíkin er að koma okkur á knén.`` En við hliðina á honum er ráðherrann sem á þessari brúðkaupsnótt tók þessar ákvarðanir, hann er glaðbeittari á svipinn og hann segir við atvinnulífið á Íslandi að sér komi þetta í rauninni ekkert við, hann segir, með leyfi forseta: ,,Það er ekki í verkahring stjórnvalda að marka stefnuna eða eiga frumkvæði að lækkun vaxta í þjóðfélaginu. Slíkan kúrs yrðu bankarnir að marka og ríkið gæti þá komið á eftir.``
    Maðurinn sem stóð hér glaðbeittur í þingsalnum á aukaþinginu í vor og sagði að hann mundi á haustdögum lækka vextina á nýjan leik. Hann segir nú þegar kemur fram á haustið og atvinnulífið er komið á hnén að sér komi málið ekkert við. Hann sé enginn leiðtogi í þeim leik sem sé fram undan. Þó liggur það fyrir að það er raunvaxtalækkunin sem verður að eiga sér stað ef atvinnulífið á að lifa og húsbyggjendurnir eiga að halda húsum sínum.
    Síðan flettum við einu dagblaðinu. Þar kemur það í ljós að þar er þessi Einar Oddur Kristjánsson orðinn einn á mynd. Um hvern er hann að tala? Hann segir: ,,Stefnir beint norður og niður.`` --- Var hann að tala um fortíðina? Nei, hann var að tala um framtíðina, hæstv. viðskrh. Hann var ekki að tala um fortíðina sem hæstv. forsrh. er í heilögu stríði við, hann var að tala um þann farveg sem íslensk stjórnvöld hafa nú markað atvinnulífinu. Hann segir að það séu ekki bara vextirnir sem valdi sér áhyggjum. Hann segir að það sé þenslan. Það sé gengisstefnan. Mig minnir að ég hafi heyrt talað fyrr í þessum dúr ,,norður og niður``. Það er gott ef þau hljómuðu ekki líkt 1988 þegar atvinnulífið var komið í verulega kreppu. Skyldi það vera að hæstv. núv. forsrh. verði helmingi snjallari og helmingi fyrr að koma atvinnulífinu á Íslandi á heljarþröm en fyrirrennari hans, forsrh. sem settur var af í Sjálfstfl. 1987--1988?
    Það er alvarleg staða sem vissulega blasir við. En það er líka vert að minnast þess sem vel er gert og auðvitað á þessi ríkisstjórn margan mætan manninn í sínum hópi. En það gerðist á þeim sama fundi, sem þessi ummæli fjmrh. og Einars Odds féllu, að þar talaði þó einn hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem ekki er hér í þingsalnum í dag, af fullu viti. Hann talaði af fullu viti um vaxta- og peningamál og er það sjaldgæft, því miður, í umræðu um stjórnmál þegar kemur að vaxta- og peningamálum. Sá ráðherra er ekki hér

með okkur í dag. Hann virðist vera fjarverandi. Það var hæst. sjútvrh. En þar talaði hann af mikilli skynsemi og virtist alveg skíthræddur við að nú stæði hann sem fagráðherra í sjávarútveginum þegar ríkisstjórn hans tækist að drepa hann endanlega. Hann hafði verið forsrh. áður þegar litlu munaði að svo færi en er nú fagráðherra greinarinnar. Hvað sagði þessi ráðherra? Hann talaði í allt öðrum dúr en hæstv. fjmrh. Það var ábyrgðartilfinning í hans ummælum. Hann sagði þann sannleika, hæstv. ráðherra Þorsteinn Pálsson, að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á vaxtastefnunni og hann talaði af mikilli hreinskilni. Stærstu lántakendurnir, ríkið og sveitarfélögin, verða að draga sig út af lánamarkaðinum til að minnka eftirspurn. Öðruvísi verða raunvextir ekki lækkaðir, sagði þessi ráðherra.
    Hann gerði sér grein fyrir því, sem er staðreynd málsins, að auðvitað er það ríkisstjórnin og ríkið í fjárþörf sinni sem ræður raunvaxtastiginu á Íslandi. Mig minnir að hæstv. sjútvrh. hafi haldið þarna mjög góða ræðu sem ég hef ekki haft rænu á enn þá að ná mér í. Mig minnir að hann hafi talað um að það hafi verið atvinnulífið á Íslandi sem byggði allt hitt upp. Ýmsir væru farnir að halda því fram að skrauthýsi og Perlur væri það sem þjóðin lifði á. Hann vildi undir þessari ágústsól eða septembersól minna íslenska þjóð á að það er atvinnulífið sem við lifum á. Það er sjávarútvegurinn, landbúnaðurinn og iðnaðurinn sem skapar það að við getum búið hér við velmegun og haldið uppi velferðarþjóðfélagi.
    Það var ekkert að undra þótt hæstv. sjútvrh. væri óttasleginn í þessari stöðu því auðvitað er það ríkisstjórnin sem ræður vaxtastefnunni, að vaxtastefnan er að ganga frá atvinnulífinu. Ekki var óeðlilegt að hann minntist á sveitarfélögin, ef það er rétt að Reykjavíkurborg sjálf býr við þann fortíðarvanda, vegna framkvæmda í skrauthýsunum sem hann minntist á, að vera nú komin 1,5 milljarð út á ,,fittið``. Ég hef Morgunblaðið sjálft mér til vitnis um það. Það birti þessa stóru frétt á dögunum.
    Ég ætla í örfáum orðum að ræða við hæstv. viðskrh. sem nú hefur séð sér fært í önnum dagsins að eiga hér litla stund með okkur í þinghúsinu og er ég þakklátur fyrir það.
    Hann og fleiri ræddu um stöðu peningamála í gær og um þann fákeppnismarkað sem við búum við sem auðvitað er hárrétt. Í þeim efnum fannst mér bæði hjá þessum bankamálaráðherra og ýmsum þingmönnum, sem hér töluðu, að sök hárra vaxta lægi hjá hinu vonda bankakerfi. Það hafði komið fram í umræðunni og hæstv. viðskrh. bar ekki á móti því heldur tók undir og lét í rauninni að því liggja að bankarnir bæru þar alla ábyrgð.
    Mér hefur nú lengi fundist að þeir menn væru dálítið glámskyggnir sem halda að allar lausnir komi að utan því einn meginkafli í ræðu hæstv. viðskrh. undir þessum lið í gær snerist um lausnirnar sem koma að utan. Nú hefur þessi hæstv. ráðherra eignast eitt mýraljósið í viðbót. Enn sér hann á svörtum haustdögum eina týruna sem muni lækna hér allar meinsemdir. Hann hefur fyrr séð týrur sem hafa átt að lækna meinsemdir. Hann hefur kveikt á ljósum og því miður hafa margir trúað honum í mörgum efnum þegar hann tekur kollsteypurnar. Ljósin hafa reynst mýraljós í orðsins fyllstu merkingu. Því er það ekkert óeðlilegt að margir hv. þm. hafi það nú orðið fyrir nokkurs konar áttavita að vera gegn því sem hæstv. viðskrh. leggur til í hinum stóru málum. Álversljósið er t.d. alltaf við næsta horn. Álversljósið er eitt stærsta málið í fjárlagafrv. en ég er búinn að vera hér í þingi í fjögur ár og hæstv. viðskrh. hefur alltaf verið með lok þess máls í næstu viku eða næsta mánuði. En alltaf hefur þetta reynst mýraljós.
    Það má minna á fleiri athafnir. Mig minnir að Alþfl. og þá ekki síst viðskrh. og þáv. fjmrh. hafi séð mikið ljós og lausn eitt sinn, að stórbreyta íslenska tollakerfinu til lækkunar á öllum lúxus til þess að stöðva utanlandsferðir til kaupa á fatnaði og vörum. Tekjur ríkissjóðs áttu að margfaldast þrátt fyrir tollalækkunina. Enn þá heyrast af því fréttir að flugvélarnar fljúgi út í dagsferðir til að kaupa fatnað og lúxus. Þannig að einnig þetta

varð að mýraljósi, en í staðinn situr þjóðin uppi með matarskatt, sem var lausnarorðið.
    Ég veit ekki hvort ég á að vera að minnast á fleiri mýraljós. Það væri líka fróðlegt að minnast á Bifreiðaskoðun Íslands sem var eitt besta fyrirtæki ríkissjóðs og malaði tekjur fyrir hann. Eitt sinn stóð þessi hæstv. ráðherra upp og sagði að það yrði að selja þetta fyrirtæki. Þjóðin vildi selja. Það yrði hagnaður skattborgarans. Þingmenn urðu bláeygir á ný undir mælsku og góðum útskýringum þessa gáfaða ráðherra. Bifreiðaskoðun Íslands var seld og ríkið varð af miklum tekjum. En skattborgararnir hafa ekki haft frið því nú kostar mikið að fara með bifreið í skoðun og nú hafa frjálshyggjumennirnir tekið við þessu fyrirtæki og hafa einokunaraðstöðu til þess að níðast eða þjóna íslenskum bifreiðaeigendum. Það er eðlilegt í þessum umræðum að rifja ýmislegt upp til aðvörunar sem hér hefur verið að gerast í þingsögunni á síðustu árum.
    En hæstv. viðskrh. sagði í ræðu sinni hér í gær, með leyfi forseta: ,,En það er líka annað mjög mikilvægt atriði í þessu máli sem athuga þarf, og kom kannski ekki alveg nógu skýrt fram hjá þingmanninum, og það er að til þess að útvega atvinnuvegunum lánsfé á samkeppnisfærum kjörum, fjármagn á heimsmarkaðsverði, þá þurfum við að opna okkar lánamarkað. Að því máli er nú unnið og síðasta dæmið um það er að sjálfsögðu það sem samþykkt var í mars á síðasta þingi að heimila erlendum lánastofnunum að opna hér útibú sem væntanlega verður fest skýrar í lög á næstu dögum. Þannig og aðeins þannig fáum við samkeppniskjör á fjármagni til okkar atvinnuvega. En það er líka rétt að þar er ákaflega mikilvægt að stilla svo í hóf opinberri eftirspurn eftir lánsfé og útgáfu skuldabréfa til að fjármagna hið opinbera húsnæðislánakerfi sem frekast er kostur.`` --- Þetta voru ummæli hæstv. ráðherra. Tek ég heils hugar undir síðari hluta ummælanna en það vaknaði í hugskoti mínu hvort að nú væri eitt mýraljósið enn kviknað. Hvort hann yrði nú, þessi hæstv. ráðherra, til að tefja það verk sem hæstv. sjútvrh. sagði og ég vitnaði í að mikilvægt væri að hefja lækkun raunvaxta á Íslandi í þeirri trú að einhverjir erlendir bankar kæmu hingað með fjármagn og lækkuðu hér vexti.
    Nú vil ég spyrja hæstv. viðskrh. hvaða bankar það eru sem munu koma. Verða það norsku einkabankarnir eða þeir sænsku? Verða það finnsku sparisjóðirnir sem munu koma hingað? Allir þessir bankar, hvar eru þeir staddir í dag? Þeir eru komnir á framfærslu ríkja sinna. Hvers vegna? Vegna þess að þeir urðu gjaldþrota og það var ekki hægt að gera þá gjaldþrota því ríkið gat ekki liðið það, hvorki í Svíþjóð, Finnlandi eða Noregi, að almenningur missti sparifé sitt. Verða það þessir bankar sem koma til Íslands til að bæta stöðu sjávarútvegsins?
    Ég vil enn fremur spyrja hæstv. ráðherra að því hvað verði með öll þessi fiskvinnslufyrirtæki sem eru skuldsett upp fyrir eyru og hafa engin veð. Munu þessir erlendu bankar, sem hann vitnar til, koma hingað og treysta sér til þess að lána sjávarútveginum eins og hann er staddur í dag? Því geri þeir það þá spyr ég hv. þingmenn hvers vegna. Til þess að komast inn í íslenskan sjávarútveg og íslenskt atvinnulíf. Það er eina skýringin sem hægt væri að finna á þeirri stöðu.
    Það er reyndar fróðlegt að heyra fullyrðingar í gær, eins og t.d. hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. og fleirum í þessu þinghúsi, um raunvexti í öðrum löndum sem virðast vera alveg feikilega lágir þegar sagt er frá þeim hér í þessum þingsal. Erum við þó sammála um að þeir séu of háir hérlendis? Ég hafði með mér í ræðustólinn yfirlit frá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka. Hvað segir um vextina í öllum þessum draumalöndum sem hér er alltaf verið að tala um? Hér eru t.d. tekin saman verðbólga og vextir í nokkrum löndum, nafnvextir ríkisskuldabréfa. Hverjir skyldu þeir vera hér á landi? Þeir eru um 8%. Hverjir eru þeir í Danmörku? 7,3%. ( Gripið fram í: Án verðtryggingar.) Þetta eru raunvextir. Í Bandaríkjunum eru þeir 5%, í Bretlandi 6,8%, í Þýskalandi 4,7%. Þetta er ekkert verulega langt

frá okkar stöðu. Ég hygg að þetta segi talsvert um þá stöðu sem víða er í þessum löndum eða muninn á milli Íslands og þeirra í þessum efnum. Að þau mýraljós sem einstakir þingmenn sjá í lausninni á því að erlendir bankar komi hér, þau mýraljós sem viðskrh. bindur nú vonir við og ríkisstjórnin aðhefst kannski ekkert, verði ekki jafnfrelsandi og menn hafa ætlað.
    Er þá kannski engin samkeppni í peningamálum á Íslandi? Ég heyrði það ekki á ræðu hæstv. viðskrh. að það væri ekki nein samkeppni á peningamarkaðnum á Íslandi. Hafði ég þó ekki í upptalningu minni áðan minnst á eitt ljósið sem orðið er mýraljós undir þessum umræðum. Það er Íslandsbankinn sjálfur, óskabarnið sem hlaut í vöggugjöf á morgni lífsins 3 milljarða frá ríkinu að gjöf og skattfrelsi út þessa öld. Hefur hann brugðist í samkeppninni? Þegar Íslandsbanki var stofnaður voru haldnar hér hugljúfar ræður um að nú yrði samkeppni á íslenskum peningamarkaði, nú væri kominn sterkur einkabanki sem mundi veita ríkisbönkunum aðhald. Er hann líka orðinn að mýraljósi? Hefur þessi banki einnig brugðist og enga samkeppni skapað á íslenskum peningamarkaði? Það væri kannski fróðlegt að fara yfir stöðu og þá samkeppni sem vissulega ríkir á íslenskum peningamarkaði og aldrei er minnst á.
    Ég er með fréttabréf frá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka í höndunum. Þar er fjallað um raunvexti árið 1992. Þar segir auðvitað frá því að ríkið er lántakandi sem ekki er mjög næmur fyrir því hvað vaxtastigið er hátt. Það tekur til sín lán hvernig sem árar á markaðnum en vaxtabyrðin veltist síðan yfir á næstu kynslóðir. Og hvað er sagt um peningamarkaðinn? Ríkið hefur aukið sókn sína á íslenska peningamarkaðinn, aukið samkeppni sína við bankana um spariféð sem bankarnir þurfa að nota til þess að bjarga skuldsettum og illa settum íslenskum atvinnuvegum. Á árinu 1992 eru nýjar lántökur opinberra aðila áætlaðar 24 milljarðar kr. og þar af um 15 milljarðar á innlendum markaði. Ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á því ári er um 26--28 milljarðar kr. og nema ný iðgjöld um 16--17 millj. kr. af þeirri fjárhæð en afgangurinn er endurgreiðslur og vextir af fyrri lánum. Seðlabankinn áætlar nú að heildarsparnaður landsmanna á árinu 1992 nemi um 30 milljörðum kr. en stærstu hlutar hans eru iðgjöld lífeyrissjóðanna, 16--17 milljarðar, og frjáls sparnaður 13--14 milljarðar. Þetta er það sem barist er um á þessum litla peningamarkaði okkar á Íslandi sem vissulega er fákeppnismarkaður en fyrst og fremst hörð barátta á milli ríkisvaldsins annars vegar til þess að koma á móts við sinn hallarekstur og vandræði og síðan keppni bankanna við að ná peningum til þess að hjálpa íslensku atvinnulífi.
    En það er líka athyglisvert á þessu herrans ári sem hæstv. fjmrh. tók kollsteypu í vaxtamálum hvernig verið hefur á þessum peningamarkaði. Það kemur hér fram að innstreymi nýs fjár í bankana á verðbréfamarkaði á árinu 1991 er áætlað aðeins um 50--60% af því sem það var á árinu 1990. Sem sé, peningarnir, sem verið er að berjast um, hafa minnkað hér um bil um helming og þess vegna eru orð hæstv. sjútvrh. orð töluð í tíma, að það er ríkið og það eru stærstu sveitarfélögin sem verða þegar að draga að sér höndina til þess að það sé hægt að hefja hina raunverulegu vaxtalækkun sem er mjög mikilvæg.
    Hér ræddu menn mikið um nafnvexti, aðallega nafnvexti á þriðja og fjórða ársfjórðungi þessa árs. Þar töluðu menn eins og aðeins væri einn banki á Íslandi og staðan væri eins í öllum lánastofnunum. Ég varð fyrir vonbrigðum með það að hæstv. viðskrh. skyldi einnig í rauninni falla í þá gryfju, hann andmælti ekki þeirri skoðun, hefur kannski ekki haft tíma til þess að lesa vaxtatöflurnar sem hafa verið í blöðum og séð þann mikla mun sem auðvitað er á milli bankanna. Enda kemur það glöggt fram í Morgunblaðinu í morgun að þarna er um mikinn mun að ræða sem bendir til þess að samkeppni á íslenskum peningamarkaði sé vissulega fyrir hendi og að peningastofnanirnar standi misjafnlega

að verki og bjóði viðskiptavinum sínum mjög ólík kjör. Þetta kemur glöggt fram í þessu yfirliti Morgunblaðsins en þar segir:
    ,,Raunvextir Íslandsbanka og Landsbanka Íslands eru talsvert hærri en vextir Búnaðarbanka Íslands og sparisjóðanna og svo hefur verið frá því í byrjun október``, frá því að hinn síðasti ársfjórðungur byrjaði. En það er kannski fróðlegt í þessu að átta sig á hvernig staða ársins er og menn verða að ræða um þessi mál í heild sinni. Hin verðtryggðu og hin óverðtryggðu kjör mælanna tveggja sem bankarnir verða að hafa í húsi sínu til þess að verðleggja eftir. Annar er sjálfvirkur, hann heitir verðtryggður. Hinn er handstýrður. Það eru nafnvextir. Þarna eru auðvitað lagðar auknar byrðar á bankana með ákvörðun ríkisvaldisns. Hæstv. núv. viðskrh. náði því fram í fyrri ríkisstjórn að banna verðtryggingu útlána innan þriggja ára sem áður voru tvö ár. En það er leyfð binding og verðtrygging sparifjár sem bundið er til sex mánaða og lengri tíma. Þetta veldur mikilli skekkju í bönkunum. Hvernig var þessi staða sem af er árinu, ef við skoðun það?
    Lítum á fyrsta ársfjórðung hjá peningastofnunum á Íslandi, þá eru raunvextir á verðtryggðum kjörum 8% á fyrsta ársfjórðungi en á óverðtryggðum kjörum 5,9%. Þetta var skuldabréfalán. Á öðrum ársfjórðungi eru verðtryggð kjör með 8,5% en óverðtryggð með 4,9%. Þarna hafði myndast mikil skekkja hjá peningamálastofnunum sem leiðir af sér halla, ekki til þess að mæta einhverju tapi heldur halla til þess að koma fram með lögboðinn hagnað sem bundinn er samkvæmt lögum. Hvernig var svo þriðji ársfjórðungur? Verðtryggðu kjörin voru með 9,9% vöxtum en óverðtryggðu kjörin með 11%. Samkvæmt spá síðasta ársfjórðungsins eru verðtryggð kjör á 10%, en óverðtryggð kjör um 17%. Þetta verða menn að skoða í heild sinni á löngum tíma því að ég hygg og ég vil spyrja eftir því: Telur hæstv. bankamálaráðherra að það þurfi að vera jafnvægi í heild sinni á árinu á milli þessara tveggja kjara? En það stefnir nú í að þessar spár rætist, að verðtryggðu kjörin verða með 9,1% en þau óverðtryggðu með 9,6%. Þetta dæmi verða menn að skoða og ræða í heild sinni til þess að fá raunhæfa niðurstöðu.
    Auðvitað er það gremjulegt að setja allar peningastofnanir í einn og sama pott þegar það blasir við að það er mikill munur á vaxtakjörum. Haldið þið t.d. að það skipti ekki atvinnulífið máli hverjir afurðalánavextirnir eru? Eru allir bankarnir með sömu afurðalánavexti nú, hæstv. viðskrh.? Eða ríkir þar samkeppni? Ég er hér með upplýsingar um það frá 1. nóvember. Afurðalánavextir í bönkunum virðast vera mjög mismunandi. Í Landsbankanum eru afurðalánavextir núna 19,25%. Í Íslandsbanka 17,25%, í Búnaðarbankanum 17,50%, hjá sparisjóðunum 16,50%. Þarna er meira að segja óskabarnið fyrir neðan ríkisbankana, hvað afurðalánavextina varðar á þessari stundu. Það hvetur til samkeppni sem er vissulega fyrir hendi.
    Eins er það með skuldabréfavexti. Eru þeir eins í öllum bönkum? Þar er mikill munur á. Sama er um víxilvexti og það er kannski athyglisvert að þeir bankar sem jafnan eru með lægstu útlánsvexti eru ekki með síðri innlánsvexti heldur en hinir. Þarna held ég að menn verði að gera sér ljóst að það ríkir töluverð samkeppni á milli bankanna.
    En auðvitað er það svo að það eru mörg mikilvæg verkefni fram undan. Og miðað við þá stöðu sem nú blasir við á peningamarkaðnum, bæði verðbólguspár og verðbólgu undangenginna mánaða verða nafnvextir að lækka. Því er mér það bæði ljúft og skylt við þessa umræðu að skýra frá því að Búnaðarbankinn hefur tekið þá ákvörðun, tók hana á þriðjudaginn var, að lækka nafnvexti verulega, fara nú niður um 2% hvað nafnvexti varðar sem er töluvert skref og það verður gert þann 11. þessa mánaðar. Og ég spyr: Gerist það að kannski helmingur bankanna fari þannig niður en hinir verði eftir? Er staðan með líkum hætti hjá þeim ef þetta gerist? Þá verða t.d. afurðalánavextir Búnaðarbankans komnir niður í 15,50% eftir að þessi lækkun hefur gengið í gegn núna þann 11. nóvember. En

ég gat um það að þeir væru í 18 og 19% og vegið meðaltal 18,5%. Þá munu víxilvextir Búnaðarbankans fara niður í 15,5% en þeir eru upp undir 20% hjá sumum bönkunum þannig að þarna er verið að stíga mikilvægt skref miðað við þá verðbólgu sem nú ríkir og þær verðbólguspár sem eru sýnilegar.
    Hitt er svo önnur saga, hvort nóg er að gert. Ég held að ekki sé nóg að gert. Nú er það raunvaxtalækkun sem verður að koma til. Nú verður hæstv. fjmrh., sem taldi ríkið litla ábyrgð bera og sagði á Akureyrarfundinum að það væru aðrir sem bæru ábyrgð á þessu, ríkið ætti að koma á eftir, að sýna af sér skörungsskap og standa við þau orð sem hann hét þingi og þjóð í vor að fara að stíga skref til raunvaxtalækkunar. Þá verður að byrja á innlánshlið og hitt svo í framhaldinu. Þetta eru í mínum huga brýnustu verkefnin. Það skiptir engan meira máli en ríkið sjálft að þetta megi takast því að ríkið lifir ekki af sjálfu sér. Ríkið stendur ekki sterkt ef atvinnulífið fer á hausinn, ef unga fólkið verður gjaldþrota og missir eigur sínar. Því er ég sannfærður, án þess að trúa á mýraljós viðskrh., að hægt sé að lækka raunvexti á Íslandi. Það verður að gerast með þeim hætti sem hæstv. sjútvrh. hefur sagt á þessu hausti. Stærsti lántakandinn verður að draga að sér höndina. Öðruvísi lækka menn ekki raunvexti. Öðruvísi bjarga menn ekki íslensku atvinnulífi. Ég tel að menn gætu hér með samstilltu átaki allra peningastofnana náð því að lækka raunvexti um 2--3% og þá erum við staddir á svipuðu stigi og mörg þau lönd sem við gjarnan vitnum til.
    Ég vil frekar trúa því að menn fari í þetta verkefni, og að bankamálaráðherrann láti af sinni reikningslist, sinni trú á eitthvað sem komi að utan, en taki heldur til höndum og nái saman um þetta verkefni með bönkunum í landinu, með ríkissjóði, með lífeyrissjóðunum sem eiga kannski þyngsta sökina á því háa vaxtastigi sem ríkir á Íslandi því að það eru ekki síst þeir sem gera miklar kröfur um háa innlánsvexti. Það skal viðurkennt að þar eru þeir í mörgum tilfellum að glíma við mikinn fortíðarvanda sem þeir eru á mjög stuttum tíma að reyna að draga sig að landi með frá þeim tíma þegar sparifé brann hér upp.
    Mín lokaorð eru því þau að ég vænti þess, þó að ég hafi ekki trú á þessari ríksistjórn, að mennirnir séu ekki svo sljóir, svo heyrnarlausir, að þeir heyri ekki andvörpin sem berast frá fólkinu sem líður illa undir öllu því fortíðartali sem hér hefur verið viðhaft af stafnbúanum í ríkisstjórninni, að ríkisstjórnin sé ekki svo gæfulaus að hún snúi sér ekki að verkefnum sem duglegum mönnum sæmir, að skapa nýja þjóðarsátt á sem flestum sviðum og hverfa frá mörgum sínum vitlausustu ákvörðunum sem þegar liggja í loftinu eða þeir hafa tekið, sem birtast í fjárlagafrv. víðar og víðar. Ég vil trúa því að í þessum stjórnarflokkum séu þrátt fyrir allt þeir kjarkmenn sem þora í veigamiklum atriðum að fylgja stjórnarandstöðunni til að stöðva mörg ætlunarverk hæstv. fjmrh., heilbrrh., menntmrh. o.s.frv. Það eru mín lokaorð.