Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 14:53:00 (764)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því, svona rétt til þess að halda því til haga, að núna hefur hæstv. fjmrh. mælt fyrir tveimur stjfrv. án þess að stjórnarandstaðan hafi verið að bregða fæti fyrir mál að neinu leyti, heldur þvert á móti, stjórnarandstaðan hefur greitt fyrir því að mál hafi gengið fram með eðlilegum hætti. Þetta er auðvitað sagt að gefnu tilefni en er staðfesting á því í verki að stjórnarandstaðan vill gjarnan greiða fyrir því að mál nái fram að ganga.
    Ég vil einnig vekja athygli á því, virðulegi forseti, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, gefur alveg sérstakt tækifæri til þess að ræða við Sjálfstfl. og þá alveg sérstaklega núv. hæstv. fjmrh. um skattamál almennt og þá alveg sérstaklega þennan skatt. Það mun hafa verið bæði á síðasta og næstsíðasta þingi að talsmenn Sjálfstfl., bæði núv. hæstv. fjmrh. og sömuleiðis hv. 5. þm. Reykv., settu á mjög langar ræður um það hve fráleitur þessi skattur væri. Það fóru fram geysiítarlegar umræður um þetta og ég geri ráð fyrir að í rauninni sé erfitt að finna mál sem hafi fengið eins ítarlega umfjöllun af hálfu Sjálfstfl. og einmitt þetta mál. Þessum ræðum fylgdu svardagar af hálfu þingmanna Sjálfstfl. um það að þegar Sjálfstfl. kæmist til valda yrði þessi skattur afnuminn. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort þetta frv. var samþykkt samhljóða í þingflokki Sjálfstfl., hvort það er þannig að allir þingmenn Sjálfstfl. standi að þessu frv. Það er alveg óhjákvæmilegt að fá það upplýst. Ég get jafnframt látið það koma fram að sem ábyrgður þingmaður og stjórnarandstæðingur mun ég auðvitað greiða þessu frv. atkvæði, þannig að það er allt í lagi fyrir einn og einn mann frá íhaldinu að hlaupa út undan sér í málinu. En sú afstaða, sem fram kemur hjá hæstv. fjmrh. í þessu máli, sýnir auðvitað afar vel og í hnotskurn ábyrgðarleysi Sjálfstfl. þegar Sjálfstfl. er í stjórnarandstöðu. Fullkomið ábyrgðarleysi. Ég hef reyndar stundum haldið því fram að

ábyrgðarlausasti stjórnarandstöðuflokkur sem hugsast getur í þessu landi sé Sjálfstfl., því hann svífst yfirleitt einskis. Hann styður aldrei mál af neinu tagi sem koma frá ríkisstjórn af hvaða viti sem þau kunna að vera, nema hv. þm. Egill Jónsson. Að öðru leyti, fyrir utan þessa ánægjulegu undantekningu, sem hv. þm. Egill Jónsson er, þekkist það ekki að Sjálfstfl. sýni ábyrgð í stjórnarandstöðu. Svo þegar Sjálfstfl. hefur skipt um hlutverk eins og núna kemur hann með öll skattafrumvörpin sem hann var að bölsótast út af á næsta kjörtímabili á undan, eins og þetta frv. hér. Ég veit ekki hvað hæstv. fjmrh. átti í rauninni við þegar hann sagði: Það er ódýrt fyrir þingmenn að segjast vera gegn þessum skatti. Var hann þar að iðka sjálfsgagnrýni, í raun og veru að ráðast að sjálfan sig eins og hann flutti mál hér á síðustu tveimur kjörtímabilum? Eða hvað? Því að sjálfsögðu stendur það ekki til af okkar alþýðubandalagsmanna hálfu, að leggjast gegn þessum skatti þó að núv. hæstv. fjmrh. mæli fyrir frv. Við teljum að þetta sé alveg brúklegur skattur eftir atvikum. Ég hef iðulega flutt um það tillögur að hækka þennan skatt dálítið og ég hef fundið að það hjálpar íhaldinu pínulítið að geta sagt að þeir hefðu verið enn þá verri ef þeir hefðu ráðið. Þeir nota þetta t.d. á hádegisfundum í Verslunarráðinu þegar mikið liggur við að þó að þeir séu nú slæmir þá eru alþýðubandalagsmennirnir enn þá verri.
    En ég ætla að láta þetta eiga sig núna. Ég ætla ekki að flytja sérstaka tillögu um að hækka þennan skatt þó að ég teldi það að mörgu leyti mjög eðlilegt miðað við þann mikla vanda sem ríkissjóður stendur frammi fyrir. Eins og að tvöfalda hann eða svo, ná þannig 400--500 millj. inn í ríkissjóð í viðbót. Það mundi verða til þess t.d. að hægt væri að fella niður áformin um skólagjöldin. Ég bendi hv. þm. Alþfl. á það og að sjálfsögðu styður Alþb. þá afstöðu eins og áður hefur komið fram.
    Varðandi málið að öðru leyti vildi ég hins vegar víkja orðum mínum alveg sérstaklega að þm. Alþfl. sem hér eru í salnum. Þannig er að á síðasta kjörtímabili var um það rætt að skattlagninu á eigna- og fjármagnstekjur yrði breytt. Það var gert ráð fyrir því að tekjurnar af fjármagnssköttunum yrðu notaðar til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu. Tekjurnar yrðu notaðar til þess að styrkja tekjuskattskerfið í þágu láglaunafólks. Með öðrum orðum að peningana af fjármagnstekjuskattinum, vaxtatekjuskattinum, átti að nota í því skyni að jafna lífskjörin. Nú kemur það fram hjá hæstv. fjmrh. að það er horfið frá þessari stefnu sem Alþfl., Alþb. og Framsfl. voru sammála um á síðasta kjörtímabili. Það er horfið frá þessari stefnu og ég vil spyrja þm. Alþfl. sem hér eru í salnum hvort þeir eru sammála því að hverfa frá þessari stefnu og nota fjármagnstekjuskattinn til þess að fella niður skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég gæti í þessum efnum t.d. beint máli mínu til hv. 5. þm. Austurl. og spurt hann að því, sem fulltrúa Alþfl. í ríkisfjármálum í fjárln. Alþingis, hvort það er niðurstaða Alþfl. að fjármagnstekjuskattinn eigi að nota til að fella niður skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, en það var það sem hæstv. fjmrh. var að segja hérna áðan. Er Alþfl. búinn að samþykkja þessa stefnu? Eða heldur Alþfl. við þá stefnu sem við vorum sammála um á síðasta kjörtímabili, að nota fjármagnstekjuskattinn til þess að jafna lífskjörin, til þess að styrkja m.a. barnabætur, til þess að grípa til ýmissa félagslegra ráðstafana og til þess, eins og horfir núna, að koma í veg fyrir að skólagjöld verði lögð á. Því að auðvitað er það nauðsynlegt þegar menn segja ,,engin skólagjöld`` að þeir bendi á hvað á að koma í staðinn. Ég bendi þar á skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og ég bendi þar m.a. á það, sem hefur komið fram áður, að lagður verði á fjármagnstekjuskattur. Og ég vil spyrja forustumenn Alþfl. sem hér eru í salnum: Hafa þeir skipt um stefnu að því er þetta varðar? Á sem sagt að nota fjármagnstekjuskattinn til að lækka eignarskattana í landinu en ekki til þess að koma til móts við þá láglaunamenn sem þurfa á skattalagfæringum að halda?
    Þessar tvær spurningar, annars vegar til hæstv. fjmrh., varðandi Sjálfstfl. sérstaklega, og hins vegar til alþýðuflokksmanna varðandi afstöðuna til málsins yfirleitt, vildi ég bera fram.
    Ég vil svo taka undir lokaorð hæstv. fjmrh. Hann ráðlagði þingmönnum að lesa þingtíðindi með ræðum hæstv. núv. fjmrh. um skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég vil eindregið ráðleggja mönnum að gera það. Nú fer í hönd skammdegi og það er oft á þeim tíma sem menn þurfa að gera sérstakar ráðstafanir til að létta sér upp. Þá er ágætt að grípa til þingtíðindanna og lesa þessar ræður hæstv. núv. fjmrh. Það er í raun og veru í fyrsta og eina skiptið sem honum tekst að vera afar skemmtilegur á mörgum blaðsíðum þó að það komi að vísu ekki í ljós hvað hann er skemmtilegur fyrr en nokkrum missirum eftir að flutti ræðurnar.