Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 15:02:00 (765)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég er nú kominn hér upp í ræðustól með skammdegislesninguna. Ég mun samt reyna að taka tillit til orða hæstv. fjmrh. hér áðan og lesa þetta ekki allt saman en hérna eru ræður sjálfstæðismanna við afgreiðslu þessa máls haustið 1989 og uppistaðan í þessu eru ræður þriggja núv, ráðherra, hæstv. fjmrh., hæstv. sjútvrh. og hæstv. samgöngu- og landbrh. Í þeim voru æði mörg orð látin falla. En, virðulegi forseti, ég mun ekki að sinni hefja mikinn lestur upp úr þessu. Ég minnist að vísu skemmtilegra stunda í efri deild þar sem hæstv. núverandi forseti þings las lengi kvölds upp úr ágætri bók, Raddir vorsins þagna, ef ég man rétt, sem var okkur öllum til mikillar ánægju. En ég mun nú ekki feta í þau fótspor hér. ( SvG: Var það um skrifstofu- og verslunarhús?) Nei, það var ekki um skrifstofu- og verslunarhús en ef ég man rétt þá var það í umræðu um umhverfisráðuneyti.
    Ég ætla í fyrsta lagi að benda á það að hæstv. núv. fjmrh. leggur til að sérstakur skattur skuli nema 1,5% af skattstofni. Ég ætla eilítið að vitna hér í ummæli hæstv. núv. fjmrh. í þessum umræðum. Í lok mjög langrar ræðu segir hann orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þess vegna höfum við (þ.e. sjálfstæðismenn) á sérstöku skjali, sem er þskj. 250, leyft okkur að flytja brtt. sem er þess efnis að í stað 1,5% komi 1,1%. Í nál. lýsum við jafnframt því yfir að verði þessi brtt. ekki samþykkt leggjum við til að skatturinn verði aflagður og munum greiða atkvæði gegn frv. eins og það kemur fram frá hæstv. ríkisstjórn.``
    Þar sem kemur fram að ef ætti að hafa skattinn 1,5%, eins og hæstv. fjmrh. leggur til í dag, sé það þvílík ósvinna að þeir muni leggja til að skatturinn verði afnuminn. Og þá var ekki rætt um neina ábyrgð í þá veru að það yrði að sjá fyrir hvað kæmi í staðinn. Þá var allt í lagi að afnema skattinn bara fyrirvaralaust. ( ÓÞÞ: Ljótt er ef satt er.) Ja, þetta stendur í þingtíðindum, ég rengi það ekki.
    Því miður er þetta bara eitt af mörgum dæmum um afstöðu Sjálfstfl., annars vegar í stjórnarandstöðu og hins vegar þegar þeir eru komnir í stjórn. Það var afar fróðleg lesning að lesa yfir þessa þykku bók í gær sem ég er með hér í höndunum. Og þar komu sjálfstæðismenn víða við. Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í hv. 8. þm. Reykv. og þingflokksformann Sjálfstfl. því að í umræðum sínum um þennan sérstaka skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði kom hann að ekknaskattinum margrædda og segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Allir þingmenn Sjálfstfl. hér í neðri deild lögðu í gær fram frv. um að hrinda þeirri ósvinnu sem ríkisstjórnarmeirihlutinn undir forustu fjmrh. knúði fram í fyrra og varðar hækkun eignarskatta, ekknaskattinn svokallaða. Það hafa legið í loftinu einhver óljós fyrirheit frá ríkisstjórninni um að lækka eigi þennan skatt, hinn svokallaða ekknaskatt fjmrh., en það bólar ekkert á slíkum frv. hér. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða af hálfu stjórnarandstöðunnar um að flytja frv. til þess að afmá þann ljóta minnisvarða sem ríkisstjórnin og hennar meiri hluti hér á Alþingi reistu sér með þeim skatti.``
    Ég vil leyfa mér að vitna í ummæli hv. varaþm. Sjálfstfl. hér í Reykv. Þuríðar Pálsdóttur, í umræðunni um fjárlagafrumvarpið, þar sem hún minnti hæstv. fjmrh. á að það bólaði ekkert á afnámi þessa skatts. Það var ekkert um það á þessum tíma að það þyrfti að koma til sérstök aðlögun og leiðrétting á eignarsköttum í heild til þess að hægt væri að flytja frv. um afnám þessa skatts. Þetta er annað dæmi um vinnubrögð Sjálfstfl., annars vegar í stjórn og hins vegar í stjórnarandstöðu. Ég ætla hér meðan ég er að telja þau dæmi upp að nefna þriðja dæmið sem hægt er að vísa til í þingtíðindum, þar sem urðu hatrammar umræður hér í þingi um lækkun á gjaldi því sem renna á til íslensku þjóðkirkjunnar. Þar féllu m.a. af hálfu hæstv. núv. sjútvrh. afar þung orð hér í þingsal um þetta mál, svo þung að við setningu kirkjuþings nú nýverið sá biskup Íslands sig knúinn til þess að minna þann þingmann, sem þessi orð lét falla og nú er ráðherra kirkjumála á Íslandi, á þau ummæli. Þetta er þriðja dæmið um það hvernig Sjálfsfl. hagar sínum málflutningi, annars vegar í stjórnarandstöðu og hins vegar í stjórn.
    Ég held að það sé alveg rétt sem hér kom fram áðan hjá hv. 9. þm. Reykv. að það munu varla finnast dæmi um það í íslenskri stjórnmálasögu að einn stjórnmálaflokkur sé eins ábyrgðarlaus í sínum málflutningi þegar að því kemur að sitja í stjórnarandstöðu og Sjálfstfl. Ég ætla að nefna til viðbótar án þess að fara um það mörgum orðum þann mikla fortíðarvandaáróður sem uppi hefur verið hafður af núv. ríkisstjórn og sérstaklega hæstv. forsrh. Hann nefndi þar sérstaklega flugstöðina í Keflavík sem var byggð öðru fremur á ábyrgð Sjálfstfl. og sem sjálfstæðismenn á Reykjanesi notuðu sem sérstakt áróðursatriði fyrir kosningarnar, ég man ekki alveg fyrir hvaða kosningar það var en það skiptir ekki öllu máli. Nú er reynt að koma þessu yfir á stjórnarandstöðuna þegar rætt er um fortíðarvanda og hann ekkert skilgreindur nánar. Því miður eru þetta vinnubrögð Sjálfstfl. í hnotskurn og um það getum við lesið hér í þingtíðindum aftur og aftur.
    Virðulegi forseti, ég ætla að koma síðan örfáum orðum að því þegar þetta frv. var til umræðu á síðasta þingi. Þá vil ég líka nefna það að haustið 1989, þegar þessi þykka bók hér var samin, settu sjálfstæðismenn á langar ræður um hvað þessi skattur væri íþyngjandi fyrir landsbyggðarverslunina og vitnuðu þar í álit stjórnskipaðrar nefndar. Efnislega get ég tekið undir það að þessi skattur er e.t.v. meira íþyngjandi fyrir landsbyggðarverslun og fyrir skrifstofuhúsnæði á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.
    Af því ég er kominn að efnislegri umfjöllun get ég líka nefnt það að með tilliti til ásóknar í að byggja verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, þá gefur það ekki tilefni til þess að þessi skattur sé aflagður. Ef menn hafa einhvern tíma ætlað sér að beita honum sem hagstjórnartæki í því sambandi væri kannski miklu eðlilegra að á því svæði þar sem þessi geysilega ásókn hefur verið í byggingu á skrifstofu- og verslunarhúsnæði yrði hann frekar hækkaður en lækkaður. Ég nefni í því sambandi að nú eru enn uppi áform um að byggja skrifstofu- og verslunarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á nýju byggingarsvæði í landi Kópavogskaupstaðar svo hekturum nemur. Og þar mundu fleiri en allir Vestfirðingar geta rúmast eins og rætt var um hér í ræðu áður.
    En ég ætla að víkja aðeins að umræðum um þennan skatt frá haustþinginu 1990 og það er frá efri deild. Virðulegi forseti, ég vil leyfa mér að vitna hér í ræðu hæstv. núv. samg.- og landbrh. Ég kem hér niður í ræðu hans þar sem hann segir:
    ,,Hér er sem sagt um enn einn skattinn að ræða, herra forseti, sem bitnar þyngra á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu vegna minni veltu þar, vegna þess að verslunar- og skrifstofuhúsnæði er víða um land byggt við vöxt og vegna þess að velta þar hefur dregist saman. Ég vek athygli á þessu um leið og ég minni á að verslun í dreifbýli á mjög undir högg að sækja. Gjaldþrot hafa verið tíð, ekki einungis hjá einkafyrirtækjum heldur

einnig hjá kaupfélögum víðs vegar um landið þannig að sums staðar er svo komið að verslun hefur með öllu lagst niður á smærri stöðum og annars staðar er spurning hvort nokkur fáist til þess að taka við versluninni þar sem hún stendur mjög höllum fæti.
    Ég vil að þetta komi fram. Ég geri ekki ráð fyrir að þessar upplýsingar skipti neinu máli. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja þennan skatt á og lætur þá skeika að sköpuðu hvar hann kemur þyngst niður.``
    En síðan kemur að atkvæðagreiðslu og þá, virðulegi forseti, vil ég leyfa mér að vitna hér aftur í þingtíðindi. Þá fannst hæstv. núv. landb.- og samgrh. ástæða til þess að gera sérstaka grein fyrir atkvæði sínu. Og hér stendur um atkvæðagreiðslu Halldórs Blöndals, með leyfi forseta:
    ,,Herra forseti. Þetta er einn þeirra skatta sem þyngra leggjast á dreifbýli en þéttbýli. Ég segi nei.``
    Og því spyr ég hæstv. samg.- og landbrh. hvort við megum þá ekki treysta því að nú við afgreiðslu þessa máls sé hann sömu skoðunar og segi aftur nei við þessum skatti, eins og hann rökstuddi sjálfur að legðist þyngra á dreifbýli en þéttbýli.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég vil að vísu að lokum beina þeirri spurningu til hv. 5. þm. Reykv., sem ég þóttist taka eftir áðan að væri búinn að kveðja sér hljóðs, ég sé að hann er ekki í salnum núna, en ég vil beina þeirri spurningu til hans hvort hans afstaða til skattsins sé ekki óbreytt. En við lestur þessarar bókar kemur fram að það er sjálfsagt enginn maður sem hefur af meiri ákafa mótmælt álagningu þessa skatts.