Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 15:16:00 (766)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hljóp hér út úr salnum á miklum hraða og ég held að við verðum að bíða hans. Ég hyggst leggja spurningar fyrir hann og ég reikna með að hann hafi verið kallaður í símann og mun bíða þangað til hann sýnir sig. ( Forseti: Það hefur áreiðanlega verið eitthvað mjög áríðandi því hann þurfti að fara fram.)
    Hæstv. fjmrh. gengur nú í salinn og ég fagna honum. Ég þurfti nefnilega sjálf að bregða mér frá áðan og missti þar af leiðandi af upphafi ræðu hæstv. fjmrh. Því kann að vera að eitthvað af því sem ég hyggst spyrja hann um hafi komið fram í ræðu hans, en það verður þá að hafa það.
    Eins og fram hefur komið í máli fyrri ræðumanna, er hér til umræðu gamall kunningi, eins og hæstv. fjmrh. kallaði það sjálfur í sínum ræðum árið 1989. Kvennalistinn hefur í gegnum árin stutt þetta mál. Við teljum þetta ekki verri skattstofn en hvern annan. Við áskiljum okkur hins vegar rétt til þess að skoða þetta mál, nú eins og endranær. Það sem vekur spurningar hjá mér sem þingmanni Reykjavíkur er ástandið á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum að hér hefur verið fjárfest gífurlega í verslunarhúsnæði og hér mikið af húsnæði sem stendur autt. Mér er sérstaklega ofarlega í huga vandi þeirra sem eiga slíkt húsnæði í miðbæ Reykjavíkur og verða að greiða af því há fasteignagjöld en eiga í erfiðleikum með að leigja eða nýta það húsnæði sem þeir eiga. Það kemur fram að þessi skattur leggst auðvitað fyrst og fremst á húsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu þó að þessi skattur kunni að valda fólki úti á landi meiri þyngslum. Mig langar í fyrsta lagi til að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvernig gengið hafi að innheimta þennan skatt. Hver er reynslan af þessum skatti? Hvernig hefur gengið að innheimta hann á undanförnum árum? Hver eru skilin? Og í öðru lagi: Hvað nær hann til margra greiðenda?
    Ég hef eins og fleiri þingmenn farið í gegnum umræður um þetta mál. Þetta er mikil lesning og það er áreiðanlegt að tölur um greiðendur sveiflast bæði upp og niður, en ég vildi gjarnan fá að vita hversu margir það eru sem greiða þennan skatt.

    Eins og hér hefur komið fram hefur Sjálfstfl. gagnrýnt þennan skatt mjög harðlega og vissulega má spyrja spurninga hvað hann varðar, hversu réttlátur hann er og hversu rétt það er að afmarka skatta á þennan hátt, en eins og ástand ríkissjóðs er nú sé ég ekki ástæðu til að fella þennan skatt niður.
    Mig langar til þess að vitna aðeins í ræðu núv. hæstv. fjmrh. frá árinu 1989 þar sem hann rifjar upp sögu þessa skatts. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Saga þessa skatts á síðustu árum er sú að hann var 1,1%, hækkaði síðan í meðferð þessarar ríkisstjórnar``, og þarna á hann við síðustu ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, ,,í 2,2%, ef ég man rétt, en var lækkaður síðan aftur á miðju ári áður en hann var greiddur niður í 1,5%. Og nú er gert ráð fyrir því að hann verði sá sami á næsta ári. Ég spyr hæstv. fjmrh., finnst ekki hæstv. fjmrh. það skjóta nokkuð skökku við þegar það er viðurkennt af æðsta manni þjóðarinnar, hæstv. forsrh., að erfiðleikarnir séu mestir í þeim greinum sem hér er verið að skattleggja sérstaklega? Er hæstv. fjmrh. sammála því sem hæstv. forsrh. sagði? Ef hann er sammála, finnst honum það rökrétt að halda áfram þessari skattlagningu?``
    Ég vil með þessum orðum taka undir þann málflutning sem hér hefur komið fram, að menn eiga að vera ábyrgir orða sinna og gerða og það er heldur leiðinlegt til afspurnar að sjá hvernig Sjálfstfl. hagar sér í stjórnarandstöðu en heldur svo uppteknum hætti annarra stjórnvalda þegar hann er sestur í ráðherrastólana.
    Hér var að berast til mín bréf frá samstarfsráði verslunarinnar þar sem þessum skatti er mótmælt. Ég sé ekki sérstaka ástæðu til að taka undir það en ítreka það sem ég sagði áðan, að við þingkonur Kvennalistans áskiljum okkur allan rétt til þess að skoða þetta mál þegar fram í sækir.