Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 15:27:00 (768)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að standa upp til þess að ræða sérstaklega fortíðarvanda Sjálfstfl. hér á Alþingi, en mér heyrist á öllu að ástæða væri til að skipa í það sérstaka nefnd því að það virðist standa Sjálfstfl. mjög fyrir þrifum í að koma fram málum sínum, hvernig þeir hafa talað fyrir stuttu hér á Alþingi. Þetta er að sjálfsögðu þeirra mál og ekkert við því að gera.
    Hér er hins vegar til umræðu skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem er gallaður að mörgu leyti. Hitt er svo annað mál að það þarf að finna aðra skattstofna í staðinn eigi að leggja hann niður og það hefur vafist fyrir mörgum á undanförnum árum og þess vegna hefur þessi skattur orðið mjög lífseigur og þurft að framlengja hann á hverju ári.
    Við sem í stjórnarandstöðu störfum heyrum að um þennan skatt er ekki samstaða hjá stjórnarliðum. Einstakir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar koma hér upp og lýsa því yfir að þeir séu andvígir þessum skatti.
    Því hlýt ég að spyrja hæstv. fjmrh.: Er meiri hluti fyrir þessum skatti hjá stuðningsmönnum stjórnarflokkanna eða gerir hann ráð fyrir að fulltrúar stjórnarandstöðunnar muni koma til liðs við ríkisstjórnina í þessu máli? Treystir hann á það? Það er að heyra á stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar að þeir vilji vera sjálfum sér samkvæmir og nú fyrir skömmu kom hér upp þingmaður og lýsti því yfir að hann a.m.k. ætlaði að vera sjálfum sér samkvæmur og standa við öll orðin sem hann hafði látið frá sér fara í umræðum á Alþingi. Ég vænti þess að hann tali fyrir munn fleiri sem vilji gera það og þar af leiðandi má álíta að alls ekki sé víst að fyrir þessu máli sé meiri hluti hér á Alþingi nema þá stjórnarandstaðan styðji það. Ég er ekkert að útiloka það, hæstv. fjmrh., að til greina komi að styðja þetta mál, en það er nú betra, ef reiknað er með að leita þurfi stuðnings stjórnarandstöðunnar í þessu máli, að um það sé talað. og þá getur það verið til samninga í öðrum málum. Við viljum að sjálfsögðu, ef ríkisstjórnin er í þessari stöðu, hafa áhrif á skattastefnu hennar að öðru leyti. Við styðjum það t.d. ekki að lagður sé sérstakur skattur á hjón með miklar tekjur ef þau eiga mörg börn. Okkur finnst það ekki vera góður skattstofn að leggja sérstaklega skatta á fólk sem á mikið af börnum og ég get ekki stutt það. Við viljum því gjarnan fá upplýsingar um það hvort meiri hluti er fyrir þessu máli innan stjórnarliðsins.
    Að öðru leyti vildi ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvenær fáum við að sjá önnur tekjuöflunarfrumvörp sem tengjast fjárlögunum? Hann gat þess hér í umræðum í gær að ekki væri mögulegt að upplýsa með hvaða hætti hann hygðist leggja til að tekjuskatturinn yrði hækkaður og var ekki tilbúinn að svara því hvort það yrði gert með því að hækka hann sérstaklega á sjómönnum, barnmörgum hátekjufjölskyldum eða fjölskyldum sem hefðu verið sérstaklega að berjast í því að koma sér upp eigin húsnæði, eins og hugmyndir ríkisstjórnarinnar benda til þegar við lesum fjárlagafrv. Hann var ekki tilbúinn að upplýsa það. Gott og vel. En getur hæstv. fjmrh. upplýst hvenær við fáum að sjá þessi frv.? Ég vænti þess að til þess sé ætlast af Alþingi að þau verði afgreidd samhliða fjárlögunum. Getur fjmrh. upplýst hvenær við fáum að sjá frumvörp hér á Alþingi sem gera ráð fyrir sérstakri

skattlagningu á sjávarútveginn í miklum erfiðleikum hans núna? Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telja það vera helsta bjargræðið fyrir sjávarútveginn að skattleggja hann sérstaklega og er með fádæmum að hlusta á þann málflutning. Hvenær fáum við að sjá frv. sem gerir ráð fyrir því?
    Síðan er gert ráð fyrir margvíslegri annarri skattheimtu sem gerir það að verkum að það þarf lagabreytingar til. Ekkert af þessu hefur séð dagsins ljós hér á Alþingi. Svo eru menn að hafa miklar áhyggjur af því í stjórnarliðinu að hér gangi lítið. Það er alveg rétt. Hér gengur afar lítið. En það er þá a.m.k. nauðsynlegt, ef á að vera nokkur von til þess að mál klárist á næstunni, að menn fari að sjá þessi mál í frumvarpsformi, sérstaklega með tilliti til þess að ekki er hægt að fá upplýsingar um það hvernig þessi væntanlegu frumvörp muni líta út. Ég hvet því hæstv. fjmrh. til að upplýsa þingið um það hvenær hann muni ljúka við gerð þessara frumvarpa eða hvort búið er að ljúka þessu öllu saman og hvort standi á afgreiðslu stjórnarflokkanna í þessum málum. Hann gæti þá e.t.v. upplýst hvort það sé þá með sama hætti og skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, að það sé allsendis óvíst hvort nokkur meiri hluti er fyrir þessum málum hjá stjórnarliðinu. Nú hefur verið upplýst að ákveðnir aðilar styðji ekki þennan skatt. Getur e.t.v. verið að ekki sé meirihlutastuðningur innan stjórnarflokkanna fyrir nokkurri skattahækkun af neinu tagi? Það væri mjög fróðlegt að fá þetta upplýst þannig að við sem þurfum að taka afstöðu til mála á næstu vikum, sem við verðum að sjálfsögðu að gera og vanda okkur við það með sama hætti og ég veit að stjórnarliðar þurfa að vanda sig í afstöðu sinni, vitum hvers er að vænta frá hæstv. ríkisstjórn.