Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 15:35:00 (769)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hv. alþm. fyrir þátttöku þeirra í umræðunni um þennan gamla kunningja sem svo er nefndur. Ég fékk fyrirspurn frá hv. 9. þm. Reykv. um það hvort athugasemdir hefðu komið í þingflokki sjálfstæðismanna þegar málið var þar til umræðu. Því hefur þegar verið svarað af öðrum hv. þm., hv. 5. þm. Reykv. Inga Birni Albertssyni, sem gerði á þingflokksfundi sérstaka athugasemd við það að frv. yrði flutt og lýsti yfir andstöðu sinni við það. ( Gripið fram í: Var hann sá eini?) Hann var sá eini, já, sem gerði það. Hins vegar þarf það ekki að koma neinum á óvart að menn hafa horn í síðu þessa skatts og kem ég síðar að því.
     Ég kemst ekki hjá því, þó að það sé nokkuð erfitt fyrir mig í þessari stöðu, að þakka yfirlýsingar hv. þm. sem voru á þá leið að hann og hans flokkur mundu ugglaust styðja frv. eins og hans flokkur hefur reyndar gert allt frá því að þessi skattur var fundinn upp 1979 um haustið. ( Gripið fram í: Við fundum hann upp.) Já, já, og eins og hér kemur fram í frammíkalli hjá hv. þm. á hann og fleiri sem sátu í þeirri ríkisstjórn höfundarréttinn að þessum skatti. Reyndar fylgdi þessum skatti, af því að hér hefur verið rætt nokkuð um söguna, annað gjald, nýbyggingargjald svokallað, og satt að segja voru ákveðin rök á þeim tíma fyrir því að leggja á þessa tvo skatta haustið 1979, það voru neikvæðir vextir. Breytingar höfðu þá ekki orðið á vöxtum þannig að því mátti halda fram að eigendur slíkra húsakynna hefðu hagnaðst á verðbólgunni með því að taka ódýr lán og byggja fyrir þau og á því að tilfærsla varð á eignum frá sparifjáreigendum til þeirra sem höfðu aðgang að lánsfjármagninu. Þetta var meginröksemdin, og það veit ég að hv. stjórnarandstæðingar muna, þegar þessi mál voru til umræðu á sínum tíma.
    Ég rifja það enn fremur upp að þessi skattur var ekki aflagður á árunum 1983--1988 þegar Sjálfstfl. átti ágætt samstarf við Framsfl. framan af og síðan við Framsfl. og Alþfl. síðasta árið. Þetta allt saman breytir hins vegar ekki því að þessi skattur er afar vondur.

Allar röksemdir hafa komið fram í umræðum á undanförnum árum og ég hygg að þær séu bestar hjá þeim sem hér stendur. Ég hika ekkert við að segja það og veit að hér hafa menn skemmt sér við að lesa þær ræður. Ég þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir að benda þingheimi á þennan lestur og bæta því síðan við að það sé húmor í þeim ræðum. Það má segja að það sé út af fyrir sig fallega gert að benda mönnum í skammdeginu á lesningu sem er þeim holl.
    En ég ætla að bæta því við að núv. ríkisstjórn ætlar að sitja út kjörtímabilið þannig að við höfum enn þá nokkurn tíma til ráðstöfunar til að gera breytingar á skattalögunum, skattkerfinu, og eins og fram hefur komið þá stendur til að fella þennan skatt brott. Það verður gert þegar sú veigamikla breyting á sér stað að samræma eignarskatta og eignatekjuskatta eins og það er orðað m.a. í hvítbókinni.
    Ég vil enn fremur benda á að þegar rætt er um skatta er hugmyndin, og hún kemur fram í fjárlagafrumvarpinu, að fella brott svokallað jöfnunargjald sem er annar skattur sem ég hamaðist gegn á síðasta þingi og þinginu þar áður. Það er líka rétt sem fram hefur komið hjá hv. 1. þm. Austurl. að það stendur til að ná inn meiri tekjum, einum milljarði, úr tekjuskattskerfinu til þess að afla sömu tekna og áætlaðar voru á yfirstandandi ári þegar jöfnunargjaldið fellur niður. Því miður get ég ekki sagt nákvæmlega fyrir um það hvenær frumvörp eða frumvarp þess efnis verður tilbúið. Ég geri mér hins vegar vonir um það að hægt verði að leggja það fram í þessum mánuði. Ég minni á að oft hefur það komið fyrir að svipuð frv. hafa verið lögð fram síðar á haustþingi, jafnvel eftir að vika er liðin af desembermánuði. Og ég veit að hv. þm. man eftir slíkum tilvikum.
    Hv. þm. spurðist enn fremur fyrir um breytingar á lögum vegna þess að það er áætlað samkvæmt fjárlögum að fjármagna Hafrannsóknastofnun með fjármunum sem hingað til hefðu samkvæmt lögum átt að renna í Hagræðingarsjóð. Það frv. er nú til athugunar hjá stjórnarflokkunum, hefur verið rætt í ríkisstjórninni, og ég vænti þess að það frv. komi fram á hinu háa Alþingi á næstu vikum.
    Því miður get ég ekki svarað fsp. hv. 18. þm. Reykv. um það hvernig tekist hefur til um innheimtu þessa skatts. Ég hygg að sú innheimta sé ekkert öðruvísi en gera má ráð fyrir. Frá skattalegu sjónarmiði má segja að það sé tiltölulega auðvelt að heimta skattinn inn því að á bak við hann er fasteign og lögtaksréttur í fasteigninni þannig að það er tiltölulega auðvelt fyrir þá sem þurfa að ná þessum skatttekjum að ná til þeirra, auðveldara en t.d. um tekjuskatta og skatta sem ekki eru bundnir við tiltekin, föst verðmæti.
    Ég vona, virðulegi forseti, að ég hafi skýrt hér nokkur atriði til viðbótar og svarað þeim fyrirspurnum sem til mín var beint. Ég hef ekki rannsakað það alveg ofan í kjölinn hvort allir aðrir stjórnarþingmenn en sá sem hér talaði fyrr í dag muni styðja þetta frv. en hins vegar hef ég yfirlýsingar stjórnarandstæðinga um það að þeir muni styðja frv. þannig að ég tel ekki að það sé í stórkostlegri hættu.