Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 15:42:00 (770)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Hér er komin upp nokkuð sérkennileg staða. Hún er þannig að ríkisstjórnin hefur lagt fram tvö skattamál í þinginu í haust. Annað er frv. til laga um framlengingu skattsins á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Til þess að koma því máli í gegn treystir ríkisstjórnin á stjórnarandstöðuna, m.a. á grundvelli þess að við alþýðubandalagsmenn höfum alltaf stutt þetta mál og ég man ekki betur en Kvennalistinn hafi ævinlega gert það og sömuleiðis Framsfl. þann tíma sem þessi skattur hefur verið lagður á. En ríkisstjórnin treystir á stjórnarandstöðuna í þessu máli af því hún hefur ekki meiri hluta fyrir málinu í sínum hópi. Væri náttúrlega eðlilegast fyrir ríkisstjórnina þá að segja af sér, það væri náttúrlega langhreinlegast vegna þess að stjórnin ræður ekkert við málið.

    Hitt skattamálið sem ríkisstjórnin hefur flutt er um að leggja á skólagjöld. Það hefur komið fram að verulegur hluti þingflokks Alþfl. er á móti skólagjöldunum. Það væri náttúrulega langeðlilegast fyrir ríkisstjórnina þá að hætta við það mál og/eða segja af sér vegna þess að hún kemur engum málum frá sér af neinu tagi.
    Það hefur einnig verið upplýst hérna að þó að ríkisstjórnin hafi tekið um það ákvörðun í ágúst að hækka skatta af ýmsu tagi, þá eru frumvörpin ekki enn þá komin saman. Örugglega vegna þess að það eru alls konar menn í þingflokkum stjórnarliðsins sem eru á móti þeim frumvörpum sem liggja fyrir. Með öðrum orðum ræður stjórnin ekki við það að koma hér fram í þinginu í tillöguformi --- hvað þá heldur til afgreiðslu --- undirstöðumálum ríkisfjármálanna fyrir árið 1992 og framvegis. Því að ein stærsta fréttin í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan var sú að þessi stjórn, sem ekki ræður við neitt núna, þykist ætla að sitja allt kjörtímabilið. Ég hef aldrei heyrt aðra eins vitleysu því að það er auðvitað bersýnilegt að stjórn, sem getur ekki setið með almennilegum hætti í örfáa mánuði, situr auðvitað ekki allt kjörtímabilið. Það er náttúrlega alveg augljóst mál. Hún ætti þegar í stað að segja af sér úr því hún getur ekki einu sinni komið áleiðis tæknilegu frumvarpi eins og þessu öðruvísi en að treysta á stjórnarandstöðuna.
    Ég vil segja um afstöðu mína til þessa frv. um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði að auðvitað mun ég taka afstöðu til þess máls fyrir mitt leyti burt séð frá öðrum skattamálum. Ég fer ekki að versla við þessa stjórn um eitt eða neitt. Það skal vera alveg skýrt af minni hálfu. Ég geri það ekki. Ég treysti henni ekki fyrir því. En hitt stendur svo eftir, eftir þessa umræðu, að Alþfl. hefur ekki svarað. Ég lagði þá spurningu fyrir Alþfl. hvort hann væri þeirrar skoðunar að það ætti að nota fjármagnstekjuskattana til þess að lækka eignarskatta, en það var það sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan. Það er auðvitað mjög merkilegt ef fjármagnstekju- og vaxtaskattarnir verða notaðir til að lækka skatta á stóreignamönnum í landinu eins og hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir. Það er jafnaðarstefna sem við alþýðubandalagsmenn teljum a.m.k. afar undarlega.
    Ég endurtek það sem fram kom í ræðu minni áðan að í síðustu ríkisstjórn var full samstaða um það með öllum stjórnarflokkunum að nota fjármagnstekjuskatta, ef þeir yrðu lagðir á, til að jafna lífskjörin í landinu en ekki til að gera þau ójafnari, m.a. með því að létta sköttum af stóreignamönnum og hátekjumönnum í landinu eins og fjmrh. ætlar að gera, þannig auðvitað trúr stefnu Sjálfstfl. sem leggur alltaf fyrst áherslu á það að hygla þessu liði sem stendur undir hinum daglega rekstri Sjálfstfl. frá degi til dags.