Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:16:00 (781)

     Karl Steinar Guðnason :
     Virðulegi forseti. Í tilefni af þessari umræðu um kjaramál vil ég taka fram að einstaka hreyfingar á sviði samningaviðræðna eru ekki tilefni til upphlaupa. Menn skyldu átta sig á því að við gerð kjarasamninga gerast ýmsir hlutir og það er hefð sem ég hef oft upplifað að það er erfitt til að byrja með að ná kjarasamningum. Ég vona að það takist að ná saman endum og það mun vissulega gerast.

    Rætt var um þjóðarsátt og árangur hennar sem hefur vissulega orðið gífurlega mikill. Ég vil benda á það að þjóðarsátt um kjaramál varð ekki til á ríkisstjórnarborði. Hún varð til vegna fólksins sjálfs, af fólkinu sjálfu, vegna krafna verkalýðsfélaganna og fólksins sem í þeim er um það að ná sátt um kjörin, um það að ná endum saman, um það að reyna að ná stöðugleika í efnahagslífinu. Einmitt sá hugur er enn uppi hjá fólki í landinu, að svo verði. Hvert einasta verkalýðsfélag sem hefur ályktað um þjóðarsátt og hugmyndir um hana, hefur ályktað um að haldið verði áfram á sömu braut, vissulega að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Og fólkið sem gengur atvinnulaust víða um land, sums staðar meira en annars staðar, gerir sér grein fyrir því að sá stöðugleiki sem ríkt hefur undanfarið hefur fært launafólki betri kjör en áður, sem vissulega eru samt of rýr. Það krefst þess að haldið verði áfram á sömu braut. Hér skulu menn ekki koma upp og hæla ríkisstjórnum út af þessum hlutum. Þær ríkisstjórnir sem standa í vegi fyrir slíkri þjóðarsátt verða hæddar og fyrirlitnar og þeirri ríkisstjórn sem síðast var hefði hlotið þau örlög einnig.
    Ég vona að sátt náist og það mun nást sátt. Einstaka upphlaup munu ekki verða til að hjálpa til í þessum efnum.