Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:24:00 (783)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. heilbrrh. að verulegur árangur hefur orðið í kjaramálum að undanförnu eins og lýst er nánar í 5. lið þess skjals sem hér er til umræðu og ætla ég ekki að endurtaka það.
    Hv. 1. þm. Austurl. beindi til mín þeirri spurningu hvað ríkisstjórnin hygðist gera varðandi samninga á hinum almenna vinnumarkaði. Ég endurtek einungis það sem ég hef sagt áður fyrir hönd hæstv. ríkisstjórnar að við erum tilbúnir til þess ásamt þeim að leita allra leiða til að draga úr lánsfjárþörf ríkisins til að freista þess að ná niður vöxtunum, en það er það sem skiptir afar miklu máli til að koma atvinnulífinu nægilega vel af stað aftur. Þar vona ég að ég og hv. 1. þm. Austurl. séum algjörlega sammála.
    Hér hafa einnig orðið umræður um framleiðni. Ég vísa einungis til skjalsins, frá 10. gr. og áfram. Þar er því lýst nákvæmlega hvernig fara á að. Ég vil einungis segja það og endurtaka --- og mæli í fullri alvöru --- að það sem skiptir máli í þeim kjarasamningum sem í hönd fara er að þeir sem eru verst settir, þeir sem lökust hafa kjörin, haldi sínu. Besta tryggingin fyrir því er stöðugleikinn. Það er hann sem skiptir öllu máli fyrir þennan hóp því að hann á verst með að lifa það af ef verðbólgan kemur hérna við á bæ á ný.
    Ég tek enn fremur fram að kröfunni um að draga þetta skjal til baka vísa ég algjörlega á bug. Það er fullur réttur allra stéttarfélaga að leggja fram kröfur í samningum og það er reyndar skylda mín sem fjmrh. og viðsemjanda þessara aðila að ég leggi fram mín sjónarmið til umræðu og viðræðna inn í þetta púkk. Það höfum við gert, staðið við, með því að leggja fram þetta skjal og ég staðhæfi það og skal standa við það að þrátt fyrir kröfugerðir af hálfu stéttarfélaga og þrátt fyrir þetta skjal sem hér liggur fyrir muni kjarasamningar fara fram með vinsemd og virðingu.