Samgöngumál á Austurlandi

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:39:00 (789)

     Egill Jónsson :
     Virðulegi forseti. Í sambandi við þessa umræðu fagna ég sérstaklega tvennu, annars vegar hvað þingbræður mínir á Austurlandi eru orðnir siðavandir og hins vegar því að hæstv. samgrh. hefur lýst áhuga á að flýta vel upp byggðum vegi á milli okkar kjördæma. En rétt til þess að segja svolítið meira frá þessum málum finnst nú líka mega koma fram að hæstv. samgrh. hefur býsna mikið umburðarlyndi því að enn er að störfum á Austurlandi til þess að raða þar niður verkefnum í vegamálum pólitísk nefnd hæstv. fyrrv. samgrh. Samgönguráðherrar hafa nefnilega leyft sér ýmislegt gagnvart Austurlandi. Hæstv. fyrrv. samgrh. skipaði pólitíska nefnd tveggja framsóknarmanna og eins alþýðubandalagsmanns, án þess að ráðgast um það við samtök á Austurlandi, til þess að taka ákvarðanir

um það hvar jarðgöng skyldu liggja. Sú nefnd kemur sjálfsagt til með að skila áliti von bráðar.
    Ég endurtek það sem ég sagði áðan og er ekki undrunarefni þó að ég fagni orðum hæstv. samgrh. því að sameiginlega fluttum við fyrir mörgum árum þáltill. á Alþingi um að tengja kjördæmi okkar saman með vel uppbornum vegi frá Egilsstöðum norður í Mývatnssveit. Ég vek athygli á því að frá vegáætlun eða drögum að langtímaáætlun í vegagerð var gengið þannig að tvö heil ár skilja í framkvæmdum veggöng á Austurlandi og Vestfjörðum og það er vel hægt að byggja þennan veg norður til Mývatnssveitar á þeim tíma og þótt skemmri væri.