Samgöngumál á Austurlandi

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:53:00 (794)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Austf. er undrandi á að ég skuli tala um vegamál út frá ferðaþjónustu á fundi þar sem fjallað er um ferðaþjónustu. Ég hefði kannski átt að tala um sjávarútvegsmál þar í staðinn eða eitthvað þvílíkt. Umræðurnar hér snúast á þann veg að það er eins og þeir stjórnarandstæðingar, flestir hverjir, sem tekið hafa til máls þekki ekki vegáætlun. Í vegáætlun er gert ráð fyrir að ljúka framkvæmdum við Vestfjarðagöng á árinu 1995. Síðan er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir við göng fyrir austan sumarið 1998. Það er með öðrum orðum þriggja ára hlé.
    Ég leyfði mér að segja það á fundi fyrir norðan að ég vildi beita mér fyrir því að þetta hlé yrði notað til þess að ráðast í það stórverkefni að bæta samgöngur milli Norðurlands og Austurlands. Og svo rís hér upp hver þingmaður Austfirðinga á fætur öðrum, nema auðvitað minn góði vinur, hv. þm. Egill Jónsson, og ég tala nú ekki um hinn guðsvígða mann . . . (Gripið fram í.) Fulltrúar Framsfl. og Alþb., það eru þeir sem rísa hér upp og lýsa ánægju sinni yfir því að þessar vegaframkvæmdir eigi að bíða fram á næstu öld. Það er ekki gert ráð fyrir því samkvæmt langtímaáætlun að koma þar neitt við sögu, bæta þar neitt úr skák, fyrr en á næstu öld. Fram á næstu öld skal það bíða að þeirra dómi að sómasamlegar samgöngur komist á milli Norðurlands og Austurlands. Nei, mér dettur svo sannarlega ekki í hug, hæstv. forseti, að taka þau ummæli mín til baka. Slíkt er með öllu óþolandi og dæmi um það að smásjónarmið ráði ef menn vilja ekki, á þeim áratug sem nú fer í hönd, ljúka við hringveginn. Ég hefði viljað setja mér háleitari markmið í þeim efnum, en alveg er fráleitt að geyma hluta hans til næstu aldar.