Málefni Ríkisútvarpsins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:59:00 (798)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Málefni Ríkisútvarpsins voru þó nokkuð mikið á dagskrá í seinustu kosningabaráttu og um þá stofnun blésu vindar sem ekki hafa blásið áður. Íslendingar hafa litið svo á að Ríkisútvarpið sé fyrir Íslendinga alla, í eigu okkar allra, og það sé hinn eðlilegi háttur, þannig eigi þetta að vera.
    Það hefur aftur á móti gerst eftir kosningar að þytur í tengslum við þessa stofnun hefur verið allmikill. Hinn almenni þingmaður hefur ekki vitað hvað væri að gerast eða hvað ylli hinum hörðu átökum innan Sjálfstfl. sem átt hafa sér stað. Eru það málefnaleg átök eða eru það persónuleg átök?
    Einnig er vitað að með því að langbylgjan er ekki í sambandi þessa stundina getur Ríkisútvarpið ekki þjónað landinu öllu né miðunum í kringum landið. Allir viðurkenna þó að Ríkisútvarpið er öryggistæki hvað þetta snertir og ég hygg að enginn efist um að það getur kostað mannslíf ef þetta ástand heldur þannig áfram mjög lengi. Ég leyfi mér þess vegna, herra forseti, að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. menntmrh.:
    1. Hvenær má ætla að útsendingar Ríkisútvarpsins á langbylgju geti hafist á ný?
    2. Hvaða stefnu hefur ríkisstjórnin í málefnum Ríkisútvarpsins?
    3. Má rekja úrsögn fulltrúa Sjálfstfl. úr útvarpsráði til stefnubreytinga í málefnum Ríkisútvarpsins?
    4. Hefur menntmrh. tryggt trúnað milli sín og nýkjörinna fulltrúa í útvarpsráði?
    5. Hvaða hugmyndir liggja á bak við þá ákvörðun að endurskoða lögin um útvarpsrekstur í landinu? Er e.t.v. ætlunin að leita eftir heimildum til að selja Rás 2 eða breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag?
    Ég tel að Ríkisútvarpið hafi unnið að því fremur og betur en nokkur önnur stofnun í landinu að tryggja það að hér byggi ein þjóð. Við höfum borið gæfu til þess, þó að skiptar væru skoðanir í stjórnmálum, að standa saman um að verja þessa stofnun og ég vona að svo verði í framtíðinni.