Málefni Ríkisútvarpsins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:09:00 (802)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Mér vannst ekki tími til áðan að svara varðandi langbylgjusendingarnar. Ég vísa til þess að ég svaraði fyrirspurn frá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni hér á Alþingi 24. okt. sl. varðandi það mál m.a. og ég get endurtekið hér lítinn hluta úr því svari þegar ég var búinn að skýra frá því að mastrið hefði fallið, sem allir vissu, þann 4. febr.: ,,Sem bráðabirgðaúrbætur vegna þessa hafa nýlega verið reist langbylgjumöstur á Vatnsendahæð um það bil helmingi lægri en þau gömlu. Uppsetning loftnets á milli mastranna er nýlokið. Prófanir á aðlögun loftnetsins er hafin þannig að útsendingar geta að öllu forfallalausu hafist í nóvember.`` Ég læt þetta svar nægja líka núna.
    Það er rétt sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði að ítarleg gögn eru til í ráðuneytinu varðandi endurskoðun útvarpslaganna og ég er sammála honum með það, að því leyti sem ég hef litið yfir þessi gögn, að síðasta endurskoðun var ítarleg. Það sem er verið að gera núna er að það er verið að líta yfir þessi mál í ráðuneytinu sjálfu. Ég hef ekki skipað nefndina enn þá til að endurskoða lögin. Ég mun fyrst láta fara rækilega yfir þetta af embættismönnum ráðuneytisins áður en næsta skref verður stigið og ég vonast til að þessu undirbúningsverki ljúki nú á allra næstu dögum.
    Það er alveg ljóst, eins og hv. þm. sagði, og ég hef komist að þeirri niðurstöðu líka, að það er nauðsynlegt að ljúka þessari endurskoðun á útvarpslögunum sem allra fyrst.
    Ég verð ekki var við á máli hv. þm. Svavars Gestssonar að það sé mikill munur á okkar skoðunum í áherslum á sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Ég er honum alveg sammála. Það þarf að tryggja það með einum eða öðrum hætti en til þess eru auðvitað ýmsar leiðir. Ein er sú sem hann nefndi að það verði sjálfseignarstofnun og ég er honum líka sammála að ástæða sé til að breyta hlutverki útvarpsráðs án þess að ég fari frekar út í það núna.