Málefni Ríkisútvarpsins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:20:00 (808)

     Hjálmar Jónsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil halda áfram að taka þátt í þessari umræðu. Í lögum um Ríkisútvarpið segir í 16. gr., og það varðar umræðu um sölu á Rás 2, sem menn hafa svo nefnt: ,,Ríkisútvarpið skal senda út til alls landsins og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring.`` --- Það er gert svo fremi sem lögum sé ekki breytt og þá er það á færi hins háa Alþingis og einskis annars.
    Ég vil minna á það líka, og er gott að fá til þess tækifæri hér, að tekjur Ríkisútvarpsins eru þrenns konar, þ.e. þeirra er aflað með þrennum hætti. Í fyrsta lagi gjöld fyrir útvarpsafnot, í öðru lagi auglýsingar og í þriðja lagi aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum. Þessi síðasttaldi liður hefur ekki fengist undanfarin ár, og það er slæmt mál, því að þar er ein helsta ástæðan fyrir því að Ríkisútvarpinu hefur ekki tekist að endurnýja og lagfæra dreifikerfið um landsins byggðir eins og það sannarlega vill gera. Alþingi hefur tekið þá ákvörðun og ábyrgðin er þess.