Sementsverksmiðja ríkisins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:39:00 (811)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :

     Virðulegi forseti. Við fyrri hluta þessarar 1. umr. um frv. til laga um að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag, sem fram fór 14. okt., beindi hv. 15. þm. Reykv. nokkrum spurningum og athugasemdum til iðnrh. sem mér er ljúft að leitast við að svara. Ég ætla líka í máli mínu að koma nokkuð að því sem hv. 3. þm. Vesturl. tók upp í sinni ræðu, sumt af því fellur reyndar saman við það sem hv. 15. þm. Reykv. hreyfði hinn 14. okt. sl.
    Í fyrsta lagi nefndi hv. 15. þm. Reykv. að það væri mikilvægt að hlutur og réttindi starfsfólks Sementsverksmiðjunnar yrði ekki afgangsstærð, eins og mig minnir að hún hafi orðað þetta, við þessa skipulagsbreytingu. Undir þetta sjónarmið er sjálfsagt að taka. Ég vil nefna í þessu sambandi að 15 eða jafnvel 20 starfsmenn Sementsverksmiðjunnar munu eiga rétt til lífeyris í Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna. Ég hef leitað álits ríkislögmanns á því að þeir geti átt kost á því að vera áfram félagar í þessum sjóði, skv. 2. mgr. 17. gr. laga um sjóðinn. En að öðru leyti munu kjör starfsmanna hins nýja hlutafélags fara eftir almennum kjarasamningum við starfsmenn verksmiðjunnar, eins og reyndar er nú í aðalatriðum, en þeir starfsmenn sem ég nefndi hætta að sjálfsögðu þátttöku í stéttarfélagi ríkisstarfsmanna. Það geta auðvitað komið upp vandamál í sambandi við svokallaða 95 ára reglu í lífeyrisréttindum ríkisstarfsmanna. Það er mitt álit að þetta mál eigi að leysa á breiðari grundvelli. Ekki eingöngu hvað varðar starfsmenn Sementsverksmiðjunnar. Það er reyndar boðað í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar í þeim kafla sem fjallar um einkavæðingu opinberrar starfsemi að þessi starfsmannamál verði tekin sérstaklega til meðferðar og leitað sanngjarnra lausna á þeim.
    Ég kem þá í öðru lagi að máli sem hv. 15. þm. Reykv. innti eftir, þ.e. hversu mikla skerðingu á tekjum Jöfnunarsjóðs þessi breyting hefði í för með sér.
    Ég vitna til athugasemda við frv. en á bls. 3 segir að miðað við árið 1990 hafi sá hluti af landsútsvari er rann í Jöfnunarsjóð vegna Sementsverksmiðjunnar og kom til almennrar úthlutunar til sveitarfélaga í landinu verið 7,5 millj. kr. Fyrirtækið greiddi þá reyndar landsútsvar, 10 millj. kr., vegna afkomu ársins 1989 og fékk Akraneskaupstaður þar af óskiptu 2,5 millj. En miðað við venjulegar aðstöðugjaldsreglur --- en auðvitað er ekki hægt að fullyrða um það fyrir fram því þar hefur sveitarfélagið ákvörðunarrétt --- hefði fyrirtækið greitt 7 millj. kr. til sveitarfélagsins. Með þessum tölum er í raun og veru spurningum þingmannsins svarað, bæði um það hverju Jöfnunarsjóður sleppir og hvað Akraneskaupstaður hreppir.
    Ég kem þá að því sem bæði hv. 15. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Vesturl. hafa gert hér að umtalsefni. Það eru áformin um sölu á hlutabréfum í verksmiðjunni. Það er nú fljótt frá því að segja að þetta frv. fjallar eingöngu um það að stofna hlutafélag um reksturinn. Ég lít á það sem meginatriði með rökum sem tínd eru til í athugasemdum við frv. og hv. 3. þm. Vesturl. gerði mér þann greiða að lesa upp að nýju. Að sjálfsögðu kemur til greina að selja hlutabréfin síðar en það er háð möguleikum á því að ná hagstæðu verði fyrir ríkissjóð. Samkvæmt frv., eins og skýrt kemur fram í því, er sala á hlutabréfunum háð samþykki Alþingis og mun vitaskuld gerð grein fyrir söluáformum þegar þau koma upp og heimildarinnar er leitað.
    Ég verð að játa að mér kemur það nokkuð á óvart að á Alþingi Íslendinga skuli koma fram raddir sem halda fram kostum ríkisrekstrar í framleiðslustarfsemi eins og þeirri sem hér um ræðir. Það er ekki laust við að mönnum þyki þetta nokkurri furðu sæta þegar þess er gætt að hvarvetna um hinn vestræna heim hefur það ráð verið tekið að leysa framleiðslu- og markaðsviðskiptaverkefni með einkaformi, samtökum einstaklinga, fyrirtækja og félaga fremur en að ríki hafi forsjá slíkrar starfsemi. Ég tala nú ekki um þá sögulegu tilraun að hafa þetta með öðrum hætti, sem stóð í 70 ár í austurhluta Evrópu og miðri

Evrópu, sem svo gersamlega hefur mistekist að menn þurfa ekki frekari vitna við, og reyndar merkilegt að það er yfirlýsing allra hinna nýju stjórna í hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu að framkvæma án tafar hliðstæðar breytingar og hér á Íslandi er verið að ræða á ákaflega gætilegan hátt, og reyndar margbúið að flytja um frv. Ég lít á þetta sem raddir aftan úr grárri forneskju.
    Það eru rök sem mæla með því að breyta rekstrinum í þetta form. Það er hugsanlegt að fyrirtæki sé allvel rekið eins og það er nú, en vegna þess sem hér var sagt um einkasöluaðstöðu eða einokunaraðstöðu, þá vildi ég taka það skýrt fram að í þeirri stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar sem hv. 3. þm. Vesturl. vitnaði til segir alveg skýrum orðum í sambandi við það áform að einkavæða hluta af opinberri starfsemi þar sem það er hyggilegt að þess verður gætt að einkafyrirtækjum verði ekki afhent einokunaraðstaða á markaði.
    Eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. hefur Sementsverksmiðjan ekki einokunaraðstöðu. Hún nýtur staðaryfirburða og hún nýtur að sjálfsögðu fjarlægðarverndar en það er svo að ofbjóði hún viðskiptavinum sínum, þá geta aðrir flutt þetta efni inn eins og sjálfsagt er og það aðhald dugir. Ég vil líka benda á að hún er að sjálfsögðu í samkeppni við önnur byggingarefni. Menn mega ekki líta svo nærri sér að þeir sjái ekki skóginn fyrir trjám.
    Með þessum orðum, virðulegi forseti, vildi ég gjarnan endurtaka þá tillögu sem staðgengill minn flutti hér við fyrri hluta 1. umr. þar sem hann lagði til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.