Sementsverksmiðja ríkisins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:02:00 (817)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég staldra dálítið við það hver sé hinn eðlilegi eignargæslumaður ríkisins. Fljótt á litið virðist það liggja beint við að það hljóti að vera fjmrh. en e.t.v. má segja sem svo þegar mál heyra undir ákveðin fagráðuneyti að það eigi að vera viðkomandi fagráðherra.
    Þetta leiðir til þess að undir sumum kringumstæðum hefur þessu valdi verið skipt, samanber Orkubú Vestfjarða, og ekki einum heldur tveimur ráðherrum falið að fara með þetta vald. Slippstöðin á Akureyri er annað ágætt dæmi. Um þetta atriði tel ég því dálítið ofsagt hjá hæstv. iðnrh. að sé sjálfgefið mál. Ég tel eðlilegt að þeir sem fá þetta mál til nefndar fari yfir það og skoði þann þátt sérstaklega hver sé eðlilegur eignargæslumaður ríkisins.
    Hitt atriðið sem ég tel umhugsunarefni er það að þar sem við búum við svo sérstakt kerfi að fáránlegustu verðbreytingar í landinu verða til að auka skuldir manna, þá geta menn spurt sjálfa sig hvort þetta leiddi til þess að ef verð á sementi hækkaði þá mundu allir þeir sem skulda fé Íslandi verða að greiða meira til sparifjáreigenda og banka. Kannski er það umhugsunarefni að þegar við tókum upp Bifreiðaskoðun Íslands hf. var ekki nóg

með það að þeir sem þurftu að láta skoða bílana þurftu að greiða meira, heldur gerðist það að allir sem skulduðu fé á Íslandi urðu að borga meira til sparifjáreigenda og til banka. En hvað gerist í þessu kerfi, sem er svo fullkomið gegnum vísitölukerfið, ef verðbólgan fer niður? Mundu þá skuldirnar eyðast af sjálfu sér? Nei, þá er kerfið þannig útbúið að það kúplar frá eins og sagt er. Það er enginn afturábakgír til í vísitölukerfinu.
    Ég varpa þessu inn í umræðuna til að sýna fáránleikann. En það væri vel þess virði að hæstv. viðskrh. tæki það mál til umhugsunar hvort kerfi sem virkar bara á annan veginn geti verið réttlátt og hvort það sé hugsanlegt að ef hann tæki þá ákvörðun að leyfa frjálsa álagningu á sementi og hefði ekkert verðeftirlit með því, þá væri hann í reynd að hækka vaxtabyrði í landinu með því móti að vísitalan yrði til þess að auka klyfjar á mönnum og fyrirtækjum.
    Ég kem þessu hér með á framfæri einfaldlega vegna þess að mér finnst salan á Sementsverksmiðju ríkisins undirstrika það rækilega að það gengur náttúrlega ekki að hafa þannig fjármálakerfi að ekki sé hægt að gera svona breytingar án þess að það komi inn í peningastjórn landsins. Þá er eitthvað stórt og mikið að. Þess vegna verður náttúrlega að skoða það mál alveg í botn. Er sú fullyrðing rétt eða röng? Hvaða áhrif hefur þetta á verðlagningu á sementi í landinu?