Lyfjaverð til öryrkja

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 18:08:00 (818)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. 19. júlí sl. skrifaði ég hæstv. heilbr.- og trmrh. bréf og óskaði eftir upplýsingum um hvaða áhrif nýsett lyfjareglugerð mundi hafa á lyfjaverð til öryrkja og aldraðra. Í raun og veru hefur mér aldrei borist svar við þessu bréfi en nýlega birti Sjálfsbjörg, Landssamband fatlaðra, niðurstöðu úr lyfjakönnun hjá tíu elli- og örorkulífeyrisþegum þar sem borið er saman hvað þeir greiddu fyrir 1. júlí 1991 og eftir 1. júlí 1991. Þeir miða við 100 daga skammt og einungis lyf sem notuð eru að staðaldri.
    Niðurstaða könnunar þeirra er sú að í fyrsta dæminu hækkar lyfjagreiðslan í heild úr 2.000 kr. í 20.000 kr. eða um 873%, í öðru dæminu um 613%, í þriðja dæminu um 117%, í fjórða dæminu um 326%, í fimmta dæminu um 1462%, í sjötta dæminu um 249%, í sjöunda dæminu um 163%, í áttunda dæminu um 298%, í níunda dæminu um 93% og í tíunda dæminu um 76%.
    Með öðrum orðum er hér um að ræða feiknarlegar hækkanir og hæstv. heilbrrh. hefur varið sig með því með því að hér sé fyrst og fremst um að ræða róandi lyf og svefnlyf. Það segir heldur ekki alla söguna því að þegar þessi lyfjaviðskipti eru skoðuð fyrir og eftir breytingu kemur í ljós að án róandi lyfja og svefnlyfja kostuðu þessir lyfjapakkar 15.243 kr. hjá öllum þessum einstaklingum fyrir hækkun en 76.838 kr. eftir hækkun. Hækkunin er 504%.
    Um leið og Sjálfsbjörg, Landssamand fatlaðra, birti þessa niðurstöðu sína, þá birtist blaðagrein frá nokkrum starfsmönnum Laugavegsapóteks þar sem það fram kemur að lyfjakostnaður þeirra sem njóta heimsendingarþjónustu Laugavegsapóteks hefur hækkað gífurlega eða um 122%, úr 229 kr. á lyfjaávísun í 509 kr. á lyfjaávísun.
    Með öðrum orðum: Það sem hæstv. heilbrrh. hefur haldið fram, að almennt sé ekki

um að ræða sérstaka hækkun til öryrkja og aldraðra, stenst ekki. Það hefur verið sannað með skýrum hætti að veruleg hækkun hefur átt sér stað.
    Þess vegna skora ég á heilbr.- og trmrh. að breyta reglugerðinni á ný og grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir að þessar hækkanir lendi sérstaklega á öryrkjum eins og sannað hefur verið samkvæmt þessum upplýsingum sem ég hef flutt og gæti reyndar rakið nánar.